HINN listræni hluti miðborgarinnar mun njóta sín til fulls í dag, þegar efnt verður til dagskrár í tilefni af Listrænum laugardegi. Ýmislegt verður í boði en listafólk í miðborginni ætlar að hjálpast að við að skapa listræna stemningu á götum og torgum.

HINN listræni hluti miðborgarinnar mun njóta sín til fulls í dag, þegar efnt verður til dagskrár í tilefni af Listrænum laugardegi. Ýmislegt verður í boði en listafólk í miðborginni ætlar að hjálpast að við að skapa listræna stemningu á götum og torgum. Gullsmiðir bjóða fólk sérstaklega velkomið, tónlistarfólk flytur tónlist og dansað verður á götum úti en dagskráin mun hefjast með útimessu á Lækjartorgi klukkan eitt þar sem séra Jóna Hrönn Bolladóttir miðborgarprestur flytur stutta hugvekju og ungt fólk flytur hressilega trúartónlist.

Opið hús og gönguferðir

Opið hús verður víða yfir daginn, svo sem hjá Samtökunum '78 á Laugavegi og ýmsum vinnustofum listamanna. Borgarbókasafn býður upp á bókmenntagöngu um borgina klukkan fjögur en þar mun Hallgrímur Helgason meðal annars lesa upp úr verkum sínum á söguslóðum.

Menningarfylgd Birnu Þórðardóttur mun leggja upp frá Skólavörðuholti klukkan tvö en þaðan mun Birna leiða göngumenn um götur þessa skemmtilega borgarhluta og verður komið víða við. "Ég blanda saman örlitlu af sögu borgarinnar, örlitlu af Íslandssögunni og goðafræðinni enda vísa mörg götunöfnin til hennar. Síðan skoðum við skondin og skrýtin hús en það má eiginlega segja að við fetum í fótspor kattarins enda er nóg af þeim í þessu hverfi," segir Birna.

Listasafn Reykjavíkur mun veita ókeypis aðgang eftir hádegi í dag en auk sýninga sem eru þar í gangi verður meðal annars sýnd tónleikamynd Sykurmolanna, Á Guðs vegum, auk annarra uppákoma.

Listrænn laugardagur er liður í verkefninu Mögnuð miðborg og felur í sér margvíslega dagskrá á laugardögum í miðborg Reykjavíkur.