UMHVERFISRÁÐHERRA vísaði frá í fyrri viku þremur stjórnsýslukærum vegna útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi álvers við Reyðarfjörð.

UMHVERFISRÁÐHERRA vísaði frá í fyrri viku þremur stjórnsýslukærum vegna útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi álvers við Reyðarfjörð. Aðalheiður Jóhannsdóttir, sérfræðingur í umhverfisrétti, telur frávísun ráðherra bera vitni um, að kæruréttur hafi verið þrengdur miðað við fyrri framkvæmd.

"Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 1998 er öllum heimilt að gera athugasemdir á meðan starfsleyfi er í vinnslu. Þess vegna er sérstakt að kæruréttur sé ekki viðurkenndur í þessu máli. Í lögunum er ekki sérstaklega kveðið á um hverjir eigi rétt á að kæra starfsleyfisveitingu," sagði Aðalheiður í samtali við Morgunblaðið. Af þeim sökum beri ráðuneytið fyrir sig meginreglur stjórnsýsluréttar, og vísi kærunum frá samkvæmt þeim.

Í gildistíð eldri laga um sama efni, frá 1988, var kæruréttur rýmkaður. "Í ljósi þess tel ég að ráðuneytið sé nú að þrengja framkvæmdina. Til dæmis má einnig benda á, að í fyrstu lögum um mat á umhverfisáhrifum, frá 1993, var ekki sérstaklega vikið að því hverjir ættu kærurétt. Samt sem áður vísaði ráðuneytið ekki frá kærum vegna aðildarskorts, en hefði samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar átt að vísa þeim frá. Þvert á móti voru kærur teknar til meðferðar. Til dæmis um það má nefna kærur tveggja einstaklinga," segir Aðalheiður.

"Ég tel engan vafa á því að hér sé verið að þrengja réttinn verulega, og efast um að réttlætanlegt sé, því úrskurðurinn stingur mjög í stúf við eldri framkvæmd. Ég lít á þetta mál sem eitt dæmið í viðbót um nauðsyn heildarendurskoðunar á umhverfislöggjöf hvað varðar aðild og kærurétt einstaklinga og frjálsra félagasamtaka," sagði Aðalheiður.