Óskar Jónsson fæddist í Reykjavík 12. desember 1937. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík 29. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson rennismiður, f. 21. október 1908, d. 29. ágúst 1982, og kona hans, Sesselja Hannesdóttir húsmóðir, f. 15. desember 1913, d. 19. mars 1955. Bróðir Óskars var Helgi Kristinn prentari, f. 27. maí 1932, d. 3. apríl 1993, kvæntur Þóru Guðmundsdóttur, f. 16. febrúar 1932. Hálfsystir Óskars, samfeðra, er Edda Guðrún, f. 10. júlí 1958, gift Friðriki Sigurðssyni, f. 5. maí 1958.

Óskar kvæntist 12. september 1959 Hjördísi Jensdóttur, innheimtu- og þjónustustjóra hjá BM Vallá, f. 7. febrúar 1940. Foreldrar hennar voru þau Jens Elías Guðmundur Guðjónsson bifvélavirki, f. 19. júlí 1903, d. 26. október 1982, og Elín María Gunnarsdóttir húsmóðir, f. 12. nóvember 1909, d. 30. júní 1981. Börn Óskars og Hjördísar eru: 1) Sigrún, hjúkrunarfræðingur á skurðdeild Landspítalans við Hringbraut, f. 29. desember 1959, hennar maður er Guðmundur Þór Egilsson, tæknimaður hjá DV, f. 23. júní 1957. Börn þeirra eru Hjördís, f. 12. nóvember 1984, og Ívar, f. 16. október 1993; 2) Jón Viðar, tæknimaður hjá Frumherja, f. 13. júlí 1961, kona hans er Guðrún Eggertsdóttir, myndlistarkona, f. 12. janúar 1964. Börn þeirra eru Óskar, f. 23. nóvember 1983, Rakel, f. 24. nóvember 1987, og Berglind, f. 30. nóvember 1989.

Óskar lærði ungur að árum vélsmíði hjá Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík. Hann starfaði því næst í nokkur hjá Vita- og hafnamálastofnun, þá í um áratug hjá Slökkviliði Reykjavíkur og svo hjá Álverinu í Straumsvík. Að loknu frekara námi hóf hann skrifstofustörf hjá Hitaveitu Reykjavíkur og starfaði þar meðan heilsa hans leyfði.

Óskar var einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Esju í Reykjavík og starfaði með þeim af miklum áhuga allt til æviloka.

Útför Óskars verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Við vitum öll að það eina sem er öruggt í þessu lífi er að fæðast og deyja en samt erum við aldrei tilbúin þegar kær vinur fer og alltaf er jafnerfitt að sætta sig við dauðann. Hann Óskar er farinn en hann skilur eftir sig fjársjóð af góðum minningum sem gott er að gleðjast yfir.

Óskar var fæddur og uppalinn á Njálsgötunni í Reykjavík og þar bjó hann ásamt foreldrum sínum og eldri bróður. Þaðan átti hann bæði ljúfar og sárar minningar, hann missti móður sína þegar hann var aðeins 14 ára og það hafði án efa meiri áhrif á sálarlíf unga mannsins en nokkurn grunar. Alltaf var mjög kært á milli þeirra bræðra en nú eru þeir báðir farnir. Seinna eignaðist Óskar hálfsystur sem hann ræktaði sambandið við af alúð. Óskar var hreinn og beinn í framkomu, mannblendinn og húmorinn í góðu lagi og það var ekki hans stíll að vera með smjaður né kærði hann sig um fagurgala.

Hann var Kiwanis-maður og starfaði lengi með hreyfingunni eða svo lengi sem heilsan leyfði.

Ekki er hægt að nefna Óskar án þess að Hjördís fylgi með, það er eiginlega ómögulegt, enda var það ævinlega þannig að bæði voru oftast nefnd samtímis.

Óskar og Hjördís voru ung þegar þau ákváðu að eyða lífinu saman. Þau voru ein af þessum heppnu pörum sem lánaðist að ganga samtaka í gegnum lífið og njóta þess að vera saman og með börnunum tveimur, Sigrúnu og Jóni, og seinna mökum þeirra, Guðmundi og Guðrúnu, ásamt barnabörnunum fimm, Óskari, Rakel, Berglindi, Hjördísi og Ívari, sem sakna nú pabba og afa meira en orð fá lýst.

Óskar og Hjördís höfðu mikla ánægju af að ferðast bæði innanlands og erlendis og gerðu þau það óspart á meðan heilsa Óskars leyfði.

Við hjónin vorum svo heppin að eiga þau hjónin að vinum og ferðuðumst við mikið saman. Við eigum eftir að ylja okkur við að rifja upp og skoða albúmin sem geyma minningar um allar skemmtilegu ferðirnar um landið, sérstaklega ferðina um Vestfirði og Hesteyri og ótal fleiri ferðir á fallega staði í íslenskri náttúru og ekki má gleyma ferðinni til Tenerife né öllum gleðistundunum á Guðrúnargötu 6.

Það er svo ótal margs að minnast eftir áratugalanga vináttu, sem ekki er hægt að telja upp hér.

Síðustu árin voru Óskari erfið en hann tókst á við veikindi sín af miklu æðruleysi og baráttan var oft hörð en hann vann líka margar loturnar og komst á fætur og heim til Hjördísar sinnar sem alltaf átti hug hans og hjarta og var hans stoð og stytta í gegnum sætt og súrt. Hann átti góðan tíma heima á milli, þessi síðasta lota var ekki sú lengsta, en sú erfiðasta og nú er baráttunni lokið og hvíldin er komin.

Drottinn er minn hirðir, mig mun

ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig

hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(Úr 23. Davíðssálmi.)

Við kveðjum kæran vin og góðan dreng.

Ármann og Kristín.

Það kom okkur Kiwanisfélögum í Esju ekkert sérstaklega á óvart að heyra um andlát félaga okkar Óskars Jónssonar.

Hversdagshetja er orð sem oft er notað um það fólk sem þarf að berjast harðri baráttu í hinu daglega lífi, fólk sem oftast kemur standandi niður og herðist við hverja raun. Óskar var þannig maður. Hann reyndi sitt af hverju og á síðustu árum mikil veikindi, en það var eins og ekkert biti á hann. Hann var ekki að kvarta og þegar spurt var um líðan sagði hann oft: "Það eru margir sem hafa það miklu verr en ég." Það leiðir af sjálfu sér að slíka menn er gott að eiga að félögum. Hann var áhugasamur um málefni klúbbsins og málefni Kiwanishreyfingarinnar almennt. Hann sótti fundi og þing innanlands sem utan og hafði gaman af því að taka menn tali og spjalla. Þau hjón bæði, Hjördís og Óskar, voru aufúsugestir víða og vel látin.

Óskar var einn af stofnfélögum Kiwanisklúbbsins Esju árið 1970 og tók virkan þátt í starfi hans. Hann gegndi öllum helstu skyldustörfum og embættum og var forseti 1990-1991. Hann mætti ætíð til fundar nema brýnar ástæður hindruðu og var jafnan kátur og glaður og setti svip sinn á hópinn. Skarð hefur verið höggvið í raðir okkar.

Það er eðlilegur gangur að klúbbur sem starfað hefur í 30 ár sjái á eftir félögum sínum til annarra heima. Eftirsjá er jafnan þegar slíkt hendir, en jafnframt þakklæti fyrir svo margt. Þakklæti fyrir margar góðar stundir í glöðum hópi, fyrir framlag til góðra málefna og undirtektir við ýmis framtíðaráform. Kiwanisklúbburinn Esja færir Hjördísi og börnum, tengdabörnum og barnabörnum hugheilar samúðarkveðjur og þakkar samfylgdina.

Esjufélagar.

Veðurstofan hafði spáð sólskini og hlýindum um helgina og fékk skammir fyrir, enda hellirigndi en var undurhlýtt. Þessa daga háði hinn æðrulausi vinur minn Óskar Jónsson dauðastríð sitt. Áður hafði hann tvívegis haft bústaðaskipti 29. júní.

Það var gæfa að hitta Óskar þegar við Hjördís kynntumst í Landssamtökum ITC. Við urðum fljótt góðir vinir. Sjálfur var hann virkur félagi í Kiwanisklúbbnum Esju til dauðadags. Það var í upphafi tölvualdarinnar og ósjaldan var bankað uppá hjá þeim hjónum á Guðrúnargötunni. Óskar gerði dagskrána fyrir okkur í ITC-deildinni Irpu í mörg ár. Hann var líka fyrstur manna til að mæta þegar við fögnuðum á merkisdögum og fyrir allt þetta var hann gerður að "besta vini Irpu".

Ósjaldan var boðið í mat og nú var það á Skúlagötu 44 þar sem útsýnið yfir sundin blá er síbreytilegt og óviðjafnanlegt.

Þær eru góðar minningarnar um bíltúra út í íslenska náttúru með bílstjóra sem kunni svo vel skil á landslaginu. Þau voru líka skemmtileg dansiböllin, þá munaði hann ekkert um að vera með tvær í takinu. Honum leist ekkert á að ég fengi mér aftur mann. Og nú dönsum við ekki meir.

Í löngum veikindum sýndi Óskar slíkt æðruleysi að undrum sætti og þótt frelsi hans til ferðalaga hefði verið skert gladdist hann og fylgdist með öðrum sem lögðu land undir fót og yljaði sér við minningar enda víðförull maður. Við áttum það sameiginlegt, við Óskar, að skipta okkur ekki mikið af veðri eða veðurspám.

Vinir okkar og vinkonur í Landssamtökum ITC hafa beðið fyrir Óskari. Nú er hugurinn hjá Hjördísi og fjölskyldunni.

Hverju sem spáð er þá er það himnasmiðurinn mikli sem ákveður. Í dag bið ég þann smið að senda yfir beðinn hans Óskars mikið af sólskini sem hann sannarlega verðskuldar og vaka yfir honum og fólkinu hans um ókomna tíð. Bestu þakkir.

Anna M. Axelsdóttir.