Elísabet Bogadóttir fæddist á Kaupangi í Eyjafirði 5. október 1909. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29. júní síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Grindavíkurkirkju 5. júlí.

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín,

tárin þorna sérhvert sinn

er þú strýkur vanga minn.

Þegar stór ég orðin er

allt það launa skal ég þér.

Elsku mamma mín, ég þakka þér fyrir allt, ég þakka Guði fyrir að fá að hafa ykkur svona lengi, þig og pabba. Það skilur eftir svo miklar og dýrmætar minningar, sem enginn getur tekið frá mér. Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér og að við eigum eftir að hittast seinna.

Þín dóttir

Guðbjörg (Bubba).

Dagur líður, fagur, fríður,

Flýgur tíðin í aldaskaut.

Daggeislar hníga, stjörnurnar stíga

stillt nú og milt upp á himinbraut.

Streymir niður náð og friður,

Nú er búin öll dagsins þraut.

(V. Briem.)

Elsku amma. Enginn veit betur en við hversu heppin við vorum að eiga þig sem ömmu því að betri amma og vinur er ekki til. Þótt þú sért dáin vitum við að þú hugsar áfram um okkur eins og þú gerðir alltaf þegar þú varst á lífi. Við viljum þakka þér allar góðu stundirnar sem við áttum með þér í sumarbústaðaferðum fjölskyldunnar því að óhugsandi var að fara í sumó nema þú og afi kæmuð með. Aldrei fannst okkur jólin vera komin fyrr en þið afi voruð komin í bæinn til mömmu. Elsku amma, við viljum þakka þér fyrir allar kleinurnar og sætabrauðið sem þú bakaðir handa okkur og hafa runnið ómælt ofan í okkur í gegnum tíðina. Kleinurnar þínar voru þær bestu í heimi þó að þú segðir stundum sjálf að þær væru alveg mislukkaðar. Það á eftir að taka sinn tíma að venjast því að þú sért ekki lengur hjá okkur en minningin um þig er okkar dýrmætasti gimsteinn sem hvert okkar mun varðveita í hjarta sínu.

Elsku mamma og Gréta, þakka ykkur fyrir hvað þið hugsuðuð vel um ömmu og gerðuð allt sem þið gátuð til þess að láta henni líða sem best.

Eyðist dagur, fríður, fagur,

fagur dagur þó aftur rís:

Eilífðardagur ununarfagur,

eilíf skín sólin í Paradís.

Ó, hve fegri' og yndislegri

unun mun sú, er þar er vís.

(V. Briem.)

Þín barnabörn,

Emma, Grétar og Brynjar.

Margt flýgur um huga minn er ég skrifa þetta.

Fyrsta minning mín um þig og afa var í Reykjavík á Bergstaðastrætinu. Þá bjó ég hjá ykkur meðan ég var í Austurbæjarskóla. Þú varst strax farin að kenna mér lífsreglurnar, m.a. að lesa og skrifa. Ég hafði lítinn áhuga á því en vildi miklu heldur spila sem þú varst einnig að kenna mér. Ég hugsa með söknuði til litla gula hússins á Austurvegi í Grindavík, sem þú og afi fluttuð í. Þau sumur sem ég vann í frystihúsinu varstu alltaf með kaffi og mat fyrir mig og oft hafði ég varla tíma til að borða því að lætin voru svo mikil að byrja að spila. Okkar bestu stundir voru við spilaborðið og ég skal alveg viðurkenna núna að þú vannst mig nokkuð oft. Stundum henti ég spilunum í borðið og blótaði meðan þú og afi hlóguð að mér og klöppuðuð sem er eðlilegast, því við vorum spilafífl.

Ein kona sagði við mig að ég væri heppinn að eiga ömmu og afa. Það var vissulega rétt, en þið voruð miklu meira en bara það. Þið voruð vinir mínir, spilafélagar og um tíma gegnduð þið foreldrahlutverki.

Alltaf gat ég leitað til þín, elsku amma mín, og ég ætla að halda því áfram í bæn. Þó að ég sjái þig ekki mun ég finna fyrir þér. Þú munt aldrei fara úr hjarta mínu. Það voru forréttindi að hafa þig svo nálægt mér þessi rúm 31 ár. Því tel ég mig mjög heppinn mann. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér. Þolinmæði þín, ást og umhyggja í minn garð er ómetanleg. Ég á eftir að sakna þín, amma mús. Eins og þú varst sjálf vön að segja: "Ekkert kníferí með hálfa brauðið, punktur og basta."

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

(Steinn Steinarr.)

Þinn

Jóhann Þorgrímur (Issi).