Engin ákvörðun um málssókn Vegna fréttar í Morgunblaðinu í gær um brottvikningu forstjóra Löggildingarstofu, Gylfa Gauts Péturssonar, er rétta að taka fram að ekki liggur fyrir hvort farið verður með málið fyrir dómstóla. Ragnar H.

Engin ákvörðun um málssókn

Vegna fréttar í Morgunblaðinu í gær um brottvikningu forstjóra Löggildingarstofu, Gylfa Gauts Péturssonar, er rétta að taka fram að ekki liggur fyrir hvort farið verður með málið fyrir dómstóla.

Ragnar H. Hall, lögmaður Gylfa, sagði í samtali við Morgunblaðið sl. fimmtudag: "Nú tekur ráðuneytið væntanlega ákvörðun um það hvort það víkur Gylfa úr starfi að fullu og ef það verður gert á hann engan annan kost en að höfða mál til heimtu bóta vegna ólögmætrar uppsagnar og láta þá reyna á hvort þessi rökstuðningur heldur. Það er Gylfa að taka ákvörðun um það."

Í gær var rætt við viðskiptaráðherra um málið og þar er vísað til þessara ummæla Ragnars án þess að fram komi að það sé Gylfa að taka ákvörðun um hvort farið verði með málið fyrir dómstóla. Skilja mátti á fréttinni að fyrir lægi ákvörðun um að farið yrði með málið fyrir dómstóla. Hið rétta er að Gylfi hefur enga ákvörðun tekið um það ennþá.

Ekki eldur hjá Sorpstöðinni

Ranglega var sagt í frétt sl. fimmtudag að eldur hafi komið upp hjá Sorpstöð Suðurlands á miðvikudaginn. Hið rétta er að eldur mun hafa kviknað á svæði Gámastöðvar Selfoss.

Rangt föðurnafn

Föðurnafn eiginmanns Guðrúnar Sigurbergsdóttur misritaðist í formála minningargreina um hana í Morgunblaðinu föstudaginn 25. júlí.

Þórarinn, eiginmaður Guðrúnar, var Sigurðsson en ekki Sigurbergsson eins og sagt var í blaðinu.

Rangt farið með kostnað

Vegna fréttar um opnun Hótels Öldunnar á Seyðisfirði leiðréttist að heildarkostnaður við endurbyggingu húsanna tveggja var um fjörtíu milljónir, en ekki 47 milljónir eins og sagði í fréttinni. Þá á Byggðastofnun 30% hlutafjár í Fjarðaröldunni hf., en lagði ekki styrk til hótelsins að öðru leyti.