ÓLAFUR Torfason, eigandi Hótels Reykjavíkur og Grandhótels, hefur tekið á leigu rekstur hótels sem fyrirhugað er að rísi við Aðalstræti 16 og ljúka á við í apríl 2005.

ÓLAFUR Torfason, eigandi Hótels Reykjavíkur og Grandhótels, hefur tekið á leigu rekstur hótels sem fyrirhugað er að rísi við Aðalstræti 16 og ljúka á við í apríl 2005. Framkvæmdaraðili og eigandi hótelsins er eignarhaldsfélagið Innréttingarnar, sem að standa Minjavernd og fasteignafélagið Stoðir.

Nafn hins nýja hótels verður Hótel Reykjavík - Aðalstræti og gildir leigusamningurinn, sem í er kaupréttarákvæði, til 15 ára.

Að sögn Ólafs mun hann fyrst um sinn áfram gegna starfi hótelstjóra á Grandhóteli en reiknar með að snúa sér alfarið að rekstri nýja hótelsins þegar fram í sækir. Hann verður þó ekki hótelstjóri þess. Ólafur hefur starfað í hótelrekstri um ellefu ára skeið og gegnt starfi hótelstjóra á Grandhóteli frá árinu 2001.

Stefnt er að því að hefjast handa við jarðvinnu í tengslum við hótelframkvæmdirnar í Aðalstræti í næsta mánuði og á þeirri vinnu að ljúka í desember en þá verður hafist handa við uppsteypun hússins. Að sögn Ólafs má reikna með að 25-30 manns starfi á Hóteli Reykjavík - Aðalstræti.