Arnbjörg Markúsdóttir fæddist í Reykjavík 9. mars 1920. Hún lést á Landspítalanum hinn 16. júní síðastliðinn. Arnbjörg ólst upp í Reykjavík og bjó þar, fyrir utan síðustu 14 árin í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru hjónin Markús Jónsson, f. 22. feb 1891 á Lambastöðum Lundarreykjadalshr., d. 17.5. 1976, bryti, síðar bóndi, og konu hans, Jóhönnu Jónsdóttur, f. 8. júní 1980 á Hrauk í Sigluvíkursókn í Landeyjum, d. 15.9. 1973. Systkini Arnbjargar eru Jón Vídalín Markússon, f. 4.3. 1917, d. 11.9. 1960; Sigurd Evje Markússon, f. 6.8. 1918, d. 9.5. 1991; Margrét, f. 1.2. 1922; og Björn Markússon, f. 30.4. 1923, d. 3.8. 1971.

Maður Arnbjargar var Svavar Hjalti Guðmundsson, f. 5.4. 1913, d. 28.1. 1995. Þau skildu. Þeirra börn eru 1) Helga Jóhanna, f. 20.8. 1942, d. 8.11. 1993; 2) Sævar Geir framkvæmdastjóri, f. 30.1. 1944; og 3) Jóhann Guðmundur verkfræðingur, f. 10.2. 1948. Seinni maður Arnbjargar var Ingvar Vilberg Brynjólfsson, f. 11.9. 1918, d. 3.8. 2000.

Útför Arnbjargar verður gerð frá Lágafellskirkju í Mosfellssveit í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Þegar ég kynntist Arnbjörgu, tengdamóður minni, starfaði hún í Hnotunni, húsgagnaverslun á Þórsgötunni. Oft furðaði ég mig á hve margt af húsgögnum komst í þessa litlu búð en það var af því að öllu var svo haganlega fyrir komið og snyrtilega að alltaf virtist nægilegt rými. Þannig vann Adda, en það var hún oftast kölluð, allt var svo skipulegt og traust sem hún gerði. Hún giftist ung Svavari Guðmundssyni, kaupmanni og seinna vélstjóra, en þau slitu samvistum þegar börnin voru enn ung að árum. Adda vann lengst af við verslunarstörf, jafnframt að koma upp börnunum sínum þremur í fallega húsinu sínu við Laugaveginn. Dóttur sína Helgu missti hún fyrir níu árum og var það mikið áfall fyrir hana og alla í fjölskyldunni.

Móður sinni bjó hún gott skjól, sem hún hafði út af fyrir sig um mörg ár, eða þar til hún lést háöldruð.

Adda var einkar lagin við allt sem hún tók sér fyrir hendur og heimilið bar þess merki, fallegt hvar sem á það var litið og alltaf var hún að dytta að húsinu og gera það betra, bæði að innan og utan. Garðurinn hennar var lítill í kringum húsið en hver blettur nýttur og fegraður. Adda var fönguleg kona og naut virðingar og trausts í starfi, en stundum gustaði af henni ef henni mislíkaði, því hún var skapmikil og óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós, en hún var góður vinur og hlý við þá sem minna máttu sín og gerði sér far um að gleðja þá. Hún fluttist til Hafnarfjarðar, þegar húsið hennar, sem henni þótti svo vænt um, var fyrir í skipulagi Reykjavíkurborgar.

Eftir að börnin voru uppkomin bjó hún með Ingvari Brynjólfssyni heildsala, en hann vann síðan í mörg ár sem lagermaður hjá Lagmetinu. Þau áttu góð ár saman en hann lést fyrir tveim árum.

Það var alltaf notalegt að heimsækja Öddu því hún var ræðin og skemmtileg. Margar góðar minningar eru geymdar frá jólum og hátíðisdögum er fjölskyldan kom saman, yfir góðri máltíð, enda vildi hún halda fjölskyldunni saman þó stundum væri það erfitt, þar sem börn hennar dvöldu oft utanlands við nám og störf.

Yngri sonurinn, Guðmundur, hefur búið hjá móður sinni undanfarin ár og annaðist hana af mikilli nærgætni þegar veikindin knúðu á og að lokum buguðu hana.

Elsku Adda mín, ég er þakklát fyrir að hafa átt þig fyrir tengdamóðuir og geymi vel allar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Við Sævar kveðjum þig með trega og eftirsjá en trúum að vel sé tekið á móti þér handan við móðuna miklu.

Unnur.

Þegar ég frétti af andláti þínu, kæra systir, fylltist ég söknuði. Við áttum svo margar góðar minningar saman. Foreldrar okkar og bræðurnir þrír ungir og svo efnilegir. Þó var það sérstaklega móðir okkar, sem var okkur svo ástfólgin öllum. Einnig allar góðu stundirnar sem við áttum saman þegar ég kom heim til Íslands að heimsækja ykkur. Vertu sæl, kæra systir.

Samúð mín er með börnunum þínum, ég mun minnast ykkar allra í bænum mínum.

Margrét Markúsdóttir

Jones, Kaliforníu.

Nú þegar elsku amma mín er horfin á braut langar mig að þakka fyrir allar ánægjustundirnar sem við áttum í gegnum tíðina.

Sem krakka fannst mér alltaf gott að vera hjá ömmu og afa í gula timburhúsinu í gróðurvininni við Laugaveginn. Þar var ég heilu sumarfríin, dandalaðist um garðinn, heyrði sögur um Dísu ljósálf eða fékk aðstoð við handavinnu. Eina barnabarnið naut nefnilega heilmikilla forréttinda. Engin önnur fékk pallíettusaumaða silkikjóla fyrir allan dúkkuskarann, svo ekki sé talað um ýmislegt matarkyns sem foreldrarnir fengu ekkert að vita um. Síðan var það Kisa, villikötturinn sem smám saman varð að heimilisketti í gula húsinu, en leit þó bara við innvígðum heimilismeðlimum. En allt er breytingum háð, það gildir líka um lífið í timburhúsum við Laugaveg. Borgarskipulagið eirir engu, og í stað vinalegs timburhúss á grænum reit er nú steypuklossi. Amma og afi þurftu að finna sér nýjan stað að búa á. Amma var ekki manneskja sem læddist með veggjum og baðst afsökunar á tilveru sinni. Hún var sannkallaður skörungur, vinur vina sinna og barðist með kjafti og klóm fyrir sér og sínum. Þó varð hún að játa sig sigraða og flytja í Hafnarfjörðinn, en þótt nýja húsið væri að mörgu leyti hentugra þá var erfitt að sjá eftir heimilinu sem nostrað hafði verið við af alúð öll þessi ár.

Timburhúsið gekk hins vegar í endurnýjun lífdaga í Skerjafirðinum.

Amma var skarpgreind og snögg að lesa á milli línanna. Í barnaskóla tók hún tvö ár á einum vetri, og var hvött til frekara náms eftir gagnfræðapróf, en á þeim tíma var það ekki venjan að ungar stúlkur gengju menntaveginn. Hún kynntist Svavari afa og þau eignuðust þrjú börn. Það hjónaband endaði og varð hún þá einstæð með börnin. Þegar ég kom í heiminn bjó hún með Inga afa, sem var stakt ljúfmenni, og það var alltaf gott að vera hjá þeim. Amma fylgdist ávallt með þjóðmálum og var vel inni í öllu. Þó að heilsan yrði undan að láta síðustu árin þá hallaði aldrei undan fæti andlega, enda hefði það verið óþolandi fyrir mína stoltu ömmu. Það var oft gaman að ræða við ömmu um ýmis mál enda hafði hún góða kímnigáfu og skemmtilega greind. Einnig hafði hún mikinn áhuga á andlegum málefnum enda var hún næm á ýmislegt og upplifði margt sem gerði það að verkum að hún gat varla lokað augunum fyrir fleiri víddum tilverunnar.

Elsku amma mín, þakka þér fyrir að hafa gert líf mitt ríkara.

Þín

Guðrún Arnbjörg.

Þú sem hefur alltaf verið svo traust, einlæg og hlý. Þú kveður okkur núna. Nærvera þín mun samt alltaf fylgja okkur. Móðir þín kenndi þér gott kristilegt innræti, reyndar okkur öllum, þar sem hún var á heimilinu, þegar við ólumst upp. Faðir þinn kenndi þér réttsýni og ekki síður það að standa fast á rétti þínum. Minningin um þig er sem bjartur geisli á rökvísi þína, næman skilning, yfirvegun, dugnað, áræði og þrautseigju. Þú munt alltaf vera okkur mikil hvatning.

Guðsblessun fylgi þér, kæra mamma mín.

Þinn einlægur sonur

Guðmundur.

Það hryggði okkur mjög að frétta af andláti Öddu. Hún var svo yndislegur vinur Zuk-fjölskyldunnar til fjölda ára. Móðir mín, Dídí (Finndís Björnsdóttir Zuk), sem lést fyrir tveimur árum, og Adda kynntust fyrrst á fjórða tug síðustu aldar og voru góðar vinkonur allt þar til yfir lauk. Vinátta þeirra lifir áfram sem einlæg vinátta milli fjölskyldna okkar. Adda er ein af þeim ástæðum, sem gera Ísland okkur svo kært og það að við finnum til nándar við þetta land forfeðranna.

Adda var yndisleg persóna, hún var örlát, glæsileg, gestrisin, gáskafull, smekkleg, trygg og andlega sinnuð. Hún hugsaði alltaf fyrst um aðra og reyndi að gera öllum til hæfis. Hún reyndi alltaf að uppfylla allar okkar óskir. Í fjölmörgum heimsóknum mínum til Íslands skaust hún með mig á Þingvelli, eldaði uppáhalds íslenska matinn minn eða gaf mér minjagripi. Við sátum mörgum stundum og ræddum um drauma, spíritisma, hið liðna, nútíðina og stjórnmál. Þegar árin liðu skildist mér betur og betur hvað hún var merk kona og ég mat jafnvel enn meira langvarandi vináttu fjölskyldna okkar.

Við söknum þín, kæra Adda. Hún var okkur svo sannur vinur. Ég gleymi aldrei þeirri ástúð og umhyggju sem hún sýndi mér og allri fjölskyldu minni.

Við sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur og minnumst ykkar í bænum okkar.

William Zuk og fjölskylda, New York.