George W. Bush Bandaríkjaforseti (t.h.) talar við fréttamenn við Hvíta húsið í gær með palestínska forsætisráðherrann, Mahmoud Abbas, sér við hlið.
George W. Bush Bandaríkjaforseti (t.h.) talar við fréttamenn við Hvíta húsið í gær með palestínska forsætisráðherrann, Mahmoud Abbas, sér við hlið.
GEORGE W.

GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti kynnti í gær fyrirhugaðar aðgerðir til að draga úr fátækt meðal Palestínumanna og fullvissaði Mahmoud Abbas, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, um að Bandaríkjastjórn væri staðráðin í að stuðla að því að Palestínumenn og Ísraelar geti lifað sitt í hvoru ríkinu í friði og öryggi.

Bush og Abbas ræddust við í Washington í gær. Eftir fundinn tjáði Bush fréttamönnum að tveir ráðherrar úr bandarísku ríkisstjórninni myndu fara til Ísraels í haust í þeim erindagjörðum að stuðla að sköpun nýrra starfa og byggðaþróunarráðstafana á svæðum Palestínumanna.

Forsetinn sagðist hafa tjáð Abbas að Bandaríkjamenn myndu "knýja á um að gefin fyrirheit verði efnd" og hafa eftirlit með framfylgd áformanna um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna, við hlið öruggs Ísraelsríkis.

"Þetta er tími tækifæra í Mið-Austurlöndum," sagði Bush. "Fólk á svæðinu reiðir sig á að leiðtogarnir grípi þau til að tryggja frið og framfarir."

Abbas lagði í þessum fyrstu beinu viðræðum sínum við æðstu leiðtoga Bandaríkjastjórnar áherzlu á að Ísraelsstjórn verði að gera betur til að uppfylla skilyrði hins svonefnda vegvísis til friðar og að láta fleiri palestínska fanga lausa úr ísraelskum fangelsum.

Washington. AP.