Í NÓVEMBER í fyrra gerði Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni samninga við framleiðanda um kaup á hátt í 200 þúsund rjúpnaskotum sem hann nú mun sitja uppi með næstu þrjú árin vegna banns við veiði á rjúpu en skotin eru sérstaklega ætluð til veiða á...

Í NÓVEMBER í fyrra gerði Ásgeir Halldórsson í Sportvörugerðinni samninga við framleiðanda um kaup á hátt í 200 þúsund rjúpnaskotum sem hann nú mun sitja uppi með næstu þrjú árin vegna banns við veiði á rjúpu en skotin eru sérstaklega ætluð til veiða á rjúpu. Ásgeir segir þetta koma illa við rekstur á ekki stærra fyrirtæki. Auk útlagðs kostnaðar við kaup og flutning á skotunum og fjárbindingar á þeim þarf hann greiða verulega upphæðir vegna geymslu á þeim næstu þrjú árin.

Talað um að stytta veiðitímann

"Á þeim tíma gekk ég út frá því, eins og um var talað, að rjúpnaveiðitímabilið yrði stytt um tvær vikur og hugsanlega yrði bannað að selja hana og við héldum okkar áætlunum samkvæmt því en okkur grunaði ekki að veiðar yrðu alfarið bannaðar. Það sem ég var búinn að selja fyrirfram til smásala um allt land og ætlaði mér líka er að söluverði um sjö milljónir króna sem við verðum nú af. Það lítur út fyrir að rjúpnaskotin verði frosin næstu þrjú árin. Þetta er ekki bara spurning um vexti og bindingu fjár. Skotin eru komin í vöruhús Samskipa og geymsla á svona vöru er óhemju dýr. Ég var að slá á að ef við þurfum að setja megnið af þessu í formlega geymslu í þrjú ár myndi það kosta eina og hálfa milljón, þ.e. bara geymslugjaldið."

Ásgeir segir samkeppnina vera harða í sínum geira og hann hafi samið við framleiðanda með svona löngum fyrirvara til þess að fá sem besta verð og geta staðið sig í samkeppninni.

Ásgeir segist vera ósáttastur við að ekki hafi verið gefinn neinn aðlögunartími að veiðibanninu. "Það er allt gott og blessað með alfriðun á rjúpu ef það er nauðsynlegt. En í fyrra var rætt um styttingu veiðitímans og bann við sölu og þá var talað um að þetta myndi ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir rúmt ár þannig að menn gætu lagað sig að breytingunum. Ef ráðherra hefði sagt, þegar rjúpnavertíðin byrjaði í fyrra, að næsta ár yrði bann við veiði á rjúpu hefði ég get hagað mínum áætlunum í samræmi við það og þá hefði ég ekki setið uppi með þessa vöru næstu þrjú árin," segir Ásgeir.