Margir stórþorskar veiddust á mótinu. Berglind Hallmarsdóttir og Skarphéðinn Ásbjörnsson veiddu tvo þeirra og voru að vonum ánægð með sig.
Margir stórþorskar veiddust á mótinu. Berglind Hallmarsdóttir og Skarphéðinn Ásbjörnsson veiddu tvo þeirra og voru að vonum ánægð með sig.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
OPIÐ mót Sjóstangaveiðifélags Snæfellsness fór fram í Ólafsvík 18. og 19. júlí í blíðskaparveðri. Keppendur voru 55 talsins frá öllum aðildarfélögum SJÓl, en þau eru átta talsins. Afli var tregari en oft áður, 12 tonn voru dregin á land.

OPIÐ mót Sjóstangaveiðifélags Snæfellsness fór fram í Ólafsvík 18. og 19. júlí í blíðskaparveðri. Keppendur voru 55 talsins frá öllum aðildarfélögum SJÓl, en þau eru átta talsins. Afli var tregari en oft áður, 12 tonn voru dregin á land. Mótið þótti þó takast mjög vel og var glæsibragur á.

Siglfirðingar voru sigursælir í kvennaflokki. Svala Júlía Ólafsdóttir varð aflahæst kvenna, veiddi 788 kg, og sveit SJÓSIGL sigraði í sveitakeppni kvena.

Bjarni Örn Kærnested frá Reykjavík varð aflahæstur karla með 855 kg og sveit SJÓR vann sveitakeppni karla.

Alls veiddust ellefu tegundir fisks á mótinu, þó mest bæri á þorski og ufsa. Allt að tíu stórþorskar veiddust, um og yfir 20 kg hver. Þann stærsta veiddi Steindór Sigurðsson frá Akureyri og vó sá þorskur 23 kg.

Róið var á 16 bátum. Aflahæstur skipstjóranna varð Arnór Guðmundsson á Góu, meðalafli á stöng 775 kg, en mestu verðmæti skilaði Örvar Ólafsson á Brimli.

Þetta mót var hið sjötta í mótaröð sjóstangaveiðifélaganna. Eftir eru mótin á Siglufirði og Akureyri.

Þorsteinn Jóhannesson frá Siglufirði hefur góða forystu í stigakeppninni um Íslandsmeistaratitil karla en í kvennaflokknum er keppnin harðari og tvísýnni. Þátttaka kvenna í sjóstangaveiðinni eykst stöðugt, enda hafa konur almennt ekki mörg tækifæri til þess að komast á sjó. Gefa þær körlunum lítt eftir í veiðinni.