Lars Frederiksen
Lars Frederiksen
EINN efnilegasti organisti Dana af yngri kynslóðinni, Lars Frederiksen, organisti Frúarkirkjunnar í Óðinsvéum, gistir Ísland um þessar mundir og lýkur ferð sinni um landið með tvennum tónleikum í Hallgrímskirkju á vegum Sumarkvölds við orgelið.

EINN efnilegasti organisti Dana af yngri kynslóðinni, Lars Frederiksen, organisti Frúarkirkjunnar í Óðinsvéum, gistir Ísland um þessar mundir og lýkur ferð sinni um landið með tvennum tónleikum í Hallgrímskirkju á vegum Sumarkvölds við orgelið.

Í hádeginu í dag, kl. 12, verður flutt orgeltónlist eftir Bachs. Fyrst leikur Lars Fantasíu um sálminn Komm, heiliger Geist, Herre Gott, BWV 651, því næst Tríósónötu nr. 5 í C-dúr, BWV 529 og tónleikunum lýkur með Prelúdíu og fúgu í G-dúr, BWV 541.

Á efnisskrá aðaltónleika helgarinnar, annaðkvöld kl. 20, eru tónverk eftir "nágrannatónskáld", frá Norður-Þýskalandi og Danmörku. Fyrsta verkið á efnisskránni er Tokkata í d-moll eftir Dietrich Buxtehude, sem er jafnan kenndur við Maríukirkjuna í Lübeck.

Þá leikur Lars Frederiksen tvö verk eftir dönsk tónskáld, bæði fædd rétt fyrir aldamótin 1900. Fyrra verkið er Sónata nr. 1 í c-moll eftir Niels Otto Raasted. Hitt danska verkið er Tre koncertstykker for orgel eftir Rued I. Langgaard. Hann fór sínar eigin leiðir í tónlistarsköpun. Hann aðhylltist hin þjóðlegu tónskáld rómantíska tímabilsins í Danmörku, Gade og Hartmann, og dáðist mikið að Richard Wagner. Hann var á öndverðum meiði við Carl Nielsen og lifði í skugga hans allt sitt líf. Tónverk Langgaards spanna breitt svið, allt frá því að vera hugljúf og rómantísk yfir í tónverk með alls konar tilraunum brautryðjandans.

Síðasta verk tónleikanna er svo Fantasía og fúga í c-moll op. 29 eftir Max Reger.