Halldór Viðar Sanne
Halldór Viðar Sanne
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Farsímavæðingin í Bandaríkjunum hefur tekið flugið og fjölmörg fyrirtæki sjá sér leik á borði. Íslenska fyrirtækið SmartSMS er eitt þeirra, en það býður SMS-þjónustu á yfirverði. Gísli Þorsteinsson ræddi við Halldór Viðar Sanne, framkvæmdastjóra hjá SmartSMS, Inc.

SMS-notkun [Short Message Service] hefur vaxið gríðarlega um heim á liðnum árum, einkum í Evrópu þar sem met er slegið í skeytasendingum á hverju ári. Má nefna Bretland sem dæmi þar sem átta milljarðar skeyta voru send milli þarlendra notenda á síðasta ári, að því er fram kemur á vefsvæðinu nua.com. Farsímavæðing og vinsældir textaskilaboða hafa hins vegar ekki náð til Bandaríkjanna fyrr en nú. Einkum hefur notkun vaxið meðal ungmenna þar í landi, en talið er að 70% bandarískra háskólanema noti farsíma, að mati greiningafyrirtækisins Yankee Group. Jafnhliða vaxandi farsímanotkun hefur SMS-skeytasendingum fjölgað og vilja fyrirtæki í farsímaiðnaði að hluta til þakka það American Idol-sjónvarpsþáttunum. Þættirnir voru gagnvirkir að því leyti að áhorfendur þurfa að senda SMS-skilaboð til þess að ákveða örlög keppenda í þáttunum.

Halldór Viðar Sanne, framkvæmdastjóri hjá SmartSMS, Inc. segir að allt að því fimm milljónir manna hafi sent SMS-skeyti í tengslum við þættina, sem þykir mikið á bandaríska vísu. Hann segir að fjölmargir hafi þar með komist á bragðið og margir haldi áfram að senda SMS. Hann segist sjá mörg þau teikn á lofti í Bandaríkjunum nú sem hafi einkennt uppgangsárin í farsímaiðnaði í Evrópu fyrir nokkrum árum. Hann kveðst af þeim sökum hafa slegið til og ákveðið að hasla fyrirtækinu völl í Bandaríkjunum með því að bjóða upp á SMS-þjónustu á yfirverði, svo sem hringitóna, leiki og tákn fyrir farsímanotendur og samninga við fyrirtæki um virðisaukandi SMS-þjónustu. SmartSMS, Inc. hefur gert samning við fjarskiptafyrirtækið EI (Eletcronic For Imaging) sem tryggir fyrirtækinu að farsímanotendur alls staðar í Bandaríkjunum geta notfært sér þjónustu sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Samningurinn sparar fyrirtækinu fjárhæðir varðandi tekjuskiptasamninga við símfélög í Bandaríkjunum og gerir því kleift að ná til allra GSM-farsímanotenda í Bandaríkjunum. SmartSMS, Inc. hefur hins vegar ákveðið að festa rætur í Los Angeles í Kaliforníu þar sem fyrstu skrefin verða stigin.

200 þúsund skeyti á einum mánuði

"Bandaríski markaðurinn er allt annar heimur en sá sem við þekkjum í Evrópu. Hér í Kaliforníu eru 34 milljónir manna og níu milljónir farsímanotenda. Þá er GSM ekki ráðandi kerfi eins og í Evrópu, þó að hlutföllin séu óðum að breytast GSM í hag. Aðstæður eru því gjörólíkar. Unga fólkið er þó að taka þessari tækni opnum örmum. Það eru því spennandi tímar fram undan. Til dæmis má nefna mikla möguleika í hringitónaþjónustu, en fleiri hringitónar heldur en smáskífur seldust á öllu síðasta ári. Bandaríkjamenn tóku ekki þátt í þessari byltingu. Það seldust aðeins 50 þúsund hringitónar þar í landi í fyrra, bara í gegnum Netið og ljóst að Bandaríkjamenn eiga eftir að uppgötva þennan möguleika."

Halldór segir að líkja megi markaðinum í Bandaríkjunum að mörgu leyti við þann íslenska þegar SmartSMS hóf starfsemi á Íslandi fyrir um tveimur árum, en þá var SMS á yfirverði ekki til staðar. "Við vorum fyrstir til að bjóða SMS á yfirverði á Íslandi og lögðum

línurnar að þeim markaði sem nú er til staðar heima. Það má áætla að velta af SMS-þjónustu á yfirverði hafi ekki verið undir 20 milljónum króna á Íslandi í síðasta mánuði. Þá er einungis átt við SMS sem kostar meira en 14 krónur. Áætlaður fjöldi skeyta hefur því verið rúmlega 200 þúsund. Þar á SmartSMS langstærstan hluta af þeirri sneið, eða yfir 80%."

Samningur við LA Lakers

SmartSMS, sem var stofnað á Íslandi árið 2001, er í raun þrír angar af sama meiði: í fyrsta lagi SmartSMS Ísland, í öðru lagi SmartSMS International og loks Smart SMS, Inc. sem hóf rekstur fyrr á þessu ári. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að vera í meirihlutaeign bræðranna Halldórs Viðars Sanne og Engilberts Hafsteinssonar. Rekstur SmartSMS á Íslandi er nú að stærstum hluta til í eigu X-lausna en vörumerkið er eign SmartSMS, Inc. Halldór segir mikilvægt að hefja rekstur í Los Angeles í Kaliforníu þar sem borgin er samofin afþreyingariðnaðinum og fyrirtækið hafi lagt áherslu á að gera einkasamninga við dagblöð, tímarit, tónlistarmenn og skyndibitastaði. Samningar í deiglunni eru meðal annars við körfuknattleiksliðið LA Lakers, útgáfufyrirtækið sem gefur út Hustler og spilavíti og hótel í Las Vegas. "Þeir sem við höfum talað við hafa tekið okkur opnum örmum og fólk á ekki orð yfir þeim möguleikum sem felast í einföldum SMS-skilaboðum."

Starfsemi SmartSMS, Inc. er að hluta til í eigu sænska fjárfestingarfyrirtækisins Argnor og tæknifyrirtækisins Viva Norge, sem er sameiginlegt fyrirtæki Viva og íslenska fyrirtækisins Maskínu, en þau sameinuðust fyrr á þessu ári. 10 manns starfa hjá SmartSMS, Inc. í Kaliforníu,

Spurður hvað valdi því að Bandaríkjamenn hafi ekki tekið jafn miklu ástfóstri við SMS eins og Evrópubúar segir Halldór nokkrar ástæður liggja að baki.

"Ein helsta ástæðan er sú að mörg símafyrirtæki hér í Bandaríkjunum hafa ekki stuttsendingar þar sem þau keyra á mismunandi kerfum. Þá hafa notendur ekki átt þess kost að senda á milli skeyti þar sem þeir tengjast ólíkum símafyrirtækjum. Það má líkja þessu við að notendur hjá Og Vodafone og Símanum hafi ekki geta sent skeyti sín á milli. Hins vegar hefur símafyrirtækið AT&T riðið á vaðið og svo hafa önnur fyrirtæki fylgt í kjölfarið að undanförnu," segir Halldór og bendir á að markaðurinn fyrir SMS sé rétt að opnast í Bandaríkjunum.

Spurður hvort það komi ekki að því að fyrirtæki, sem vilja hagnast á SMS-sendingum, komi sér upp eigin búnaði í stað þess að gera samninga við fyrirtæki eins og SmartSMS segir Halldór að hann hafi spurt sig þessarar spurningar frá upphafi, eða frá því að hann kynntist SMS á yfirverði í Noregi fyrir nokkrum árum. "Það virðist eins og fyrirtæki vilji láta önnur fyrirtæki eins og SmartSMS sjá um þessa hlið mála. Ástæðan er sú að við erum ekki aðeins að selja tækni heldur erum við að selja hugmyndir að leikjum eða tilboðum sem fyrirtæki geta notfært sér. Við erum ekkert annað en markaðsfyrirtæki. Stórfyrirtæki, sem vilja drýgja tekjur sínar eða vekja athygli á sér með þessum hætti, geta fjárfest í tæknibúnaði til þess að notfæra sér þær hugmyndir sem eru til staðar, en það hefur ekki gerst enn þá."

gislith@mbl.is