"Vertu þolinmóður," gæti Elísabet Halldórsdóttir, unnusta Birgis Leifs Hafþórssonar, verið að segja í Eyjum í gær.
"Vertu þolinmóður," gæti Elísabet Halldórsdóttir, unnusta Birgis Leifs Hafþórssonar, verið að segja í Eyjum í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veðrið hefur leikið við þátttakendur í Íslandsmótinu í höggleik sem haldinn er í Vestmannaeyjum þessa helgi og völlurinn í sínu besta ástandi í mörg ár.

Veðrið hefur leikið við þátttakendur í Íslandsmótinu í höggleik sem haldinn er í Vestmannaeyjum þessa helgi og völlurinn í sínu besta ástandi í mörg ár. Þáttakendur eru þó í færri kantinum, 98 þátttakendur skráðu sig til leiks í karlaflokki og aðeins 18 í kvennaflokki. Allir fremstu kylfingar landsins létu sig þó ekki vanta og þeirra á meðal atvinnumennirnir Birgir Leifur Hafþórsson og Örn Ævar Hjartarson. Byrjað var að keppa á fimmtudag og komu sjö leikmenn í karlaflokki inn á skori undir pari vallarins.

Efstur var Birgir Leifur Hafþórsson GKG á 67 höggum en fast á hæla hans kom núverandi Íslandsmeistari Sigurpáll Sveinsson GA Á 68 höggum. Síðan komu þeir Örn Ævar Hjartarson GS, Magnús Lárusson GKJ, Davíð Már Vilhjálmsson GKJ og Ólafur Már Sigurðsson GK allir á 69 höggum. Á öðrum degi lék Birgir Leifur svo á 65 höggum og er því átta undir pari þegar mótið er hálfnað. Í öðru sæti er svo Magnús Lárusson GKJ sem spilaði mjög vel á öðrum degi, 66 höggum og er þremur höggum á eftir Birgi. Sigurpáll er svo í þriðja sæti á fjórum undir pari. Þeir þrír hafa skorið sig talsvert frá hinum keppendunum og stefnir í einvígi þeirra á milli síðustu tvo daga mótsins. Reyndar skal ekki afskrifa þá Björgvin Sigurbergsson GK, Ólaf Má Sigurðsson GK og Örn Ævar Hjartarson GS sem eru þar á eftir. Nú hefur keppendum verið fækkað úr 98 í 72 og var hæsta skor sem slapp í gegnum niðurskurðinn heilum 29 höggum frá efsta sætinu.

Í kvennaflokki voru þrjár stúlkur efstar og jafnar eftir fyrsta daginn á 77 höggum, þær Ólöf María Jónsdóttir og Þórdís Geirsdóttir úr GK og Nína Björk Geirsdóttir úr GKJ. Ólöf María spilaði svo feikna vel á öðrum degi og kom inn á 71 höggi og samanlagt á 148. Hún náði fjögurra högga forystu en í öðru sæti er Ragnhildur Sigurðardóttir GR á 152 höggum og í því þriðja Þórdís Geirsdóttir á 154 höggum. Flestar stúlkurnar bættu skor sitt frá fyrri degi og enn allt opið í kvennaflokknum.

Ólöf María segir að forysta sín eftir tvo daga skipti litlu, enda nóg eftir af mótinu. "Ég ætla bara að halda áfram að slá eitt högg í einu og halda þolinmæðinni en takmarkið hjá mér er það sama og þegar ég kom hingað og það er að klára mótið vel." Hún spilaði fyrri níu holur vallarins á pari en var á einum yfir á seinni níu og kom inn með mjög góðan hring, 71 högg sem setur hana í forystusætið með fjögurra högga forystu. Hún bætti sig um sex högg milli daga og segir sitthvað hafa fallið sér í hag seinni daginn. "Ég var reyndar að tapa höggum í röffinu sem er þungt á vellinum, tvö högg fóru bara í það að koma sér aftur á braut en ég sló nokkur góð upphafshögg og eins inn á grínin þannig að það var eiginlega allt svona nokkuð gott hjá mér í dag. Svo voru líka að detta pútt, ég fékk tvö góð ofan í í dag sem vantaði alveg í gær og ætli það sé ekki meginmunurinn á spilamennskunni í dag og í gær." Hún sagði að heldur minni vindur hafi verið fyrri níu holurnar í gær. "Svo þarf maður bara að venjast vellinum og ná mesta stressinu úr sér, það er alltaf mest á fyrsta hring í svona móti." Mikið hefur verið rætt um rigninguna sem spáð hefur verið en hefur ekki látið sjá sig á Heimaey það sem af er. "Það er bara fínt ef það fer að rigna, þá reynir vel á það sem ég hef verið að æfa mig í." Hún bar vellinum vel söguna. "Hann er alveg virkilega góður og ég hef aldrei spilað völlinn í Eyjum svona góðan, hann Alli (Aðalsteinn Ingvarsson vallarstjóri) er greinilega að gera frábæra hluti hérna og fær hann tíu fyrir það," sagði Ólöf.

Björgvin slapp við niðurskurð

Gauti Grétarsson úr Nesklúbbnum var sá kylfingur sem "slapp síðastur í gegnum hliðið" þegar keppendafjöldi í karlaflokki á Íslandsmótinu var skorinn niður. Alls voru 94 sem tóku þátt en 72 fá að leika tvo síðustu keppnisdagana. Það voru engin "stór nöfn" sem féllu úr leik að þessu sinni en þeir sem léku á 21 höggi yfir pari eða minna komust áfram. Þar má nefna Björgvin Þorsteinsson, GA, sem er í þessum hópi en hann er sexfaldur Íslandsmeistari og keppir í fertugasta skipti á Íslandsmóti að þessu sinni. Úlfar Jónsson, GK, er einnig sexfaldur Íslandsmeistari en hann er samtals sex höggum yfir pari og í hópi tuttugu efstu sem stendur.

Allir keppendur í kvennaflokki, alls 16 keppendur, fá að leika næstu tvo daga en þar rekur fyrrum Íslandsmeistari í golfi lestina, Steinun Sæmundsdóttir úr GK.