Frumskýrsla Samkeppnisstofnunar um olíufélögin er víða til umræðu á vefritunum. Hinrik M. Ásgeirsson gerir þátt Þórólfs Árnasonar borgarstjóra að umtalsefni í pistli á Pólitík, vef ungra jafnaðarmanna. Hann segir þar m.a.

Frumskýrsla Samkeppnisstofnunar um olíufélögin er víða til umræðu á vefritunum.

Hinrik M. Ásgeirsson gerir þátt Þórólfs Árnasonar borgarstjóra að umtalsefni í pistli á Pólitík, vef ungra jafnaðarmanna.

Hann segir þar m.a.: "Þórólfur veit sjálfur hvað er satt og hvað ekki. Í viðtali við Stöð 2 í fyrradag vildi hann hvorki neita né staðfesta neitt af því sem haft var eftir honum í frumskýrslunni. Ef hann hefði hins vegar neitað að hafa gert nokkuð rangt hefði hann vissulega fengið að njóta vafans þar til endanlegur úrskurður er kveðinn upp. Einmitt vegna þess að hann neitaði að svara spurningum fréttamannsins verður maður að álykta að efni frumskýrslunnar sé rétt. Sé frumskýrslan rétt er ljóst að hann á ekki að sinna starfi borgarstjóra. Það á ekki að verðlauna menn með borgarstjórastöðu sem hafa unnið gegn hagsmunum almennings og frjáls markaðar.

En Þórólfur er ekki einn um að skulda svör. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar verða einnig að svara þeirra spurningu hvort þeir sætti sig við að Þórólfur starfi í umboði þeirra án þess að svara því opinberlega hvort hann hafi tekið þátt í samsæri gegn almenningi. Ef þeir sætta sig við það eru þeir annaðhvort huglausir eða þá skortir sannfæringu orða sinna.

Samfylkingin má ekki láta það gerast að prédika eitt og gera annað. Væri dæminu snúið við og Þórólfur væri borgarstjóri sjálfstæðismanna er alveg klárt að Samfylkingin myndi ekki hika við að krefjast afsagnar hans nema hann neitaði sök."

Sigurður Þorkelsson fjallar einnig um þátt borgarstjóra í pistli á Hriflu, vef framsóknarmanna í Reykjavík. Sigurður segir: "Nú er blá höndin komin á loft og reiðir til höggs og nú verður slegið snöggt og af alefli. Sjálfstæðismenn hugsa sér nú gott til glóðarinnar í vandræðum Þórólfs Árnasonar borgarstjóra og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er kominn í nýju fötin keisarans. "Borgarstjóri verður að víkja." "Undarleg þögn borgarstjóra." "Krafinn skýringa á olíuverðsamráði." Samkeppnislögin voru sett 1993, þátttaka Þórólfs í meintu verðsamráði á sér stað 1996, þá er Þórólfur millistjórnandi og lítið tannhjól í gamalgrónu veldi olíufélaganna. Saklaus uns sekt er sönnuð, er það ekki gamalt og gott orðatiltæki sem nú á við? Það er rétt af Þórólfi að bíða eftir niðurstöðu í málinu og skoða sinn gang í framhaldi af því."