HÁTT fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu heldur aftur af búferlaflutningum af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Þetta er mat hagfræðinganna dr. Gylfa Zoega og Mörtu G.

HÁTT fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu heldur aftur af búferlaflutningum af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Þetta er mat hagfræðinganna dr. Gylfa Zoega og Mörtu G. Skúladóttur, en þau birta grein í nýjasta hefti Fjármálatíðinda sem ber heitið Maður er manns gaman. Þar er komist að þeirri meginniðurstöðu að mismunandi atvinnutekjur eftir landsvæðum á Íslandi séu ekki ráðandi þáttur um búferlaflutninga heldur sé það nálægðin við stóra þéttbýliskjarna sem valdi því að fólk kjósi fremur að búa á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Hins vegar sé munur á fasteignaverði á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis mikill og sá munur heldur aftur af þeirri þróun að fólk flytjist af landsbyggðinni.

Aðdráttarafl þéttbýlisins helsti drifkraftur búferlaflutninga

Í grein Gylfa og Mörtu er gerð atlaga að því að greina velferðarstig á mismunandi svæðum á Íslandi. Í greiningu þeirra er stuðst við þá skilgreiningu að velferð sé samsett úr tveimur þáttum, annars vegar lífskjörum, sem snúa mjög að efnahagslegri afkomu, og hins vegar lífsgæðum, sem snúa að öðrum þáttum sem ekki er hægt að meta til fjár en hafa engu að síður mikil áhrif á hamingju fólks og velferð.

"Einstaklingar hafa margvíslegan hag af því að setjast að í þéttbýli. Hið sama á reyndar við um fyrirtækin. Í þéttbýli er fjölbreytileiki starfa meiri, þar er þjónusta betri og því auðveldara fyrir vel menntað ungt fólk að fá störf við sitt hæfi. Aukið vægi þjónustugreina og betri menntun þjóðarinnar hefur því orðið til þess að fólk flyst úr dreifbýli í þéttbýli," segir Gylfi. "Tölfræðilegar niðurstöður greinarinnar benda til þess að aðdráttarafl þéttbýlisins sé helsti drifkraftur búferlaflutninga hérlendis. Mismunur meðaltekna og atvinnuástands á milli landshluta getur þannig ekki útskýrt mynstur búferlaflutninga. Hið sama má segja um kvótaeign og kvótamissi. Það sem helst tefur fyrir búferlaflutningum í þéttbýlið er hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Þannig má segja að bygging nýrra hverfa á suðvesturhorninu gæti raskað byggð annars staðar á landinu. Þeirri tilgátu er slegið fram hvort fyrirhugaðar framkvæmdir á Austurlandi muni fyrst og fremst draga úr þessum búferlaflutningum með því að valda samdrætti í bygginariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Að lokum benda tölfræðilegar niðurstöður greinarinnar til þess að önnur lífsgæði en þau sem rekja má til þéttbýlis séu mikil úti á landi. Þannig virðast þess konar gæði vera mest á Austurlandi, ekki á suðvesturhorninu."

Í skýrslunni segir að hagfræðikenningar um búsetu geri almennt ráð fyrir því að þegar fólk velji sér stað til búsetu liggi margvíslegar ástæður að baki. Talið er að ástæða þess að sum svæði verði hálaunasvæði, en önnur láglaunasvæði, sé sú að borga þurfi fólki almennt hærri laun til þess að setjast að á svæðum þar sem almenn lífsgæði séu slæm. Þannig sættir fólk sig við lægri laun ef það telur að annars konar lífsgæði vegi þyngra en betri efnahagsleg lífskjör.

Í niðurstöðum Gylfa og Mörtu kemur einnig fram að svo virðist sem mikil kvótaeign hafi engin jákvæð áhrif á búsetuþróun viðkomandi byggðarlags.

Fasteignaverð er mjög mikilvægur þáttur í byggðaþróun í landinu en þó sérstaklega þegar um er að ræða fólksflutninga af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Ef höfuðborgarsvæðinu var sleppt í þessum útreikningum kom í ljós að fasteignaverð hefur ekki áhrif á fólksflutninga milli annarra landssvæða. Höfundar segjast hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sem "helst viðhald[i] byggð í landinu sé hlutfallslega hátt verð fasteigna á þéttbýlisstöðum."

Af þessu eru svo dregnar þær ályktanir að hugsanlega sé skipulagning nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu mesta ógnunin við byggðastefnu stjórnvalda og eins er á það bent að samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar megi draga þá ályktun að stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi muni frekar hafa þau áhrif að hægja á byggingu nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu heldur en að skapa hátekjustörf í strjálbýli. "Framkvæmdir á Austurlandi munu valda samdrætti annars staðar á landinu m.a vegna, gengisáhrifa en raungengishækkun mun skemma fyrir útflutningsgreinunum. Þá munu laun iðnaðarmanna hækka alls staðar á landinu svo framkvæmdir annars staðar en á Austfjörðum eru líklegar til að dragast saman. Í þriðja lagi er líklegt að Seðlabankinn hækki vexti til að draga úr þensluáhrifum. Líklegt er að þetta muni draga úr framkvæmdum annars staðar á landinu," segir Gylfi.