eftir Jan Sonnegaard. Hjalti Rögnvaldsson þýddi. 158 bls. Bjartur 2003.

BÓKAFORLAGIÐ Bjartur hefur á undanförnum árum sýnt mikinn metnað í að gefa út glóðvolgar þýðingar. Smásagnasafnið Radiator eftir Danann Jan Sonnegaard kom út í Danmörku 1997 og fékk mjög góðar viðtökur. Nú hefur því verið snarað á íslensku en ef til vill hefði verið meiri fengur að því að fá það inn í bókmenntaumræðuna hér á landi á nýliðinni öld. Þýðing Hjalta Rögnvaldssonar er misgóð og ég furða mig stórlega á þýðingunni á titlinum. Orðið "ristavél" er barnamál og talmál, en "radiator" merkir miðstöð, ofn eða hitagjafi sem á ekkert skylt við brauðrist. Bjartur hefur farið eigin leiðir í einfaldri, smekklegri og staðlaðri hönnun bókakápu neonklúbbsbóka sinna en þessi kápa er ekki vel heppnuð, gulllitaðir stafirnir eru svo til ólæsilegir á koparfleti. Ristavél er fyrsti hluti þríleiks Sonnegaards og gaman væri að sjá hin smásagnasöfnin tvö í vandaðri útgáfu á íslensku.

Í bókinni eru tíu sögur sem eiga sitthvað sameiginlegt. Allar gerast þær í Kaupmannahöfn og fjalla um mannlega niðurlægingu, hatur, ofbeldi og vesöld. Persónur sagnanna eru utangarðs og einmana, öryrkjar, atvinnuleysingjar, geðsjúklingar eða fólk sem hefur misst vonina. Í sögunum er dregin upp grimmdarleg samfélagsmynd, skuggahlið danska velferðarríkisins. Í t.d. Þjófnaði er hópur ungra manna, með vasana fulla af örorku- og atvinnuleysisbótum, sem hatar ríku, vel klæddu smáborgarana og heimsku yfirstéttarkerlingarnar með Gucci-töskurnar. Þeir eru uppfullir af reiði og ætla að hirða það sem þeim ber, hefna sín en vita samt að það er ósköp tilgangslaust. Í Nettó og Fakta segir frá atvinnuleysingja sem er handviss um að hann muni drepast úr sjúkdómum vegna þess að hann lifir á ruslfæði úr ódýrum matvörubúðum; upplituðu áleggi, salmonellukjúklingum og skemmdu grænmeti. Hann er fastur í vítahring, á sér enga von, ekkert líf: "Og svona hefur þetta verið svo lengi og ég man. Nálægt mánaðarmótum eru peningar millifærðir, og ég get lifað sómasamlegu lífi í nokkra daga og keypt nokkurn veginn nýtt kjöt og grænmeti sem er ekki ennþá úldið í gegn, og ég ímynda mér í hvert sinn að núna gangi allt vel aftur, að núna sé ég ekki lengur í skítnum og nú sé hægt að djamma dálítið aftur. Bara dálítið" (108).

Áhrifarík er fyrsta sagan í safninu, William, sem lýsir viðbjóðslegu ofbeldi og einelti og Steggjapartí sýnir vel hversu lítið þarf út af að bera til að allt fari úr böndunum. Steggjapartí sker sig úr hinum sögunum þar sem frásagnarhátturinn er allt öðru vísi, sögumaður talar í 1. persónu, hlutlaus og afar dularfullur. Sögurnar eru annars mjög misjafnar að gæðum; sagan um manninn í fataskápnum og Gjaldþrot eru bæði stuttar og lítt eftirminnilegar og Lotta er ansi reikul saga með "óvæntum" endalokum. Stíll sagnanna er talmálskenndur og stundum barnalegur, sagt er frá skipbroti fólks, sjálfsvorkunn þess og botnlausri eymd með afskipta- og kæruleysi. Það er erfitt að finna til samlíðunar með persónunum, þær eru ógeðfelldar og ömurlegar. Harmur þeirra liggur samt milli línanna, í fortíð eða skapgerð sem stundum glittir í undir hráu yfirborði. Í flestum sögunum er kaldlyndi ráðandi ásamt beiskri ádeilu sem bæði beinist gegn samfélaginu og einstaklingunum. Samfélagið er stéttskipt; sumir fæðast með silfurskeið í munni, eiga gott bakland, hafa góða menntun og vel launaða atvinnu sem hentar þeim; aðrir fá fátæktina í vöggugjöf og eru allar bjargir bannaðar. Bilið breikkar milli hinna ríku og fátæku, stolt sem bíður hnekki snýst upp í siðblindu og hatur, bæði á þeim sem betur mega sín og á samfélaginu sem skammtar fátæklingunum skít úr hnefa. Smásögur Sonnegaards eru hvorki skemmti- né náttborðslesning og sennilega ráðlegast að lesa bara eina sögu í einu, a.m.k. fyrir viðkvæmar sálir.

Steinunn Inga Óttarsdóttir