9. júlí 2003 | Miðopna | 318 orð | 1 mynd

Íslenskt sement eignast Sementsverksmiðjuna

Með sölu Sementsverksmiðjunnar fyrir 68 milljónir króna hverfur íslenska ríkið af markaði eftir 45 ára eignarhald í verksmiðjunni. Eyrún Magnúsdóttir leitaði álits á sölunni.
ÍSLENSKT sement ehf. náði í fyrradag samkomulagi við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um kaup á Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi. Verksmiðjan hefur verið í eigu íslenska ríkisins frá árinu 1958 en var breytt í hlutafélag árið 1994. Allt hlutafé verksmiðjunnar, alls 450 milljónir króna að nafnvirði, er í eigu ríkisins. Söluverðið sem gefið er upp í tilkynningu frá einkavæðingarnefnd, sem er fulltrúi ríkisins í viðræðunum, nemur 68 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að endanlega verði gengið frá kaupsamningi um næstu mánaðamót og að þá taki nýir eigendur formlega við verksmiðjunni.

Fyrirtækið sem kaupir verksmiðjuna, Íslenskt sement ehf., er í eigu Framtaks fjárfestingarbanka hf., BM Vallár ehf., Björgunar ehf. auk norsku sementsverksmiðjunnar Norcem AS sem er í eigu Heidelberg-samsteypunnar, þriðja stærsta sementsframleiðanda heims.

Fimm hópar fjárfesta sóttust eftir viðræðum um kaup á hlut ríkisins í Sementsverksmiðjunni þegar hann var auglýstur til sölu í mars síðastliðnum. Sá hópur sem nú hefur gert samning við einkvæðingarnefnd um kaupin breyttist á viðræðutímabilinu þegar Steypustöðin ákvað að draga sig út og Norcem AS kom inn í staðinn. Umsjón með útboði á hlut rikisins í Sementsverksmiðjunnar hafði MP Verðbréf.

Innsend tilboð voru metin út frá einkunnagjöf og viðræðum við tilboðsgjafa þar sem tekið var tillit til verðs, áhrifa sölu á samkeppni á íslenskum byggingamarkaði, fjárhagslegs styrks, framtíðarsýnar um rekstur fyrirtækisins, starfsmannamála og þekkingar á þeim markaði sem verksmiðjan starfar á svo eitthvað sé nefnt. Í kjölfar viðskiptanna við Íslenskt sement ehf. mun ríkissjóður yfirtaka lífeyrisskuldbindingar upp á rúmar 400 milljónir króna. Þær skuldbindingar hvíldu á herðum ríkisins áður en verksmiðjan var gerð að hlutafélagi og tekur ríkissjóður nú við þeim á ný. Ennfremur yfirtekur ríkissjóður tilteknar eignir Sementsverksmiðjunnar sem ekki tengjast rekstri hennar. Um er að ræða skrifstofuhúsnæði, eignarhluti í öðrum fyrirtækjum og fleira.

Um 65 manns starfa hjá Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi í um 62 stöðugildum. Tilvonandi eigendur verksmiðjunnar hafa þegar lýst því yfir að einhverjum starfsmönnum verði sagt upp.

eyrun@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.