George Soros er einn þekktasti fjármálamaður heims.

George Soros er einn þekktasti fjármálamaður heims. Hann hefur orðið kunnur fyrir hæfni til þess að hagnast gífurlega á umsvifum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hins vegar fyrir að veita þeim fjármunum með margvíslegum hætti í starfsemi, sem getur auðveldað þjóðum, sem eiga við fátækt og bágindi að stríða að komast á braut framfara.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í fyrradag birtist grein eftir Soros, sem nefndist "Auðlindabölið". Í grein þessari segir m.a.: "Mörg þróunarlönd með miklar náttúruauðlindir eru jafnvel enn fátækari en önnur ríki, þar sem náttúran er ekki eins gjöful ...Mörg ríki með verulega auðlegð í jörðu eða auðsuppsprettu hafa gengið í greipar harðstjórum eða spilltum ráðamönnum eða eru í upplausn vegna vopnaðra átaka. Þetta vandamál hefur verið kallað "auðlindabölið"."

Síðan segir Soros: "Nú hefur sprottið upp öflug hreyfing gegn auðlindabölinu. Lítil brezk hreyfing, Global Witness, ruddi brautina, þegar hún barðist gegn timburútflutningi Rauðu khmeranna yfir landamæri Taílands og Kambódíu og ólöglegum viðskiptum þeirra með tekk og annan fágætan harðvið...Global Witness sneri sér næst að demantavandamálinu í Angóla og barátta hreyfingarinnar gegn "stríðsdemöntunum" leiddi til alþjóðlega vottunarkerfisins ..."

Nýlenduþjóðirnar arðrændu þjóðir þriðja heimsins á 19. öld og fram eftir 20. öldinni með því að nýta auðlindir þeirra í eigin þágu. Eftir að tími nýlenduveldanna var liðinn arðrændu harðstjórar og einræðisherrar eigin þjóðir með því að nýta auðlindir landanna í eigin þágu.

Grein George Soros sýnir að nú er fólk víða um heim að taka höndum saman um að koma í veg fyrir að harðstjórar geti komizt upp með að arðræna þjóðir sínar með því að stela afrakstrinum af auðlindum þeirra. Það er kannski ein bezta leiðin til þess að auðvelda þjóðum þriðja heimsins að standa á eigin fótum að tryggja að þær geti sjálfar notið afraksturs af auðlindum sínum.

Við Íslendingar þekkjum þessi vandamál að hluta til. Fram yfir miðja síðustu öld nýttu aðrar þjóðir auðlindir hafsins við Íslandsstrendur. Það tók meira en þrjá áratugi frá lýðveldisstofnun að tryggja yfirráð Íslendinga yfir eigin auðlindum. Baráttan fyrir því að tryggja sanngjarna dreifingu afraksturs auðlindanna er svo önnur saga.

En einmitt vegna þess, að við Íslendingar þekkjum þessa baráttu af eigin raun er spurning, hvort þátttaka okkar í alþjóðlegu starfi til þess að auðvelda ríkjum þriðja heimsins að komast af getur ekki m.a. verið fólgin í því að veita þeim ráðgjöf við hvernig bezt verði staðið að því að ná yfirráðum yfir auðlindum sínum og jafnframt hvernig bezt er að dreifa afrakstri af nýtingu þeirra til þjóðarinnar allrar.