Amanda Bynes og Colin Firth í hlutverkum sínum.
Amanda Bynes og Colin Firth í hlutverkum sínum.
Leikstjóri: Dennie Gordon. Handrit: Elizabeth Chandler. Kvikmyndatökustjóri: Andrew Dunn. Tónlist: Rupert Gregson Willimas. Aðalleikendur: Amanda Bynes, Colin Firth, Kelly Preston, Anna Chancellor og Jonathan Pryce. 95 mínútur. Warner Bros. Bandaríkin 2003.

ÞÁ vitum við hvað aðallinn stelst til að éta í laumi: Kókópöffs. Eins gott, því styrjan er í útrýmingarhættu. Annars eru heimildirnar vafasamar, fengnar úr bandarísku gamanmyndinni Það sem stúlka þarfnast. Hún er enn eitt ævintýrið um fátæku fallegu, bandarísku almúgastúlkuna sem dreymir um aðalsmanninn föður sinn sem mamma glutraði víst niður. Þegar þessi dama, nánar til tekið Daphne Reynolds (Amanda Bynes), leggur á stúfana að kynnast honum pabba sínum, Dashwood lávarði (Colin Firth), er hún orðin gjafvaxta, eins og sagt er í Grimmsævintýrum. Lávarðurinn hefur hinsvegar ekkert vitað um afkvæmið, verið blekktur af pólitískum ástæðum. Hann býr í vellystingum praktuglega ásamt hirð, heitmey (Anna Chancellor), væntanlegri stjúpdóttir og ráðgjafa (Jonathan Pryce), Þrenningin sú er ákaflega illa innrætt og andstyggileg við dótturina sem skýtur svo óvænt upp kollinum. Komin austur um haf frá Manhattaneyju og kann lítið fyrir sér í siðareglum. Þrátt fyrir hegðunarvandamál og gildrur stjúpmæðgnanna skapast með feðginunum einlæg ást og gagnkvæm virðuing fyrir þeirra ólíku menningarheimum.

Ekki eins vont og það lítur út fyrir og mikið skemmtilegri en svipað prinsessuævintýri sem Julie Andrews lék í fyrir nokkru. Vissulega væmin, vitgrönn og fyrirsjáanleg en Það sem stúlka þarfnast lúrir einnig á talsvert fyndnum sprettum þar sem gert er stólpagrín að yfirstéttarsnobbi, Filippus og frú, Karli prins og því fólki öllu. Þá er hún blessunarlega laus við að taka sig alvarlega og ekkert á þeim skónum að punda á áhorfendur einhverjum fimm aura prédikunum. Annar kostur er skemmtilegur leikhópur, einkum er heitmeyjan í frábærum höndum Chachellor og sjónvarpsstjarnan Bynes er sæt og hæfileikarík stúlka sem sleppur ótrúlega vel frá öllu saman. Pryce svíkur engan og fer vonandi ekki að taka upp á því úr þessu og Colin Firth er geðugur leikari sem maður taldi víst að hefði eitthvað bitastæðara fyrir stafni. Í það heila tekið lagleg fjölskyldumynd sem fær draumaverksmiðjuna til að standa undir nafni. Þið verðið að sjá hana með eigin augum til að komast að leyndardómum kókópöffsins.

Sæbjörn Valdimarsson