FYRIRTÆKIÐ Hlað á Húsavík hefur framleitt skot í tvo áratugi en stjórnendur þess telja að með banni umhverfisráðherra við veiði á rjúpu án nokkurs aðlögunartíma hafi fótunum algerlega verið kippt undan framleiðslunni.

FYRIRTÆKIÐ Hlað á Húsavík hefur framleitt skot í tvo áratugi en stjórnendur þess telja að með banni umhverfisráðherra við veiði á rjúpu án nokkurs aðlögunartíma hafi fótunum algerlega verið kippt undan framleiðslunni.

Jónas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hlaðs, segist fyrir stuttu hafa fengið fullan gám af hráefni, sem kosti milljónir, til framleiðslu á rjúpnaskotum. Ekki sé hægt að nota efnið í framleiðslu á öðrum skotum.

"Í fyrra var rætt um að taka tíu daga framan og aftan af veiðitímabilinu. Það hefði í sjálfu sér verið í fínu lagi en nú sit ég uppi hráefni og vöru í mörg ár. Það er ákaflega lítill fyrirvari á þessu banni og við erum auðvitað ósáttir við það. Þetta kippir alveg fótunum undan framleiðslu hjá okkur, við framleiðum 300-500 þúsund skot á ári í gæs og rjúpu, þar af 100-300 þúsund skot í rjúpuna."

Jónas segist hafa pantað hráefnið í febrúar eða byrjun mars. "Við rekum einnig verslun í Reykjavík og seljum óhemju af byssum út á rjúpnaveiðina og sitjum uppi með þetta meira eða minna. Þetta er allt á lánum og maður veit alveg hvernig það endar. Þetta eru tugir milljóna í skotunum og í kringum skotveiðina, fatnaði, byssum og öðru sem við erum búnir að taka inn. Það er gert með margra mánaða fyrirvara og bannið er því gífurlegt kjaftshögg. Við klárum gæsavertíðina en svo er ómögulegt segja til um hvað gerist. Við höfum ekkert fjármagn til þess að standa undir þessu. Þetta er íslenskur iðnaður, við erum búnir framleiða skot í tuttugu ár hér á Húsavík og það er ansi hart þegar þetta er gert svona fyrirvaralaust," segir Jónas.