LANDSVIRKJUN tók nýverið stærsta sambankalán sem tekið hefur verið af íslenskum aðila. Um er að ræða veltulán til 5 ára að fjárhæð 400 milljónir dollara eða um 31 milljarður króna. Alls standa 19 bankar að láninu, þar af þrír íslenskir.
Veltulánum svipar til yfirdráttarheimilda að því leytinu að um er að ræða tryggan aðgang að fjármagni þegar á þarf að halda. Að sögn Stefáns Péturssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, verður lánið fyrst og fremst notað sem baktrygging, ef aðrar fjármögnunarleiðir Landsvirkjunar lokast eða verða erfiðar á næstu árum.
Baktrygging ef skulda- bréfamarkaðir lokast
Landsvirkjun þurfi að hafa góðan aðgang að lausafjármagni meðan á virkjanaframkvæmdum stendur við Kárahnjúka og segir Stefán að veltulánið tryggi það. Hann segir erlenda skuldabréfamarkaði vera aðalfjármögnunarleið fyrirtækisins en til lánsins megi grípa ef þeir markaðir lokast, þ.e. ef fjárfestar halda að sér höndum af einhverjum sökum sem ekki endilega tengjast fyrirtækinu.Landsvirkjun greiðir 0,1375% vexti ofan á Libor-vexti (vextir á millibankamarkaði í London) á þeirri upphæð sem nýtt er hverju sinni og þá í þeirri mynt sem lánað var í. Þá eru 0,06% á ári greidd af heildarupphæð veltulánsins, hvort sem það er notað eða ekki.
Fjórir erlendir bankar sáu um lántökuna fyrir hönd Landsvirkjunar. Barcleys, Sumitomo, SEB í Svíþjóð og Société Générale í Frakklandi. Alls 19 bankar í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan standa að láninu og þar á meðal eru Íslandsbanki, Landsbankinn og Kaupþing Búnaðarbanki en það er mikilvægt að mati Stefáns og sýnir að bankar á heimamarkaði styðja ekki síður við fyrirtækið en erlendir bankar. SEB í Svíþjóð mun stýra láninu á líftíma þess.