"ÉG hef alla tíð unnið mikið, ekki síst við eldamennsku og ætla mér ekki að vera atvinnulaus á þessum aldri," segir Gréta Jónsdóttir, 64 ára, sem tekur við rekstri veitingastofunnar Varar 1. ágúst næstkomandi.

"ÉG hef alla tíð unnið mikið, ekki síst við eldamennsku og ætla mér ekki að vera atvinnulaus á þessum aldri," segir Gréta Jónsdóttir, 64 ára, sem tekur við rekstri veitingastofunnar Varar 1. ágúst næstkomandi.

Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur á húsnæði og tæki veitingastaðarins og hefur leigt veitingamönnum. Reksturinn var auglýstur nýlega og var Gréta, með stuðningi fjölskyldu sinnar, í hópi þeirra fjögurra aðila sem lögðu inn tilboð. Stjórn Sjómanna- og vélstjórafélagsins samþykkti að taka tilboði hennar og segir Hermann Magnús Sigurðsson formaður að vel viðunandi samningar hafi náðst.

Skammur fyrirvari

Gréta segist hafa unnið í veitingastofunni í tólf ár við eldamennsku og fleira. Þegar núverandi rekstraraðili hafi ekki getað sætt sig við hækkun á leigu fyrir reksturinn og sjómannafélagið boðið hann út hafi hún staðið frammi fyrir því að missa vinnuna. Hún segir að enga vinnu sé að hafa í Grindavík fyrir fólk á hennar aldri og því hafi henni dottið í hug að reyna að fá reksturinn á leigu og fengið við það öflugan stuðning fjölskyldu sinnar. Það hafi gengið eftir.

Gréta tekur við rekstrinum 1. ágúst svo fyrirvarinn er skammur. Hún segist taka við að morgni þess dags og reyna að halda opnu því enginn dagur megi falla úr í svona rekstri. Hún hefur því í nógu að snúast þessa dagana við að afla leyfa og undirbúa innkaup.

Hún hyggst reka staðinn með svipuðu sniðu og núverandi rekstraraðili en segist hafa ýmsar hugmyndir að breytingum sem vonandi verði hægt að hrinda í framkvæmd með tíð og tíma. "Ég horfi bjartsýn fram á veginn og er viss um að þetta tekst hjá okkur," segir Gréta Jónsdóttir.