STOFNFUNDUR félagsdeildar Norræna félagsins í uppsveitum Árnessýslu var haldinn í Skálholtsskóla í síðasta mánuði og er þetta fyrsta félagsdeildin sem er alfarið í dreifbýli.

STOFNFUNDUR félagsdeildar Norræna félagsins í uppsveitum Árnessýslu var haldinn í Skálholtsskóla í síðasta mánuði og er þetta fyrsta félagsdeildin sem er alfarið í dreifbýli.

Forystufólk Norræna félagsins sem beitti sér fyrir stofnun deildarinnar lét í ljós mikla ánægju með þann áhuga og þær hugmyndir sem komu fram á fundinum, sem var mjög vel sóttur.

Kristján Guðmundsson, formaður vinabæjarnefndar Norræna félagsins, kynnti það starf. Hann nefndi mörg dæmi um slík samskipti milli skóla, kóra, íþróttahópa og starfshópa innan vinabæjanna og hvílík vítamínsprauta þessi tengsl hefðu orðið öllu félagsstarfi. Mikilvægasti þátturinn væri þó ungmennasamstarfið. Gat hann þess einnig að við tilkomu þessarar deildar kæmi í notkun nýtt orð í vinabæjarsamstarfinu, nefnilega vinasveitir!

Sólveig Pétursdóttir félagsmálastjóri, Hrosshaga í Biskupstungum, var kjörin formaður félagsdeildarinnar en aðrir í stjórn eru Lísa Thomsen, Búrfelli í Grímsnesi, gjaldkeri, Bjarni Ansnes, Flúðum í Hrunamannahreppi, ritari, Bernharður Guðmundsson, Skálholti, varaformaður og Dórothea Sigurðardóttir, Hæli í Gnúpverjahreppi, meðstjórnandi, en hún er 17 ára að aldri. Heimili félagsdeildarinnar verður í Skálholtsskóla

Formaður gat um ýmsa þá möguleika sem félagsdeildin hefur til að efla félagslíf og samskipti íbúanna hér í uppsveitunum og sagði að fyrsta verkefni stjórnarinnar væri að tengjast formlega vinasveitum á hinum Norðurlöndunum.

Fólki stendur til boða að gerast stofnfélagar félagsdeildarinnar fram að næsta aðalfundi í júní 2004 og er einfaldast að hafa samband við formann félagsins.