Ég heiti Arnold, kominn til að bjarga heiminum.
Ég heiti Arnold, kominn til að bjarga heiminum.
STJARNA Arnolds Schwartzeneggers skín skært þessa dagana og hann var síðast í gær á Bíórásinni í Leikskólalöggunni. Stöð 2 sýnir kappan austurríska í kvöld í myndinni Sannar lygar ( True Lies ) sem er með betri myndum sem Arnold hefur komið nærri.

STJARNA Arnolds Schwartzeneggers skín skært þessa dagana og hann var síðast í gær á Bíórásinni í Leikskólalöggunni. Stöð 2 sýnir kappan austurríska í kvöld í myndinni Sannar lygar (True Lies) sem er með betri myndum sem Arnold hefur komið nærri.

Myndin, sem er frá árinu 1994, segir frá leyniþjónustumanninum Harry Tasker (Arnold) sem er svo háleynilegur spæjari að ekki einu sinni fjölskylda hans veit hvað hann starfar, heldur lætur Arnold þau halda að hann hafi viðurværi sitt af tölvusölu.

Eiginkonunni, sem leikin er af Jamie Lee Curtis, þykir lífið helst til tilbreytingarlaust og fer að sækja stefnumót við mann sem virðist vera meira spennandi.

Arnold er á sama tíma í miðjum klíðum að reyna að hafa uppi á skuggalegum hryðjuverkamönnum sem hafa komið höndum yfir stórhættulegt kjarnorkuvopn.

Þar sem hann er topp-spæjari hefur hann áhöld og góðfúslegt leyfi til að gera næstum hvað sem er og hann notar það ekki hvað síst til að hrella viðhald eiginkonu sinnar.

Hér er á ferð mynd sem spinnur saman glens og spennu eins og best gerist hjá Arnold og Jamie Lee stendur vitaskuld undir sínu. Arnold tekur meira að segja einn allgóðan tangó við þokkadísina Tíu Carrere.

Þegar myndin var frumsýnd á sínum tíma efndu arabar í Bandaríkjunum til mótmæla enda var myndin með fyrstu stórmyndum til að sýna araba sem "vonda kalla" eftir að rússagrýlan dagaði uppi og finna þurfti nýja óvini í Hollywood-myndirnar. Myndin varð þó merkilega sannspá um þau efni, en er þó fyrst og fremst áhugaverð fyrir afþreyingargildi sitt enda prýðisgóð poppkorns-hasarmynd.

Leikstjóri er sjálfur James Cameron sem viðriðinn hefur verið stórvirki kvikmyndasögunnar á borð við Terminator 2, Titanic og The Abyss.

Sannar lygar (True Lies) er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 23.05.