BÆJARRÁÐ hefur samþykkt fundargerð stjórnsýslunefndar en nefndin samþykkti á fundi sínum um miðjan mánuðinn að auglýsa stöðu jafnréttisráðgjafa 10. ágúst nk. en um 100% stöðu er að ræða.

BÆJARRÁÐ hefur samþykkt fundargerð stjórnsýslunefndar en nefndin samþykkti á fundi sínum um miðjan mánuðinn að auglýsa stöðu jafnréttisráðgjafa 10. ágúst nk. en um 100% stöðu er að ræða. Samkvæmt minnisblaði frá vinnuhópi meirihlutaflokkanna um stöðu og verkefni jafnréttisráðgjafa bæjarins, er m.a. lagt til að staðan verði stjórnandastaða á stjórnsýslusviði og heyri beint undir sviðsstjóra/bæjarstjóra.

Elín Antonsdóttir hefur verið í starfi jafnréttisfulltrúa Akureyrarbæjar í liðlega fjögur ár. Hún sagði starfi sínu lausu 1. júní og hætti nú í byrjun júlí. Elín var í 100% starfi hjá bænum og sinnti jafnréttismálunum í 50% stöðu. "Það segir enginn upp góðu starfi nema einhver ástæða liggi þar að baki. Mér leið afar vel í þessu starfi og hafði komist í kynni við mikið af góðu fólki," sagði Elín en vildi að öðru leyti ekki ræða ástæðu uppsagnar sinnar. Hún sagðist taka því fagnandi að til stæði í ráða í 100% stöðu við þennan málaflokk. "Það er nú samt þannig að jafnréttismál eiga langt í land, ekki bara á Akureyri heldur á landinu öllu og það er víða pottur brotinn. Ýmislegt jákvætt hefur gerst og það er t.d. ánægjulegt að sjá hver þróunin í átt til kynjajafnréttis hefur verið í bæjarstjórn Akureyrar og í nefndum bæjarins. En það breytir því þó ekki, að á meðan laun kynjanna eru ekki jöfn, vantar talsvert mikið á jafnréttið. Með það getur engin ábyrg manneskja verið ánægð með."

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í þessum málaflokki í bænum mörg undanfarin ár. Akureyrarbær hefur á liðnum árum greitt milljónir króna til nokkurra kvenna, vegna brota á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sum þessara mála hafa komið til kasta kærunefndar jafnréttismála en einnig hafa héraðsdómur Norðurlands eystra og Hæstiréttur komið við sögu. Þegar niðurstöður þessara mála eru skoðaðar kemur í ljós að þau eru frekar vandræðaleg fyrir bæinn, ekki síst þar sem bæjaryfirvöld hafa lagt áherslu á jafnréttismál og þar hefur jafnréttisfulltrúi starfað lengi.

Elín sagði ekki hægt að breiða fjöður yfir það að á undanförnum árum hafa komið upp mál sem hafa verið vandræðaleg og leiðinleg fyrir bæinn. "Kannski verður þessum málum betur fyrir komið þegar búið verður að ráða jafnréttisfulltrúa í fullt starf. Og ég á ekki þá ósk heitari en að svo verði."

Mikill skaði að missa Valgerði úr starfi jafnréttisstýru

Valgerður H. Bjarnadóttir bæjarfulltrúi á Akureyri hefur látið af starfi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu og stjórnarformennsku í leikhúsráði Leikfélags Akureyrar, eftir að Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu að LA hefði brotið jafnréttislög við ráðningu leikhússtjóra. Elín sagði það mikið áfall fyrir jafnréttismál í landinu að ekki skyldi borin gæfa til þess að leysa þetta mál á annan máta en raun ber vitni. "Ég tel það mikinn skaða að missa Valgerði úr starfi jafnréttisstýru, þekking hennar á jafnréttismálum er óumdeilanleg," sagði Elín.