HALLDÓR Sigurðsson ÍS landaði sex stórum hákörlum á Ísafirði á fimmtudaginn og var fjöldi heimamanna viðstaddur löndunina.

HALLDÓR Sigurðsson ÍS landaði sex stórum hákörlum á Ísafirði á fimmtudaginn og var fjöldi heimamanna viðstaddur löndunina. Aflinn var í heild um þrjú og hálft tonn og fékkst á þremur dögum en notuð var sérstök lína með stærri krókum en vanalega og beitt var með selkjöti. Nokkrir selkjötsbitanna voru bleyttir í rommi og að sögn Konráðs Eggertssonar, skipstjóra á Halldóri Sigurðssyni, leit hákarlinn ekki við öðru en rommbitunum. Konráð veiddi lengi vel hrefnu en eftir að hrefnuveiðar voru bannaðar hefur hann einkum verið á rækju og að undanförnu hefur hann verið að prófa sig áfram með hákarlaveiðar.

Aflinn fer nú til verkunar hjá Guðmundi Ólafssyni, hákarlaverkanda í Hnífsdal, og verður tilbúinn í kringum þorrann. Hákarlarnir veiddust langt frá landi, um 50 mílur norðaustur af Hornbjargi. Konráð sagði athugunarvert hvað fundist hafi í maga hákarlanna en í þeim öllum var lax, þorskur og steinbítur.

Á myndinni sést Guðmundur Konráðsson, sonur Konráðs Eggertssonar hákarlaveiðimanns, við hlið eins þeirra sex hákarla sem landað var á fimmtudaginn.