Kristján Ómar Kristjánsson fæddist á Ísafirði hinn 30. ágúst 1933. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 27. júní síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni 4. júlí.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en augað sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.)

Elsku Kollý, Kristín, Sigrún, Dóa, Brynja og fjölskyldur. Við vottum ykkur dýpstu samúð okkar og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni. Minning Kristjáns mun lifa um ókomna tíð.

Ólöf (Ollý), Patrick, Jóna, Ólöf og Ágústa.

Elsku afi minn. Það er erfitt að sætta sig við raunveruleikann á svona stundu. Og sú hugsun að þú hafir kvatt mig nú um sinn er mér erfið. En þvílík forréttindi að hafa átt þig sem afa. Það verður erfitt að geta ekki sagt oftar: ,,Ég ætla að skreppa aðeins til Kóba afa og horfa á leikinn með honum." Ég man, afi minn, þegar ég var að vinna hjá þér og ömmu í Myndsýn á sumrin. Þá gisti ég ósjaldan hjá ykkur. Þá fórum við stundum saman út á vídeóleigu og alltaf fékk ég að velja mynd og hraust þú gjarnan yfir þeim en mér fannst það notalegt. Þá fengum við okkur yfirleitt alltaf þykkan súkkulaðisjeik og nammi með. Ekki fannst mér leiðinlegra þegar við fórum saman á völlinn og varð Hlíðarendi oftast fyrir valinu.

Það var alltaf gott að tala við þig og þú sýndir alltaf áhuga á því sem ég hafði að segja og var að gera hverju sinni og var það mér mikils virði. Það var líka gaman að sjá hvað hún Jóhanna mín féll vel í kramið hjá þér. Þú fórst ekki leynt með það hvað þér fannst gaman að fá okkur í heimsókn, tókst alltaf brosandi á móti okkur og faðmaðir okkur. Þó svo að Grímur Freyr og Haukur Leifur séu ungir að árum eiga þeir eftir að sakna þess að fá koss og knús frá Kóba langafa.

Ó, elsku afi, hvað ég á eftir að sakna þín og samverustundanna með þér, þær voru margar og skemmtilegar og ég mun ætíð geyma þær í mínu hjarta.

Þú gafst mér akurinn þinn,

þér gaf ég aftur minn.

Ást þína á ég ríka,

eigðu mitt hjarta líka.

( Hallgr. Pét.)

Guð varðveiti þig, elsku afi minn.

Þinn dóttursonur

Eiríkur Þór.

Elsku afi. Síðan þú veiktist hefur farið mikill tími í að rifja upp gamla tíma og koma margar minningar upp í hugann. Það var yndislegt að horfa á fótbolta með þér og tuða um það hver væri bestur. Þótt áhuginn hafi verið mikill tókst þér alltaf að sofna og hraust svo hátt að húsið skalf. Það er skrýtið að hugsa til þess að núna verður enginn afi í Depluhólum, enginn afi sem heimtar koss nánast í hvert skipti sem maður labbar framhjá. Þú varst alltaf góður við alla og fólki leið vel í nærveru þinni. Maður hlakkaði alltaf til að færa þér góðar fréttir því að þú varst svo stoltur af okkur öllum og lést okkur líða eins og við værum einstök og það skein alltaf í gegn hvað þú elskaðir okkur mikið. Þó að við söknum þín og elskum meira en orð fá lýst, er gott að vita að þú ert í góðum höndum núna.

Svo finni eg hæga hvíld í þér,

hvíldu, Jesú, í brjósti mér;

innsigli heilagur andi nú,

með ást og trú,

hjartað mitt, svo þar hvílist þú.

(Hallgr. Pét.)

Takk fyrir allan tímann sem þú gafst okkur, öll knúsin, alla kossana og ástina.

Kristín Helga og Hrafnhildur.

Elsku afi, það er svo margt sem rifjast upp þegar ég hugsa um þig og þann tíma sem við áttum saman, en það er hversdagslega spjallið við borðstofuborðið sem ég sakna mest því að þar gátum við rætt um alla hluti fram eftir nóttu. Það var alltaf jafn gott að koma í Depluhólana til þín og ömmu því móttökurnar sem maður fékk frá ykkur voru alltaf svo góðar, þú sagðir alltaf: Mikið ofsalega er gaman að sjá þig eða ykkur elskurnar, þegar Kolbrún var með mér. Það var eiginlega eins gott að amma skyldi oftast sitja með okkur við borðstofuborðið og spjalla með okkur því að hún hélt okkur á jörðinni þegar við vorum með mjög stórar hugmyndir á lofti, þær fóru reyndar aftur á flug þegar hún fór að sofa.

London-ferðin var alveg frábær og ég hefði ekki getað verið heppnari með ferðafélaga en þig þar sem þú þekktir borgina mjög vel og þú sýndir mér hana af þinni alkunnu snilld, t.d. með útsýnisferð í opnum strætó um borgina og mér varð svo kalt að ég var ekki talandi í nokkurn tíma á eftir. Og svo þegar hraðbankinn gleypti kortið mitt og þú varst einhverra hluta vegna með kortið hennar ömmu og við björguðum okkur bara á því.

Þegar við vorum saman þá voru ekki til vandamál heldur lausnir.

Ég er þér svo þakklátur fyrir margt en þó sérstaklega fyrir alla litlu hlutina, allt spjallið og ráðleggingarnar og leiðréttingarnar, það er ekki ,,mér langar", það er ,,mig langar". Það var alveg sama hvaða hugmyndir ég fékk, þær voru alltaf lagðar fyrir þig því að þú tókst svo vel á þeim.

Minningarnar um þig, afi, eru svo margar og góðar að ég (ekki ,,mér" heldur ,,ég") hlakka til að segja drengjunum mínum frá þér, þeim Benjamín Ómari og Kristófer Kort, þegar þeir eldast. Takk fyrir allt, afi minn og vinur.

Kristján Þórir.

Hann afi er dáinn, hann dó á föstudaginn.

Alltof fljótt, alltof snemma.

Fyrir mig, dótturdóttur hans, sem var stödd í Danmörku þegar hann veiktist voru það sársaukafullar mínútur þegar mamma hringdi og sagði mér tíðindin. Nokkrum stundum síðar flýg ég heim með von um að ég nái að kveðja hann. Hugsanirnar eru líka á flugi og hver myndin af afa og mér brjótast fram.

Afi var svo fínn og flottur. Við sjáum hann fyrir okkur alltaf vel klæddan með bindi og góðan sérstakan rakspíra sem einfaldlega heitir "afalykt". Faðmlagið hans var einstakt, hlýtt, þétt og svo ótrúlega öruggt.

Þegar við í fjöldskyldunni þurfum hlýju, þá biðjum við um afaknús og þá vita allir hvað átt er við.

Afi átti alltaf flotta bíla sem hann hafði bónaða og fína. Þegar ég, dóttursonur hans, var 17 ára keyrði hann mig í ökuprófið. Á leiðinni freistaðist hann til að brjóta nokkrar umferðarreglur og sagði kíminn að þetta mætti ekki endurtaka í prófinu.

Við eigum margar fallegar minningar um góðan afa sem lét okkur finna við værum uppáhalds afabörnin því fyrir honum var hvert barnabarn einstakt.

Milli afa og ömmu voru ákveðnar óskráðar línur um hlutverk hvors fyrir sig sem flestir skynjuðu og virtu nema ég afastelpan sem þótti sjálfsagt að fá þig til hjálpar við að reima skó og aðstoða við klósettferðir ofl. Undrandi varðstu við þessum óskum þó að þetta væri ekki þitt hlutverk.

Að horfa með þér á sjónvarp var kafli út af fyrir sig. Þú áttir þitt sæti í "stjórnstöðinni" eins og sjónvarpsherbergið var kallað og þér leið best með tvær fjarstýringar í höndunum. Þú hafðir dálæti á gömlum myndum og enginn dansaði eins og vel og Fred Astaire eða lék eins vel og Walter Matthau. Yngri dansarar eða leikarar náðu ekki að komast í hálfkvisti við þessa menn. Þegar svo e-ð skemmtilegt gerðist í myndinni mátti reikna með kröftugu olnbogaskoti eða selbita frá þér. Þú sofnaðir líka gjarnan yfir sjónvarpinu og þá þótti mjög heppilegt ef stillt var á góða stöð því það var útilokað að læðast og ná í fjarstýringarnar úr höndum þér.

Þú varst stór og sterkur, skemmtilegur, stjórnsamur og stríðinn en umfram allt góður afi.

Amma og þú voruð eitt. Við töluðum um ykkur í sama orðinu og samband ykkar einkenndist af trausti og hlýju sem allir fundu fyrir.

Kveðjustundin var sár en samt svo falleg og mild því allir voru sáttir saman eins og þú lagðir svo mikið uppúr.

Far þú í friði, elsku afi, og guð geymi þig.

Við styðjum ömmu eins og við best getum.

Þín elskandi barnabörn.

Sverrir og Sigrún.

Synir mínir komu að vanda kímnir heim sl. aðfangadag eftir hefðbundna á síðustu stundu dreifingu jólagjafa. Ástæðan var þá sem fyrr pakkaskipti í Depluhólum hjá Kristjáni og Kolbrúnu þar sem skemmtileg athugasemd hafði flogið eða saga sögð. Þeim hafði löngu lærst að þeir komust ekkert upp með að gera ekki a.m.k. stuttan stans þar á bæ hversu seinir sem þeir voru í jólahaldið heima, enda held ég að þeir hafi heldur ekki haft nokkra minnstu löngun til annars. Þeir gerðu einu sinni fyrir nokkrum árum tilraun til þess hafa lágmarksviðdvöl í Depluhólunum, verandi nokkuð seinir fyrir, og hljóp þá annar inn og sagði hinn bíða úti í bíl og yrði hann því að flýta sér. Kristján ansaði ekki svona fíflagangi, snaraðist hið skjótasta út á hlað og gaf bílhúkaranum ákveðna bendingu um að koma strax inn, sem hann að sjálfsögðu hlýddi hið bráðasta. Það hefur alltaf verið einstakt að vera samvistum við þau hjónin Kristján Ómar Kristjánsson, sem nú er kvaddur, og Kolbrúnu Halldórsdóttur. Bæði, örlát, trygg, hlý og fádæma skemmtileg. Sama er að segja um alla þeirra samheldnu fjölskyldu. Ég kynntist Kristjáni Ómari fyrir rúmum aldarfjórðungi er hann kom heim með manni mínum Ragnari en þeir höfðu kynnst nokkru fyrr á fundi. Kristján Ómar bjó skammt frá okkur og leið ekki á löngu þar til mikil vinátta varð milli fjölskyldnanna. Kristján var mjög félagslyndur maður og kom hann iðulega við hjá okkur í stutt spjall og kaffibolla á leið sinni heim á kvöldin. Hann var gæddur einstakri frásagnargáfu og var nánast eins og hann hefði músíkalskt eyra fyrir því hvar skyldi gera hlé á frásögn, til að hápunktur sögunnar fengi notið sín. Ekki spillti dimm og karlmannleg rödd hans fyrir. Þótt Kristján væri gæddur þeim dýrðareiginleika að taka sjálfan sig aldrei hátíðlega, fannst honum samt heldur verra þegar smellinn brandari hlaut þau dapurlegu örlög að falla flatur í eyrum hlustanda hans, sem horfði á hann þegar hápunkti hafði verið náð með spurningunni: "og?"

Kristján prýddu ótal aðrir kostir en sá að vera skemmtilegur. Hann var traustur vinur, hlýr og styðjandi sem tókst á við viðfangsefni lífsins af æðruleysi. Ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hann býsnast yfir neinu að undanskildum gróða kvótabraskara. Þegar kveðja skal jafnlitríkan og góðan vin og Kristján Ómar var reynist mér erfitt að draga fram þá fjölbreyttu mynd, sem hann bjó yfir. Það fyrsta, sem ég veitti athygli á sínum tíma var sjarmi og leiftrandi frásagnargáfa. Fljótlega kynntist ég gestrisni, vináttu og tryggð. Ég sá líka til hans sem eiginmanns, föður, afa og langafa umvefjandi fjölskyldu sína. Skaparinn skar ekki við nögl, þegar hann úthlutaði Kristjáni Ómari vöggugjöfum, en hann lét ekki þar við sitja heldur leiddi hann á veg hans ungs Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem var stærsta gjöf lífs hans. Í samfylgd Kolbrúnar fengu stærstu kostir Kristjáns notið sín og saman hlúðu þau að dætrum sínum og fjölskyldum þeirra á þann veg að leitun mun vera á samheldnari fjölskyldu.

Nú að leiðarlokum langar mig til, fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar, að þakka Kristjáni Ómari fyrir að hafa gefið okkur þá gjöf að verða vinur okkar. Kolbrúnu, Brynju Björk, Sigrúnu, Ásthildi Dóru og Kristínu ásamt fjölskyldum þeirra votta ég einlæga samúð.

Kristín Waage.

Elsku langafi. Takk fyrir alla kossana og öll faðmlögin sem þú eyddir óspart á okkur.

Jesús, af hjarta þakka ég þér,

þú, Jesús, varst í dag með mér,

gef þú mér, Jesús, glatt og rótt,

góða og sæta værðarnótt.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji guðs englar yfir mér.

( Hallgr. Pét.)

Tinna Björk, Einar, Bjarni Þór, Grímur Freyr, Haukur Leifur, Benjamín Ómar og Kristófer Kort.

Þrátt fyrir að eitt af því óumflýjanlega í lífinu sé dauðinn kemur hann ávallt jafnmikið á óvart og er alltaf jafnsár þeim sem næst standa. Það var okkur hjónunum þungbært að heyra á miðvikudagsmorgun að Kóbi, vinur okkar til margra ára, hefði fengið alvarlegt áfall og honum væri vart hugað líf. Stundin var svo komin á föstudagskvöldið; þá kvaddi hann þennan heim. Margt flýgur um hugann á stundum sem þessari og það er erfitt að skrifa um vini sína svo vel sé og án þess að fara út í smjaður eða oflof. Kunningsskapur okkar hjónanna við Kóba hófst fyrir um tveimur áratugum og aldrei man ég eftir að nokkur skuggi hafi nokkurn tíma fallið þar á, það er í raun mjög einstakt og segir margt um mannkosti hans og hæfileika til að umgangast fólk og rækta vini sína. Mér reyndar finnst þegar til baka er litið að vinskapur okkar hafi styrkst með tímanum og slípast. Ég man eftir að Kóbi hringdi gjarnan og sagðist sakna mín og sagði þá: "Við þurfum að hittast sem fyrst, við þurfum að fara að taka púlsinn á þessum málum," og átti þá gjarnan við stjórnmálin eða einhver þjóðþrifamál sem voru til umræðu þá stundina. Hvernig er betur hægt að rækta vini sína?

Fyrir um áratug varð til hópur nokkurra hjóna ásamt Kóba og hans góðu konu Kollýju sem kallaði sig Rjómaklúbbinn. Það var eins og nafnið bendir til matarklúbbur og einnig var farið í ferðalög þar sem hópurinn dvaldi oft langar helgar og naut samverunnar. Þar var ekki ónýtt að hafa Kóba með sem var eins og alltaf hrókur alls fagnaðar og hvers manns hugljúfi í senn.

Það er með trega og tárum að við hjónin kveðjum þig, Kóbi minn, og þökkum allar samverustundirnar sem við áttum saman. Við erum þess fullviss að hinum megin hefur þú fengið góðar móttökur gamalla vina og í fyllingu tímans munum við öll hittast, það er eitt af því óumflýjanlega við lífið.

Við viljum kveðja þig með sálmi Davíðs Stefánssonar.

Ég fell að fótum þínum

og faðma lífsins tré.

Með innri augum mínum

ég undur mikil sé.

Þú stýrir vorsins veldi

og verndar hverja rós.

Frá þínum ástareldi

fá allir heimar ljós.

Elsku Kollý, dætur og tengdafólk, megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Ingólfur og Elín.

Vinur minn, Kóbi, eins og Kristján Ómar var jafnan nefndur í vinahópi, lést skyndilega í síðustu viku. Þessi ljúfi og hjálpsami maður varð mér hjartfólginn nánast strax eftir kynni okkar seint á níunda áratugnum. Við tveir lentum í miklum hremmingum saman eftir nokkurra ára samstarf við rekstur meðferðarstöðvar fyrir Norðurlandabúa á Fitjum á Kjalarnesi. Öll framganga Kóba í uppgjöri þess rekstrar var einstök og lýsti mannkostum hans og æðruleysi betur en orð fá lýst. Þetta "slys" á lífsleið okkar Kóba skerpti einungis þá vináttu, sem þegar var á milli okkar. Kóbi hélt áfram sömu lífsviðhorfum, bjartsýni og húmor, sem voru svo yndislega rík í fari hans. Það segir mest um Kóba að aldrei varð okkur sundurorða vegna Fitjamálsins.

Nú síðustu ár má segja að kynni okkar hafi endurnýjast í sameiginlegum hópi vina, sem komu saman eigi sjaldnar en einu sinni í viku og ræddu allt milli himins og jarðar. Þar nutu frásagnarhæfileikar Kóba sín ríkulega. Hann var sögumaður góður. Hann var elstur í þessum litla hópi og sögurnar hans voru alltaf fullar af hnyttni og vöktu kátínu hjá okkur hinum.

Ég vil fyrir hönd félaganna, Eggerts, Jóns og Óla H. votta "mömmu", en það kallaði Kóbi sína ástkæru eiginkonu, Kolbrúnu, okkar innilegustu samúð svo og dætrum þeirra, barnabörnum og allri fjölskyldunni.

Sjálfur hef ég sjaldan kynnst öðru eins valmenni og þér, kæri vinur. Minning um góðan dreng deyr aldrei.

Bergur Guðnason.