MEÐ hliðsjón af umræðu um stofnun Lýðheilsustöðvar er við hæfi að ræða meginhugtök lýðheilsu, forsendur þess starfs og hvað skilur það frá hefðbundinni meðferð sjúkdóma.

MEÐ hliðsjón af umræðu um stofnun Lýðheilsustöðvar er við hæfi að ræða meginhugtök lýðheilsu, forsendur þess starfs og hvað skilur það frá hefðbundinni meðferð sjúkdóma.

Heilbrigðisútgjöld

Heilbrigðisútgjöld hafa frá 1960 hækkað úr 3% í yfir 9% vergrar þjóðarframleiðslu. Ástæður þessa má rekja til fjárfrekra tækniframfara, vaxandi lyfjakostnaðar og aukinna útgjalda til aldraðra. Vegna þessa kostnaðarauka hafa heilbrigðisyfirvöld beitt vissri en oft óljósri forgangsröðun við úthlutun fjármagns til heilbrigðisverkefna. Í slíkri forgangsröðun hafa þau verkefni fengið forgang sem snerta meðferð sjúkra og renna ríflega 80% heilbrigðisútgjalda hins opinbera til sjúkrahúsa, heilsugæslu og lyfja og um 16% til öldrunarmála og endurhæfingar. Ljóst er að aðeins lítill hluti þessara útgjalda hefur runnið til eyrnamerktra fyrirbyggjandi verkefna.

Meginhugtök lýðheilsu

Forvarnir eru aðgerðir sem beinast að öllu samfélaginu eða hópi einstaklinga með það fyrir augum að draga úr áreiti er leitt getur til sjúkdóma, að greina sjúkdóma áður en þeir gefa einkenni og að bæta og styrkja heilsu sjúkra eftir hefðbundna meðferð. Forvörnum er almennt skipt í fjóra flokka eftir eðli þeirra.

Frumstig og fyrsta stig eru nátengd og markmið samtvinnuð. Hér beinast aðgerðir að ákveðnum aðstæðum og orsakaþáttum í umhverfi okkar er leitt geta til sjúkdóma. Stjórnvöld nýta hér m.a. lög og reglugerðir til að koma í veg fyrir dreifingu hættulegra efna í umhverfið, notkun þeirra í fæðutegundir, og til eflingar tóbaksvarna, bólusetninga, mæðra- og ungbarnaeftirlits, slysavarna og ýmiss konar fræðslu tengda forvörnum. Flestum er vel kunnugt um áhrifamátt bólusetninga s.s. gegn ýmsum barnasjúkdómum en færri er vafalaust kunnugt um að lækka megi nýgengi krabbameina um allt að 20% ef tekst að uppræta reykingar.

Annað stig forvarna beinist að því að lækna eða draga úr afleiðingum sjúkdóma með því að greina þá og meðhöndla á forstigi eða hulinsstigi. Sem dæmi má nefna blóðþrýstings- og blóðfitumælingar til að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum, heyrnarmælingar til að draga úr heyrnartapi, ómskoðanir í mæðravernd og kembileit af ýmsum toga. Skipuleg kembileit merkir að stórum hópi af einkennalausum og í flestum tilfellum heilbrigðum einstaklingum er boðið til skoðunar. Dæmi um slíkt er skipulögð krabbameinsleit og er hún háð ströngum skilyrðum sem eingöngu þrjú krabbamein uppfylla í dag, en það eru legháls-, brjósta- og ristilkrabbamein. Reiknað hefur verið út að slík skipuleg krabbameinsleit geti lækkað dánartíðni kvenna um meira en 10%.

Þriðja stig forvarna beinist að því að efla andlegt og líkamlegt atgervi eftir sjúkdómameðferð með því markmiði að draga úr afleiðingum fötlunar og flýta aðlögun einstaklingsins að skertu líkamlegu eða andlegu ástandi. Skilin milli þessa stigs forvarna og hefðbundinnar meðferðar eru oft óljós og markmið samtvinnuð.

Heilsuefling er aðgerðir er beinist að einstaklingnum og miða að því að auka þekkingu hans og skapa þær aðstæður í samfélaginu er auðvelda honum að taka sjálfstæðar ákvarðanir um aðgerðir til að bæta heilsu sína og þar með að koma í veg fyrir sjúkdóma. Heilsuefling beinist m.a. að því að fræða einstaklinginn um mikilvægi hæfilegra líkamsæfinga, reglulegrar þátttöku í krabbameinsleit, neyslu hollrar fæðu og sýna honum fram á skaðsemi reykinga, óhóflegrar sólargeislunar og ofneyslu áfengra drykkja. Ljóst er að skil milli heilsueflingar og forvarna eru oft óljós og markmið samtvinnuð.

Hlutverk Lýðheilsustöðvar

Stjórnendum heilbrigðismála er ljóst að efling lýðheilsustarfs getur til lengdar litið dregið úr þörf á forgangsröðun verkefna. Hér má m.a. benda á þá uggvænlegu staðreynd að spáð er að tíðni krabbameina á Norðurlöndum muni á næsta áratug hækka um allt að 35% en á sama tíma hefur verið reiknað út að með forvörnum og heilsueflingu megi lækka nýgengi krabbameina um allt að 70%. Svipuð áhrif eru tengd öðrum sjúkdómum m.a. hjarta- og æðasjúkdómum er byggjast á aðgerðum gegn reykingum, ofnotkun áfengis, offitu og óhollu mataræði. Heilbrigðisyfirvöldum er ljóst að lýðheilsustarf mun í heild sinni skila sér í minna álagi á sjúkrastofnanir, leiða til færri og umfangsminni aðgerða, færri og ódýrari lyfjameðferða og fækka veikindaforföllum.

Hér á landi koma margir aðilar að lýðheilsustarfi og má þar m.a. nefna heilsugæslu, sjúkrahús, heilsuræktarstöðvar, skóla, áhugamannafélög, Alþingi, landlækni, sóttvarnarlækni, ýmis ráð og nefndir á vegum hins opinbera auk þeirra er vinna að rannsóknum á þessu sviði. Lýðheilsustöð mun taka yfir beina stjórn áfengis- og vímuvarna, tóbaksvarna, slysavarna og manneldisráðs en er að auki ætlað að efla lýðheilsu með því að styðja við og samræma starf annarra stofnana og félagasamtaka er sinna ýmsum lýðheilsuverkefnum. Ljóst er að hér er í frummótun viðamikið og mikilvægt samhæfingarstarf sem mun þarfnast styrkrar stjórnar, aðhlynningar hins opinbera og stuðnings hinna ýmsu aðila er starfa að heilbrigðis- og lýðheilsumálum ef vel á að takast.

Eftir Kristján Sigurðsson

Höfundur er doktor í lýðheilsu og yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.