HÆTTULEGAR eftirlíkingar af þekktu áfengi eru í umferð í Finnlandi. Einn maður hefur látist og nokkrir veikst alvarlega eftir neyslu eftirlíkinga af meðal annars Absolut vodka og Captain Morgan rommi. Einn maður í Noregi er í öndunarvél af sömu sökum.

HÆTTULEGAR eftirlíkingar af þekktu áfengi eru í umferð í Finnlandi. Einn maður hefur látist og nokkrir veikst alvarlega eftir neyslu eftirlíkinga af meðal annars Absolut vodka og Captain Morgan rommi. Einn maður í Noregi er í öndunarvél af sömu sökum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÁTVR. Í eftirlíkingunum er meðal annars tréspíri og frostlögur.

"Ekki er ástæða til að óttast vöru sem seld er eftir viðurkenndum leiðum og hægt er að rekja beint til framleiðanda," segir í tilkynningunni. Öll vara sem seld er í ÁTVR er keypt af viðurkenndum umboðsaðilum og fer í gegnum strangt gæðaeftirlit. Munu verslanir aðeins taka við skilum eftirfarandi tegunda gegn framvísun kassakvittunar og eftir nákvæma skoðun.

Umboðið fylgist vel með

Umboð beggja tegunda er Karl K. Karlsson hf. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að eftirlíkingarnar séu framleiddar í Eistlandi. Beinir umboðið eindregnum tilmælum til neytenda og veitingahúsa að beina viðskiptum sínum einungis til viðurkenndra framleiðenda og söluaðila. Á heimasíðu fyrirtækisins, www.karlsson.is, eru upplýsingar um merkingar tegundanna svo neytendur geti fullvissað sig um að vera með ósvikna vöru undir höndum.