Spurningar : 1) Af hverju fær fólk sinadrátt í fætur og hendur og hvað er til ráða. Gerist hvenær sem er, jafnvel í bíl. Hef verið svona í mörg ár. Er ekki mikið í íþróttum, en hreyfi mig, tek kalk og geri teygjuæfingar. Hef reynt sjúkraþjálfun og nudd.

Spurningar : 1) Af hverju fær fólk sinadrátt í fætur og hendur og hvað er til ráða. Gerist hvenær sem er, jafnvel í bíl. Hef verið svona í mörg ár. Er ekki mikið í íþróttum, en hreyfi mig, tek kalk og geri teygjuæfingar. Hef reynt sjúkraþjálfun og nudd.

2) Af hverju fær fólk sinadrátt og hvað á að gera þegar það gerist? Eru til lyf við sinadrætti? Viðkomandi sofnar og vaknar eftir klst. með sáran sinadrátt í kálfum, tám, fingrum eða upphandlegg og öll nóttin fer í að nudda sinadráttinn úr. Þýðir að taka íbúprófen?

Svar : Sinadráttur er ósjálfráður, kröftugur og sársaukafullur samdráttur í vöðva eða vöðvum. Sinadráttur getur orðið vegna mikillar vinnu, meiðsla eða við það að vera lengi í sömu stellingum en ekki er vitað nákvæmlega hvernig þetta gerist. Sama gildir um meðgöngu, að lítið er vitað um á hvern hátt hún stuðlar að sinadrætti en sumar konur eru illa haldnar á vissu tímabili meðgöngunnar. Sinadráttur er algengur hjá íþróttamönnum sem reyna á sig mikið og lengi og tapa við það vökva en vökvatap eykur hættu á sinadrætti. Við einhæfar hreyfingar í langan tíma getur komið fram sinadráttur, nánast hvar sem er í líkamanum. Allir fá sinadrátt en hjá flestum eru það óþægindi sem koma sjaldan og valda litlum vandræðum. Sinadráttur er yfirleitt alveg meinlaus og leiðir mjög sjaldan til skemmda á vöðvum og enn sjaldnar á sinum. Einstaka sinnum er sinadráttur merki um sjúkdóm og rétt er því að leita læknis ef hann er til baga mánuðum saman. Sinadráttur getur t.d. fylgt Parkinsonsveiki, sykursýki, vanstarfsemi skjaldkirtils, æðakölkun og ýmsum sjúkdómum í heila og úttaugakerfi. Þeir sem eru í gervinýra eða taka viss lyf fá oft sinadrátt. Ýmsar truflanir á blóðsöltum geta stuðlað að sinadrætti og jafnvel valdið krömpum og má þar nefna truflanir á magni natríums, kalíums, kalsíums og magnesíums í blóði. Slíkar truflanir geta t.d. orðið við það að tapa miklum vökva eins og við óhóflega svitnun vegna hita eða áreynslu eða við mikil uppköst.

Besta ráðið við sinadrætti er að teygja á viðkomandi vöðva, varlega en ákveðið, og þá hverfa óþægindin venjulega fljótt. Oft er gott að spenna vöðvana sem eru á móti þeim sem sinadrátturinn er í, t.d. er gott við sinadrætti í kálfa að spenna fótinn upp á við og toga svo í hann þar til sinadrátturinn hverfur. Stundum er best að ganga um gólf þar til óþægindin hverfa. Einnig getur verið gott að kreista og nudda vöðvann og sumum finnst gott að fara í heitt eða kalt bað fyrir svefninn. Verkjalyf (m.a. íbúprófen) gera venjulega lítið gagn við sinadrætti. Til að koma í veg fyrir sinadrátt er mikilvægt að forðast vökvatap, gera teygjuæfingar fyrir og eftir áreynslu og gæta þess að ofreyna sig ekki. Önnur ráð sem virðast hjálpa sumum er að taka stóran skammt af C-vítamíni (t.d. 500 mg) eða E-vítamíni (500-1000 einingar) fyrir svefninn en rétt er að minnka þessa skammta þegar frá líður. Kalk og magnesíum geta hjálpað og af einhverjum ástæðum hafa sumir gagn af því að borða 1-2 banana á dag en þessi síðastnefndu atriði er það sem hægt er að ráðleggja á meðgöngu. Ekkert af þessu er þó vel vísindalega staðfest. Ef sinadráttur er viðvarandi vandamál sem truflar svefn er rétt að leita læknis sem metur hvort grípa þurfi til lyfjameðferðar. Í slíkum tilvikum kemur til greina að nota svefnlyf af vissri gerð eða kínín en forðast ber þessi lyf á meðgöngu. Kíníntöflur fengust án lyfseðils áður fyrr en hafa verið gerðar lyfseðilsskyldar vegna hættulegra aukaverkana af ýmsu tagi. Af algengum aukaverkunum kíníns má nefna meltingartruflanir og höfuðverk en af sjaldgæfum og hættulegum aukaverkunum má nefna eiturverkanir á blóðflögur, rauð blóðkorn og nýru.