Í GREIN sem bandarískir vísindamenn skrifa í nýjasta hefti vísindatímaritsins Science um rannsóknir, sem þeir hafa gert á erfðaefni hvala í því skyni að álykta út frá því um stofnstærð hvalategunda í Norður-Atlantshafi fyrir tíma skipulagðra hvalveiða,...

Í GREIN sem bandarískir vísindamenn skrifa í nýjasta hefti vísindatímaritsins Science um rannsóknir, sem þeir hafa gert á erfðaefni hvala í því skyni að álykta út frá því um stofnstærð hvalategunda í Norður-Atlantshafi fyrir tíma skipulagðra hvalveiða, er komizt að þeirri niðurstöðu að margt bendi til að stofnarnir hafi verið miklu stærri en áður hefur verið áætlað. Aðrir vísindamenn, þar á meðal hjá Hafrannsóknastofnun Íslands, hafa dregið þessar niðurstöður í efa.

Höfundar greinarinnar eru Stephen R. Palumbi við Stanford-háskóla í Kaliforníu og Joe Roman við Harvard-háskóla í Boston. Rannsókn þeirra hefur vakið athygli ekki sízt vegna þess að ef takast myndi að færa sönnur á það að stofnstærð hvala í N-Atlantshafi hafi verið mun meiri en hingað til hefur verið reiknað með kynni það að framlengja til muna gildistíma hvalveiðibanns Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta helgast af því að forsenda fyrir því að aflétta veiðibanninu frá 1986 sé að stofnstærðin nálgist upprunalega stofnstærð, nánar tiltekið að hún verði a.m.k. 54% af þeirri stærð sem stofninn getur fræðilega náð í hafinu.

Palumbi og Roman byggja ályktanir sínar á því að samkvæmt rannsóknum þeirra á DNA-erfðaefnissýnum sé erfðafræðilegur fjölbreytileiki viðkomandi hvalategunda það mikill að það gefi tilefni til að álykta að stofnstærðin hafi á sínum tíma verið meiri en áður hafi verið ætlað.

Væri sögulegt stofnstærðarmat þeirra Palumbis og Romans lagt til grundvallar ákvörðunum Alþjóðahvalveiðiráðsins myndi það að sögn Palumbis þýða að bannið við veiðum á langreyði og hnúfubak, svo að dæmi séu nefnd, lengdist um á að gizka 30 til 100 ár til viðbótar.

Núverandi stofnstærðarmat gerir ráð fyrir að í N-Atlantshafi séu um 10.000 hnúfubakar, 56.000 langreyðar og 149.000 hrefnur. Í Science-grein tvímenninganna er getum leitt að því að stofnstærð þessara hvalategunda áður en veiðar voru hafnar í stórum stíl á 19. öld hefði verið alls um 240.000 hnúfubakar, 360.000 langreyðar og 265.000 hrefnur. Þessar tölur eru í engu samræmi við það sögulega stofnstærðarmat sem almennt hefur verið viðurkennt hingað til, en samkvæmt því voru fyrir tíma hvalveiða um 20.000 hnúfubakar í N-Atlantshafi, 30.000-50.000 langreyðar og í kring um 100.000 hrefnur.

AP hefur eftir Jóhanni Sigurjónssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, að það væri hreinlega ekki mögulegt að svo margir hvalir hefðu lifað í N-Atlantshafi fyrir tíma hvalveiða. Jóhann bendir m.a. á, að Palumbi og Roman geri ráð fyrir að viðkoma og kynþroskaaldur hvala haldist stöðugur yfir margar kynslóðir. Þetta sé rangt; í raun séu á þessu miklar sveiflur sem hefðu áhrif á erfðaefnisbreytileikann.

Þorvaldur Gunnlaugsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, nefnir einnig að rannsóknir hefðu sýnt að dæmi væru um kynblöndun milli hvalategunda, svo sem milli langreyðar og steypireyðar eða milli mismundandi stofna hrefnu.

Washington. AP.