RÚMENSK fjölskylda, sem hvorki fékk hæli sem pólitískir flóttamenn né af mannúðarástæðum, var flutt úr landi í gær og fylgdu lögreglumenn þeim áleiðis til Rúmeníu.

RÚMENSK fjölskylda, sem hvorki fékk hæli sem pólitískir flóttamenn né af mannúðarástæðum, var flutt úr landi í gær og fylgdu lögreglumenn þeim áleiðis til Rúmeníu. Fólkið kvaðst verða fyrir ofsóknum í heimalandi sínu og hafa verið á flótta í meira en 12 ár. Útlendingastofnun hafnaði hælisbeiðninni og var sá úrskurður staðfestur af dómsmálaráðuneytinu.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að maðurinn kom ásamt konu sinni og tveimur börnum til landsins 20. desember 2002. Hann hafði þá dvalið lengur innan Schengen-svæðisins en honum var heimilt og var synjað um landgöngu en öll fjölskyldan sótti þá um hæli sem pólitískir flóttamenn. Einnig sótti maðurinn um hæli af mannúðarástæðum fyrir sig og fjölskyldu sína. Maðurinn hafði áður komið til Íslands, í ágúst sama ár, og óskað eftir hæli. Meðan hælisumsókn hans var til meðferðar var hann um tíma í hungurverkfalli en í nóvember dró hann hælisumsóknina til baka og fór til Hollands með aðstoð íslenskra stjórnvalda.

Ofsóttur af lögreglu

Í viðtali hjá Útlendingastofnun sagði maðurinn að lögregla í Rúmeníu hafi byrjað að ofsækja hann þegar hann sneri heim frá Bretlandi árið 1998, en ástæður þess að hann sneri heim voru annars vegar þær að ættleiða hafi átt börn hans og að hann hafi sætt ofsóknum og líflátshótunum frá auðugum arabískum hryðjuverkamanni. Í Rúmeníu hafi lögregla ofsótt hann, m.a. vegna viðleitni hans til að fá menn dæmda sem höfðu misþyrmt honum í gegnum tíðina og gerst sekir um alvarlegt ofbeldi gegn eiginkonu hans. Þá hafi hann verið ofsóttur vegna þess að hann tilheyrir ungverskum minnihlutahópi. Í viðtalinu kom einnig fram að hann hafi orðið fyrir ofsóknum hér á landi af hálfu rúmenskra flóttamanna sem hafi talið að hann ynni fyrir Útlendingastofnun.

Útlendingastofnun taldi að þær lögregluaðgerðir sem maðurinn greindi frá, jafnvel þótt frásögn hans væri rétt, væru tilviljanakenndar og hlytu að vera afleiðingar þess að einstaklingar hafi misnotað vald sitt. Til þess að falla undir skilgreiningu Flóttamannasamningsins þurfi hælisumsækjandi að sýna fram á að þessi tilvik hafi ekki einfaldlega verið tilfallandi af hálfu einstaklinga heldur um skipulagðar aðgerðir að ræða eða ofsóknum beint að umsækjanda sem hafi verið stjórnað, heimilað eða framfylgt af yfirvöldum, eða þá að yfirvöld hafi ekki getað eða viljað veita honum fullnægjandi vernd. Útlendingastofnun taldi að ríkisstjórn Rúmeníu myndi ekki líða brot á grundvallarmannréttindum. Ekkert hafi heldur komið fram um að maðurinn hafi leitað aðstoðar þar til bærra yfirvalda í Rúmeníu áður en hann sótti um hæli sem flóttamaður en það sé grundvallarforsenda fyrir því að möguleiki væri á að veita honum hæli sem pólitískur flóttamaður.

Byggjast á rannsókn ESB

Í úrskurðinum er minnt á að Rúmenía hafi sótt um inngöngu í Evrópusambandið og allar líkur séu til þess að umsóknin verði samþykkt á næsta ári eða fljótlega eftir það. Þá hafi Schengen-ríkin fellt niður áritunarskyldu gagnvart ríkisborgurum landsins en það byggist á umfangsmikilli rannsókn sem ESB hafi gert vegna aðildarumsóknar Rúmeníu. ESB hafi komist að þeirri niðurstöðu að rúmensk stjórnvöld mismuni hvorki þegnum sínum né láti mannréttindarbrot viðgangast. Þá bendi ekkert til þess að hann verði fyrir ofsóknum eða áreiti verði hann sendur aftur til Rúmeníu. "Benda verður jafnframt á að umsækjandi hefur, með því að óska eftir hæli á Íslandi, eftir að hafa ferðast víða um Evrópu og a.m.k. þrisvar áður sótt um hæli og að eigin sögn fengið synjun í öllum þeim ríkjum, berlega misnotað ákvæði Flóttamannasamningsins sem ætlað er að vernda þá sem raunverulega þurfa vernd," segir ennfremur í úrskurðinum. Þá hafi hann með hegðun sinni brotið gegn lögum um eftirlit með útlendingum. Beiðni hans um hæli af mannúðarástæðum var einnig hafnað, með vísan í flest þau sömu rök og hér að ofan. Fjölskyldunni var því vísað úr landi og bannað að koma til landsins næstu þrjú ár. Bannið gildir fyrir allt Schengen-svæðið. Þennan úrskurð kærði maðurinn til dómsmálaráðuneytisins.

Alvarlegar afleiðingar fyrir börnin

Í greinargerð lögmanns mannsins, Hilmars Magnússonar hrl., segir að maðurinn hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í Rúmeníu. Andstaða gegn minnihlutahópum fari vaxandi þar í landi og stóraukinn fjölda pólitískra flóttamanna þaðan megi beinlínis rekja til þess. Þá sé rangt að ofsóknirnar hafi verið tilviljanakenndar. Hann hafi auk þess leitað eftir aðstoð yfirvalda í Rúmeníu en sú viðleitni kallað yfir hann enn meira harðræði en áður. Krafan um hæli af mannúðarástæðum var m.a. byggð á því að hann og eiginkona hans hafi meira og minna verið á flótta í 13 ár, og oft á tíðum verið viðskila við börn sín um árabil. Fjölskyldan hafi aðlagast íslensku samfélagi vel og njóti bestu meðmæla, börnin hafi t.a.m. náð frábærum árangri í grunnskóla. Vísaði lögmaðurinn einnig til álits sálfræðings um að það hefði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir andlega heilsu fjölskyldunnar, sérstaklega barnanna, ef fjölskyldunni yrði sundrað einu sinni enn.

Á þetta féllst dómsmálaráðuneytið ekki og staðfesti úrskurð Útlendingastofnunar.