"Of snemmt er að fullyrða um það hvort Empire stendur undir væntingum sem Das Kapital eða Kommúnistaávarp 21. aldarinnar."
"Of snemmt er að fullyrða um það hvort Empire stendur undir væntingum sem Das Kapital eða Kommúnistaávarp 21. aldarinnar."
Í bókinni Empire sem kom út árið 2000 er ekki bara að finna frumlega og magnaða lýsingu á þeim vandamálum sem við blasa frá bæjardyrum róttækrar samfélagsheimspeki, heldur er aðgerðum og mótspyrnu gert hærra undir höfði en sést hefur frá því miðaldra róttæklingar lögðu Hvað ber að gera? eftir Lenín á hilluna.

PÓLITÍSK róttækni hefur mátt muna sinn fífil fegri innan háskólasamfélaga á Vesturlöndum. Þetta má meðal annars rekja til ákveðinnar tortryggni sem gripið hefur um sig á meðal vinstrisinnaðra menntamanna eftir að tók að halla undan fæti hjá marxismanum, enda var hann sú kenning sem þeir fylktu sér um og mótaði baráttu þeirra. Nú á dögum eru þjóðfélagsafskipti menntamanna - þ.e. þeirra sem ekki hafa hallað sér að hógværari stjórnmálakenningum á borð við "þriðju leiðina" - bundin við einstök mál og bera ekki með sér að þar séu á ferð neinar allsherjarkenningar. Sumir hafa reyndar fagnað þessu og telja að hér sé jafnvel stigið skref fram á við: Rétt sé að forðast stórar hugmyndir sem upphefji frumspekilega einingu á kostnað mismunarins og loki möguleikum okkar á að hugsa út fyrir takmörk klassískrar vestrænnar heimspeki. Þessi afstaða, sem er eitt af einkennum póstmódernismans, hefur vissulega leitt af sér fjölmargt jákvætt og má sjá áhrifa hennar stað í róttækri menningarfræði okkar daga, sem leitast við að skilja og skýra menningu okkar út frá valdatengslum og orðræðu þeirra sem völdin hafa á hverjum tíma - án þess að einni menningu sé hampað á kostnað annarrar.

Þó verður ekki litið fram hjá því að róttækir menntamenn innan félags- og hugvísinda hafa fyrir vikið mætt vanda sem segja má að sé tvíþættur: Í fyrsta lagi vita þeir ekki hvert þeir vilja stefna - heimspeki þeirra takmarkar sig við hlutverk hinnar gagnrýnu broddflugu og þeir eru því auðveldur skotspónn þeirra sem saka þá um "neikvæðni" og að vera "á móti öllu". Í öðru lagi skortir þá aðferðafræði og byltingaruppskriftir - hugmyndir þeirra eru teoría án praxís, svo gripið sé til marxísks orðalags. Michel Foucault, einn af tortryggnum heimspekingum hins póstmóderníska ástands, ætlaði þjóðfélagsgagnrýni sinni t.d. aldrei að vera leiðarljós í átt að betra samfélagi. "Við vitum af reynslunni," segir Foucault og á hér meðal annars við skipbrot marxismans, "að allar áætlanir um að brjótast út úr kerfum líðandi stundar í nafni heildarhugsjónar um annað samfélag, annan hugsunarhátt, aðra menningu, aðra heimssýn, hafa aðeins endurvakið hinar háskalegustu hefðir."

Þessi andi afbyggingar og tortryggni hefur orðið til þess að sumir róttækir hugsuðir samtímans hafa hneigst í átt að nokkurs konar kaldhæðni og ólíkindalátum gagnvart vandamálum samtímans. Spyrja má hvort þetta viðhorf skjóti ekki skökku við þegar fjöldahreyfingar fylla göturnar í borgum heimsins í kringum fundi þjóðarleiðtoga, og þegar mótmæli vegna árása Vesturveldanna á Írak fara í sjálfum Bandaríkjunum langt fram úr því sem var við upphaf Víetnamstríðsins. Gott og vel, getum við sagt, það er ágætt að við tökumst á við afbyggingu orðræðunnar og höfum tæki og tól á borð við sýndarveru Baudrillards til að lýsa menningarástandinu - en verður ekki fræðaheimurinn að færa róttækum og líflegum andspyrnuhreyfingum samtímans eitthvað meira en tortryggni, yfirvegun og kaldhæðni?

Vinsældir bókarinnar Empire sem kom út árið 2000 segja sína sögu um þetta ástand, því í henni er - loksins! gætum við sagt - gerð alvarleg tilraun til að setja andspyrnuna í heimspekilegt samhengi: Í bókinni er ekki bara að finna frumlega og magnaða lýsingu á þeim vandamálum sem við blasa frá bæjardyrum róttækrar samfélagsheimspeki, heldur er aðgerðum og mótspyrnu gert hærra undir höfði en sést hefur frá því miðaldra róttæklingar lögðu Hvað ber að gera? eftir Lenín á hilluna.

Óheftur kapítalismi, hnattvæðing, heimsvaldastefna Bandaríkjanna og kúgun vinnuafls

Höfundar Empire eru bandaríski bókmenntafræðingurinn Michael Hardt og ítalski byltingaraktívistinn Antonio Negri. Negri er meðal annars þekktur í sínu heimalandi fyrir að hafa setið í fangelsi vegna ásakana um tengsl við mannrán vinstrisinnaðra hryðjuverkasamtaka á áttunda áratugnum, en hann hefur einnig setið á þingi og starfað sem háskólakennari í Frakklandi og á Ítalíu. Hardt er mun yngri maður og starfar við samanburðarbókmenntafræðideild Duke-háskóla.

Bók þeirra hefur farið eins og eldur í sinu jafnt á meðal mótmælaglaðra stúdenta og sprenglærðra kennara, enda sameinar hún hina "neikvæðu heimspeki" póstmódernískra gagnrýnenda og þá jákvæðu, hvetjandi og siðferðislegu nálgun sem er öllum mótspyrnuhreyfingum nauðsynleg. Nafn bókarinnar, "Empire", sem má þýða sem Veldið, vísar til þeirrar skipanar heimsmála sem höfundarnir telja að sé um þessar mundir að festa sig í sessi. Framlag bókarinnar felst annars vegar í gagnrýninni greiningu á uppbyggingu og eðli þessa ástands, en hins vegar á úrlausnum og tillögum til breytinga. Í gagnrýnni og afbyggjandi nálgun sinni notfæra Hardt og Negri sér margt úr þeim myrku lýsingum sem fræðimenn á borð við Foucault, Gilles Deleuze og Félix Guattari hafa sett fram - að sjálfum Karli Marx ógleymdum. Hardt og Negri eru óhræddir við að spyrða saman ólíka fræðimenn, búa til óvæntar tengingar og nýta sér það gagnlegasta frá hverjum og einum auk þess sem stíll þeirra er á köflum torræður, skáldlegur og margræður. Þetta gerir bók þeirra að erfiðri, jafnvel seinlegri, en safaríkri lesningu.

Hugtakið "Veldið" lýsir þeirri blöndu óhefts kapítalisma, hnattvæðingar, heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og kúgun vinnuafls í Þriðja heiminum sem einkenna samtíma okkar. Samkvæmt þeim er hér um að ræða nýtt "valdmið" (e. paradigm of rule). Til að skýra eðli valds innan Veldisins grípa Hardt og Negri til greinarmunar Foucaults á ögunarsamfélaginu (því samfélagi stofnanabundinnar ögunar sem einkennir fyrstu stig iðnvæðingar) og stýringarsamfélaginu (sem hefur með mun óræðari tækjum tekið upp lúmska og innrætta stýringu í stað agans). Þeir telja reyndar að Foucault hafi á endanum ekki náð fullum tökum á eðli valds innan stýringarsamfélagins og til að draga upp fullkomnari mynd nýta þeir sér m.a. skrif Deleuze og hóps síður þekktra ítalskra samtímamarxista. Hardt og Negri nota hugtakið "lífvald" (e. biopower) - sem raunar er komið frá Foucault - til að lýsa þróaðri útgáfu af því valdi sem Foucault taldi einkenna stýringarsamfélagið. Þetta vald birtist sem ítök í öllu lífi, hvort sem um er að ræða nýtingu lífs til framleiðslu á vörum (e. production) eða tímgun lífsins sjálfs (e. reproduction). Hardt og Negri telja að í Veldinu hafi allur greinarmunur á framleiðslu menningar, vöru, lífs, líkama og sálar verið afnuminn, og því flæðir lífvaldið eins og ósýnilegur vökvi um allt hið félagslega svið.

Íhlutun (e. intervention) er eitt af þeim lykilhugtökum sem Hardt og Negri setja fram til skilnings á Veldinu. Þeir telja að heimsskipan Veldisins einkennist af íhlutun alþjóðasamfélagins, þar sem Sameinuðu þjóðirnar gegni hlutverki réttlætingar og löggildingar, en að þessi íhlutun sé ávallt færð í búning undantekningarinnar. Þannig sé hægt að láta líta svo út sem heimurinn sé í grunninn friðsamur og réttlátur, en einungis þurfi af og til að rétta kúrsinn með því að gera innrásir í lönd sem ekki eru til friðs. Íhlutunin er þó alls ekki undantekning, heldur einungis augljósasta birtingarmynd þess ofurvalds sem Veldið leitast við að öðlast yfir ríkjum heims og íbúum þeirra.

Vert er að ítreka að Hardt og Negri telja ekki að hugtök á borð við "heimsvaldastefna Bandaríkjanna", sem er að verða gamalgróin klisja á vinstri kanti stjórnmálanna, lýsi þessu kerfi best, enda sé Veldið samansett úr mun flóknara, lífrænu valdaneti sem lúti lögmálum langt út fyrir vitund og vilja ráðamanna í Bandaríkjunum. Hardt orðar þetta svo í viðtali: "Það getur á stundum borgað sig rökræðunnar vegna að segja að Bandaríkin stjórni, og að taka í kjölfarið afstöðu gegn þeim. En ég held að þetta sé ekki alveg rétt, við þurfum að þróa aðrar aðferðir." Með þessu eru Hardt og Negri engan veginn að fegra hlut Bandaríkjanna, heldur einungis að benda á þann mun sem er á stöðu þeirra innan heimsvaldakerfis samtímans og stöðu Bretlands innan breska heimsveldisins á sínum tíma. Bretland var augljóslega miðjan í því heimsveldi, en Veldið sem ríkir í dag "hefur enga miðju og ekkert ytra borð."

Sú staðreynd að Veldið er bæði án miðju og ytra borðs breytir ýmsu varðandi möguleika okkar til að berjast gegn því. Það er skoðun Hardts og Negris að ekki sé lengur hægt að notast við líkingu Karls Marx um byltingarstarfsemi sem neðanjarðarstarf moldvörpunnar - það sé útilokað að standa utan kerfisins (eða fyrir neðan það) á þann hátt sem moldvörpulíkingin gerir ráð fyrir. Þeir vilja því frekar notast við líkingu Gilles Deleuze um höggorminn og taka svo til orða að hlykkir hans verði "enn margslungnari en greni moldvörpunnar". Þar sem Veldið er laust við miðju og ytra borð getur höggormurinn bitið hvar og hvenær sem er - hann er alls staðar jafnnálægur kjarna Veldisins. Hinar dreifðu og að því er virðist ósamstæðu andspyrnuhreyfingar okkar daga "tengjast ekki á láréttum ási heldur ræðst hver þeirra um sig á sýndarmiðju Veldisins".

Á svipaðan hátt og Marx, sem áleit kapítalismann þjóðfélagsstig sem nauðsynlegt væri fyrir öll samfélög að ganga í gegnum, telja Hardt og Negri óumflýjanlegt að ganga í gegnum þróunarstig Veldisins og að þýðingarlaust sé að reyna að snúa þessari þróum við í átt að gömlum skýjaborgum upplýsingar og módernisma á borð við þjóðríkið. Þar greinir þá á við marga andhnattvæðingarsinna og vinstripólitíkusa dagsins í dag, sem vilja ríghalda í vinalegt bæjarstæði þjóðríkisins og telja að aðeins þannig sé hægt að veita yfirþjóðlegum öflum hnattvæðingarinnar mótspyrnu. Hardt og Negri telja á hinn bóginn að innan Veldisins séu miklir möguleikar sem mótspyrnu- og andófsöfl verði að kunna að nýta sér frekar en að berjast gegn. Þjóðríkið hefur að þeirra mati fyrir löngu gengið sér til húðar og framtíðarsýn "mergðanna" (hins framleiðandi lýðs, e. multitudes) getur ekki byggst á því. Það er þó langt því frá að höfundar Empire aðhyllist sögulega nauðhyggju af því tagi sem fékk Marx til að trúa svo staðfastlega á óhjákvæmileg endalok kapítalismans. Hardt og Negri telja að andófshreyfingar samtímans eigi mikið verk fyrir höndum í að skipuleggja sig og gera tilraunir með nýjar tegundir lýðræðis. Eitt af verkefnum þessara andófshreyfinga er að finna hvernig þær geta starfað saman þrátt fyrir ólíkar og jafnvel mótsagnakenndar áherslur. Hardt telur að reynslan frá mótmælunum í Seattle gefi tilefni til bjartsýni hvað þetta varðar og að þessum hreyfingum geti tekist að tengja saman höggormsbit sín í stóru "netkerfi" (e. network): "Dreift netkerfi skapar aldrei mótsagnir milli ólíkra punkta því það er alltaf hægt að mynda þríhyrning. Þetta er eitt af því sem slær mann við Seattle. Hér höfum við hópa sem við héldum að væru hlutlægt séð í mótsögn hver við annan - verkalýðshreyfingar og umhverfisverndarsinnar, en líka anarkistar, kirkjuhópar, lesbíuhópar o.s.frv. Samt sem áður virkuðu þeir saman á þann hátt að mótsögnin skapaðist ekki. Allar mótsagnir fundu sinn stað innan netkerfisins."

Andófið þarfnast ekki réttlætingar lengur

Of snemmt er að fullyrða um það hvort Empire stendur undir væntingum sem Das Kapital eða Kommúnistaávarp 21. aldarinnar eins og gagnrýnandi New York Times hefur meðal annarra ýjað að - en ljóst má telja að höfundarnir ætla bókinni eitthvert slíkt hlutverk. Hardt og Negri ætla sér þó ekki hlutverk "fulltrúa" þeirra sem eru kúgaðir hér á jörðu og telja sig ekki færa þeim neina "nýja lausn" á vandamálum þeirra. Hardt telur að samræða og lýðræðisleg samskipti innan mótspyrnuhreyfinganna muni búa þau svör til af sjálfu sér, um leið og netverkið tengir þau saman: "Mér finnst ekki endilega að við eigum að vera sammála. Markmiðið er... gagnvirkni og umræða."

Í rauninni rís nálgun þeirra ofar kröfunni um það að svara vandamálum mergðanna með kenningum og veita þeim forystu - Hardt og Negri gefa þess vegna ekki nema mjög stuttar lýsingar á því hver markmiðin eigi að vera með andspyrnu mergðanna.- Aðaláhersla þeirra er á að andóf og mótspyrna séu og muni verða sjálfsprottin innan Veldisins. Andófið er verufræðileg staðreynd - ummyndað framhald af byltingarhreyfingum 20. aldarinnar - og þarfnast hvorki fræðilegrar né siðferðislegrar réttlætingar: "Byltingarmaðurinn getur nú á dögum ekki einu sinni þóst vera fulltrúi fyrir nokkurn skapaðan hlut, ekki einu sinni fyrir mannlegar grundvallarþarfir hinna arðrændu. Pólitískur byltingarvígmóður dagsins í dag verður að enduruppgötva það sem hann hefur alltaf verið: hann er ekki fulltrúi heldur raunverulegur hluti fyrirbæris."

EFTIR VIÐAR ÞORSTEINSSON

Höfundur er BA í heimspeki. Þýðing hans á kafla úr Empire er væntanleg í næsta tölublaði Hugar, tímarits Félags áhugamanna um heimspeki.