Umhverfisnefndinni þótti garðurinn við Blikanes 29 sérlega fallegur.
Umhverfisnefndinni þótti garðurinn við Blikanes 29 sérlega fallegur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÆJARSTJÓRN Garðabæjar hefur, að tillögu umhverfisnefndar, veitt viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi í Garðabæ á árinu 2003. Eigendur fjögurra lóða við íbúðarhús hlutu viðurkenningar.

BÆJARSTJÓRN Garðabæjar hefur, að tillögu umhverfisnefndar, veitt viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi í Garðabæ á árinu 2003. Eigendur fjögurra lóða við íbúðarhús hlutu viðurkenningar. Eigendur Blikaness 29 hlutu viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel heppnaðan garð. Garðurinn er nýuppgerður og sérstaka athygli vakti vönduð hundagirðing og þekjandi víðir í trjábeðum. Eigendur Bæjargils 65 hlutu viðurkenningu fyrir fallegan bakgarð, þar sem komið hefur verið fyrir lítilli tjörn með göngubrú, snotru garðhúsi og gróðurhúsi. Eigendur Goðatúns 34 hlutu viðurkenningu fyrir óvenjusnyrtilegan garð sem fullur er af blómskrúði en dalíurnar í garðinum eru eigin ræktun eigenda lóðarinnar. Eigendur Skógarhæðar 1 hlutu þá viðurkenningu fyrir fallegan garð með gróðurskála en sérstaka athygli vakti myndarlegur þriggja hólfa safnkassi sem gerir garðinn sjálfbæran.

Fjölbýlishúsagatan Lyngmóar var valin snyrtilegasta gatan í Garðabæ en Fjölbrautarskólinn í Garðabæ hlaut viðurkenningu fyrir vel hirta lóð. Sérkenni lóðarinnar er að lækur rennur milli tveggja aðalhluta hennar. Þá hlaut Jón Sveinsson, starfsmaður Þjónustumiðstöðvar, sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa góð áhrif á bæjarbúa með sínu jákvæða viðmóti og vinna dyggilega að snyrtilegum Garðabæ.