I Það er til róttækni af ýmsu tagi þó að orðið hafi lengi verið notað fyrst og fremst um harðdræga vinstristefnu. Kannski er það arfur hins atkvæðamikla en jafnframt athyglisfreka sjöunda áratugar. Þá þóttu vinstriróttæklingar kræfastir allra.

I Það er til róttækni af ýmsu tagi þó að orðið hafi lengi verið notað fyrst og fremst um harðdræga vinstristefnu. Kannski er það arfur hins atkvæðamikla en jafnframt athyglisfreka sjöunda áratugar. Þá þóttu vinstriróttæklingar kræfastir allra. Og þeir eignuðu sér eiginlega þetta hugtak; róttæklingar voru aðallega vinstrisinnaðir stúdentar sem kröfðust meira frjálsræðis í flestum efnum og fengu vilja sínum framgengt í mörgu. En síðar urðu þessir stúdentar ráðsettir borgarar og snerust þá margir til íhaldsamari gilda eins og gengur.

II En menn hafa verið róttækir á öðrum tímum og í öðrum efnum. Kannski má rekja uppruna róttækrar hugsunar til upplýsingarinnar eins og svo margt annað í nútímasamfélagi. Brýning Kants um að fólk hugsaði sjálft en léti ekki segja sér hvað það ætti að hugsa er í raun kjarninn í róttækninni sem hugmyndafræði. Flestir róttæklingar hafa þó sennilega flaskað á þessu. Þeir hafa, eins og mönnum er tamt, hengt sig í einhverja hugmyndafræði algerlega gagnrýnislaust. Seint og um síðir hafa þeir vaknað upp við vondan draum: róttæknin felst nefnilega ekki í fylgispekt við hugmynd heldur miklu fremur gagnrýnu viðhorfi til hugmynda almennt - því að hugsa sjálfur.

III Í þessum skilningi hafa einstakir menn á öllum tímum verið róttækir. Í þessum skilningi er róttækni mannkostur en ekki stundarpólitík. Og sennilega er þetta sá skilningur sem lagður hefur verið í pólitíska róttækni á póstmódernískum tímum, eins og rakið er í grein um bókina Empire í Lesbók í dag. Allsherjarkenningar á borð við marxisma hafa látið undan síga, þær hafa í raun sjálfar látið undan róttækri, sundurgreinandi hugsun sem viðurkennir ekki einfaldar lausnir. Í fyrrnefndri grein er þessari sundurgreinandi, róttæku hugsun lýst sem tortryggni, yfirvegun og kaldhæðni. Og spurt er hvort fræðaheimurinn þurfi ekki að færa róttækum og líflegum andspyrnuhreyfingum eitthvað annað og meira en það. Svarið er í Empire, að mati greinarhöfundar, en í þeirri bók sé gerð alvarleg tilraun til að setja andspyrnuna í heimspekilegt samhengi, enn sé þó of snemmt að fullyrða um það hvort Empire standi undir væntingum sem Das Kapital eða Kommúnistaávarp 21. aldarinnar.

IV Sagan virðist stundum fara í hringi. Þegar hún virðist um það bil að leita inn á einhverja nýja og spennandi braut fer hún óðar í sama gamla farið. Ef lagður er sá skilningur í róttækni að hún sé hvöt til þess að hugsa sjálfstætt þá virðist sagan nú stefna í þveröfuga átt. Eða hvað? Er það ekki svo að um leið og búið er að fella hina róttæku andspyrnu í kerfi þá liggi hún steindauð?