TÍU ungmenni af höfuðborgarsvæðinu undirbúa sig nú fyrir heimsmeistaramótið í fimleikum sem haldið verður í Anaheim í Kalíforníu í ágúst.

TÍU ungmenni af höfuðborgarsvæðinu undirbúa sig nú fyrir heimsmeistaramótið í fimleikum sem haldið verður í Anaheim í Kalíforníu í ágúst. Athygli vekur að strákarnir í hópnum eru fjölmennari en stúlkurnar en á allra síðustu árum hefur strákum sem stunda þessa íþrótt fjölgað mikið.

Fjórir strákar úr fimleikafélaginu Ármanni í Reykjavík keppa á mótinu, þeir Anton Heiðar Þórólfsson, Grétar K. Sigþórsson, Jónas Valgeirsson og Gunnar Sigurðsson. Anton Heiðar segir að undirbúningur hafi gengið vel og þeir séu allir tilbúnir í slaginn. Strákarnir hafa stundað fjáröflun í sumar og hafa nú safnað fyrir fargjaldinu og stórum hluta af hótelkostnaði og uppihaldi. Aðspurður segir Anton að söfnunin hafi til dæmis falist í því að þeir hafi gengið á höndum niður Laugaveginn og safnað áheitum, verið með fjáröflunarsýningu á 17. júní og tekið þátt í auglýsingagerð fyrir lyfjafyrirtækið Pharmanor.

Þeir sem halda á mótið auk strákanna úr Ármanni eru Inga R. Gunnarsdóttir, Dýri Kristjánsson og Rúnar Alexandersson úr Gerplu, Sif Pálsdóttir úr Gróttu, Tanja B. Jónsdóttir úr Björk og Kristín G. Gísladóttir sem æfir í Bandaríkjunum.