"Íslendingar eiga ekki að óttast að ræða jafnframt nýja vídd við gæslu eigin öryggis, þótt hún krefjist meira og annars konar framlags af þeirra hálfu en felst í störfum lögreglu og landhelgisgæslu, segir dómsmálaráðherra m.a. í grein sinni. Hér má sj
"Íslendingar eiga ekki að óttast að ræða jafnframt nýja vídd við gæslu eigin öryggis, þótt hún krefjist meira og annars konar framlags af þeirra hálfu en felst í störfum lögreglu og landhelgisgæslu, segir dómsmálaráðherra m.a. í grein sinni. Hér má sj
Bandaríkjamenn hafa viðurkennt, að ekki sé unnt að komast að niðurstöðu í viðræðum við Íslendinga um varnarmál á tæknilegum forsendum. Nauðsynlegt sé að líta jafnframt til pólitískra þátta. Tvennt er þessu til staðfestingar: bréf George W.

Bandaríkjamenn hafa viðurkennt, að ekki sé unnt að komast að niðurstöðu í viðræðum við Íslendinga um varnarmál á tæknilegum forsendum. Nauðsynlegt sé að líta jafnframt til pólitískra þátta. Tvennt er þessu til staðfestingar: bréf George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og símtal Davíðs við Condoleezzu Rice, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, síðastliðinn laugardag.

Þegar litið er yfir þróun mála í samskiptum íslenskra og bandarískra stjórnvalda undanfarna mánuði, má greina tvo meginþræði. Annars vegar viðleitni Bandaríkjastjórnar til að fá íslenska viðmælendur sína til að fallast á einhliða bandaríska ákvörðun um varnarviðbúnað í Keflavíkurstöðinni. Hins vegar viðleitni ríkisstjórnar Íslands til að fá bandaríska viðmælendur sína til að samþykkja, að enga ákvörðun um varnarviðbúnað á Keflavíkurflugvelli sé unnt að taka án samþykkis Íslendinga.

Með bréfi Bandaríkjaforseta og símtali aðalráðgjafa hans um öryggismál hafa Bandaríkjamenn enn á ný staðfest, að fullt samráð skuli haft við Íslendinga. Fengist hefur mikilvæg fullvissa um, að fyrri tilkynningar um einhliða ákvarðanir Bandaríkjamanna séu ekki í samræmi við varnarsamninginn.

Davíð Oddsson hefur fylgt því fast fram, að tækifæri gefist til að ræða framtíð varnarsamstarfsins, án þess að yfir viðmælendum hvíli einhliða tímasetningar eða tæknilegar ákvarðanir Bandaríkjamanna. Það markmið forsætisráðherra hefur náðst.

Eðlilegt samhengi

Í ljósi varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna í meira en hálfa öld felst í því eðlilegt samhengi, að Bandaríkjastjórn gangi fram á þann veg, sem nú hefur verið ákveðið.

Á tímum kalda stríðsins lögðu Bandaríkjamenn jafnan áherslu á nauðsyn þess, að í Keflavíkurstöðinni og á Íslandi væri hinn besti viðbúnaður til að tryggja öflugar varnir á Íslandi og Norður-Atlantshafi. Íslensk stjórnvöld samþykktu þessar óskir Bandaríkjamanna. Olli það oft harðvítugum pólitískum deilum á alþingi og utan þess.

Undir lok kalda stríðsins var einna harðast deilt hér á heimavelli um endurnýjun á ratsjárkerfi varnarliðsins. Gekk hún eftir. Einnig hefði komið til árekstra, ef Bandaríkjamenn og NATO hefðu lagt kapp á að leggja nýjan stóran flugvöll á norð-austurhorni landsins. Nokkur þrýstingur var vegna nýs flugvallar en aldrei urðu bein pólitísk átök vegna hans. Ef Bandaríkjamenn hefðu óskað eftir því, að hér yrðu kjarnorkuvopn, er ólíklegt, að ríkisstjórn Íslands hefði treyst sér til að samþykkja það.

Í ljósi þess, að ákvörðun um aukinn viðbúnað í Keflavíkurstöðinni var jafnan tvíhliða mál og Íslendingar brugðu ekki fæti fyrir slík áform, væri það ekki í eðlilegu samhengi, ef Bandaríkjamenn teldu sér fært að ganga þannig fram við samdrátt í stöðinni, að ákvarðanir þeirra færu þvert á óskir Íslendinga.

Hættumatið

Þegar kalda stríðið stóð hæst á Norður-Atlantshafi og augljóst var, að Sovétstjórnin vildi ná þar undirtökum, voru herstöðvaandstæðingar með það á vörunum, að ástæðulaust væri fyrir Íslendinga að óttast sovéska herinn. Þá spurðu þeir gjarnan: Hvaða hætta steðjar að Íslandi? Þeir svöruðu síðan: Hættan stafar af bandaríska hernum á Íslandi, hann gerir landið að skotmarki!

Nú ganga sporgöngumenn herstöðvaandstæðinga fram og segja, að ekki þurfi að gera neitt til að tryggja öryggi Íslands, því að ekki sé unnt að benda á neinn óvin.

Þegar hlustað er á þetta tal, vakna spurningar um, hvort þetta fólk geri ekki neinar ráðstafanir til að tryggja öryggi sitt og sinna. Hvort það hugi til dæmis ekki að því, sé það fjarri heimili sínu, að semja við öryggisfyrirtæki um að gæta þess, af því að það viti ekki, hver kunni að brjótast þar inn. Það trúi því ekki, að brotist sé inn á einkaheimili manna, af því að ekki sé unnt að sjá það á strætum og torgum, hver sé innbrotsþjófur.

Ný vídd

Vilji Íslendingar gera raunhæfar ráðstafanir í samvinnu við aðra til að tryggja öryggi sitt með hervaldi, er ekki unnt að velja sér öflugri viðsemjanda en Bandaríkjamenn innan ramma NATO-samstarfsins. Barnaskapur er að ætla, að nokkuð geti komið í stað slíks samstarfs.

Eindreginn vilji er hjá ríkisstjórnum Bandaríkjanna og Íslands til að halda varnarsamstarfinu áfram, enda sé inntak þess viðunandi fyrir báða.

Íslendingar eiga ekki að óttast að ræða jafnframt nýja vídd við gæslu eigin öryggis, þótt hún krefjist meira og annars konar framlags af þeirra hálfu en felst í störfum lögreglu og landhelgisgæslu.

Eftir Björn Bjarnason

Höfundur er dóms- og kirkjumálaráðherra.