Ísraelski sagnfræðingurinn Fania Oz-Salzberger fléttar saman menningarsögu og pólitík: "Við þurfum á Evrópu að halda - það er ekki nóg að eiga stóran frænda með byssu."
Ísraelski sagnfræðingurinn Fania Oz-Salzberger fléttar saman menningarsögu og pólitík: "Við þurfum á Evrópu að halda - það er ekki nóg að eiga stóran frænda með byssu."
Evrópskur bókmenntaarfur stendur nærri hjarta margra Ísraela, var SIGURBJÖRGU ÞRASTARDÓTTUR tjáð á málþingi í Finnlandi.

ÍSRAELSKI sagnfræðingurinn og hugsjónakonan Fania Oz-Salzberger var meðal frummælenda á málþinginu Fjölmenningarleg Evrópa í Helsinki á dögunum og vakti þar athygli með persónulegu erindi sínu um evrópskar bókmenntir frá ísraelsku sjónarhorni. Hún er menntuð í sögu og heimspeki, kennir við sagnfræðideild háskólans í Haifa og starfar sem sjálfboðaliði hjá Ísraelsku mannréttindasamtökunum. Oz-Salzberger er dóttir rithöfundarins Amos Oz og ferðast, líkt og hann, víða um lönd til fyrirlestrahalds.

Arfur fortíðarinnar lifir

"Ég er ekki Evrópubúi, en mig langar að lýsa aðstæðum mínum. Ég tala nútíma hebresku og á því máli reynum við í mínu landi að tala saman, elskast og semja frið. Þetta er fallegt tungumál og hæft til alls þessa," sagði Oz-Salzberger. "En báðir afar mínir og ömmur og allir langafar og langömmur voru Evrópubúar. Þau komu frá löndum á borð við Frakkland og Þýskaland og flúðu aðför nasista með bækur í ferðatöskunum sínum."

Oz-Salzberger lýsti því hvernig foreldrar hennar og ömmur og afar hefðu hikað við að kenna henni móðurmál þeirra, eftir að til Ísraels var komið að lokinni síðari heimsstyrjöld, vegna þeirrar beiskju sem þau báru í brjósti gagnvart fortíðinni. Í staðinn þýddu þau bækur sínar yfir á hebresku fyrir börnin - í það minnsta fyrst um sinn. Og hin fróðleiksþyrsta Fania pældi í gegnum ríkulegan bókmenntaheim, allt frá Cervantes til Erich Kästner. "Ef einhver hefði spurt mig, þegar ég var sextán ára, hvort eitthvað væri til sem héti evrópskar bókmenntir hefði ég hiklaust svarað játandi og bent á bókahillurnar okkar. Það var til evrópskur bókmenntaarfur, en okkur var sparkað út úr honum, við vorum send í útlegð. Gamla bókasafnið okkar er vitnisburður um þann sameiginlega heim sem var, eða átti að verða," sagði hún og vísaði til þess rofs sem útrýmingarstefna nasista gagnvart gyðingum olli.

"Bókmenntir bjarga ekki mannslífum. Þær björguðu ekki langafa mínum sem talaði 17 tungumál og var ritfær á 7 þeirra. Evrópa bjargaði ekki lífi hans - hún tók líf hans," sagði Oz-Salzberger ennfremur í erindi sínu. "En þetta er samt sú arfleifð sem ég er tilbúin að umfaðma og byggja á til framtíðar. Ég hef gert mér grein fyrir því með tímanum að evrópskar bókmenntir grundvallast á mótum, ýmiss konar tímamótum og vegamótum. Milli karla og kvenna, fortíðar og framtíðar, ólíkra landa, heimilis og framandleika. Hið sama gildir um sögu Ísraels. Og hvers vegna skyldum við ekki einmitt nota okkur það mynstur, viðurkenna að það er í lagi að tilheyra fleiri en einum menningarheimi samtímis?"

Hún ítrekaði að Evrópa við upphaf 20. aldarinnar hafi verið draumaland, þar hafi stórkostleg bókmenntaverk og kvikmyndir sprottið úr hinum frjóa evrópska jarðvegi þar sem margir menningarheimar mættust. Í sambærilegu umhverfi væri hugsanlega hægt að skapa evrópska menningu til framtíðar á 21. öld.

Gestur í sal taldi þessa sýn á Evrópu talsvert rómantíska, en Oz-Salzberger sagðist síðasta manneskjan til þess að sjá Evrópu í rómantísku ljósi. "Evrópa var móðir sem breyttist í Medeu. Það er alveg ljóst. Ég er bara að biðja fólk um að muna hvar við vorum stödd, muna að gyðingar voru hluti af evrópsku menningarlífi í þúsund ár."

Við þörfnumst Evrópu

Í spjalli að umræðum loknum reyndi Oz-Salzberger ekki að afsaka pólitíska þráðinn í erindi sínu, þvert á móti sagðist hún jafnan blanda pólitík í menningarumfjöllun sína þar sem þetta tvennt væri óaðskiljanlegt. "Evrópumenn gætu svo vel aðstoðað við friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir mega auðvitað líka skamma okkur eins og þá lystir. En fyrst viljum við einfaldlega að þeir komi til okkar, viðurkenni að þeir þekki okkur, segist jafnvel sakna okkar. Við þurfum nefnilega á Evrópu að halda, það er ekki nóg að eiga stóran frænda með byssu," sagði hún og átti við Bandaríkin. "Við deilum ekki menningarlegri fortíð með Ameríku, tengslin eru eingöngu á sviði valds og stjórnmála og það er ekki það sem við þörfnumst. Ég bendi reyndar á að þetta er ekki endilega skoðun meirihlutans í mínu landi, en ýmsir deila þessari skoðun minni og ef við Ísraelar höfum hefð fyrir einhverju þá er það einmitt margradda samfélag."

Einn þinggestur taldi vanta umfjöllun um stríð í umræðuna. Vopnuð átök hefðu alltaf verið, hvort sem fólki líkaði betur eða verr, ein tegund samskipta í Evrópu. Þess vegna væri ekki hægt að aðskilja sögu gyðinga og sögu styrjalda. Oz-Salzberger svaraði að bragði:

"Það er ekki rétt að gyðingar hafi verið hluti af herveldisstefnu Evrópu. Ég vildi að svo hefði verið, þá hefðum við kannski getað varið okkur. Eina framlag gyðinga til evrópskrar stríðssögu var "hæfileiki" þeirra til þess að stöðva byssukúlur með líkama sínum."

Síðar svaraði hún spurningum um ástandið og ofbeldið í Palestínu. "Einn vinur minn, frægur sagnfræðingur, heldur því fram að það eina sem sameini Ísraela og Palestínumenn séu átökin. Leysist landfræðilegu deilurnar muni ekkert verða eftir til þess að byggja framtíðina á," sagði indverskur þinggestur, búsettur í Berlín.

Oz-Salzberger kvað þetta af og frá. "Við eigum mjög margt sameiginlegt og um leið og stjórnmála- og landamæradeilan leysist mun menningarlífið blómstra. Það eru allir að bíða eftir því. Listamenn eru að bíða, samkynhneigðir bíða - en í samfélagi hinna síðarnefndu í Tel Aviv eru til dæmis fjölmargir arabar. Þeir mæta ekki skilningi í sínum hópi og hafa því fundið samleið með samkynhneigðum Ísraelum. Tel Aviv er kraumandi staður núna, þar er margt spennandi að gerast og þegar friður kemst á verður svo ótal margt mögulegt á öllum sviðum lista og samskipta. Einnig þess vegna tel ég mikilvægt að gott samband komist á við Evrópu - svo við getum haldið áfram að auðga hvor annars menningu eins og áður."

sith@mbl.is