TILLAGA þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar -græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um að viðskiptaráðherra, fulltrúi Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknari verði kallaðir tafarlaust á fund nefndarinnar, "í því skyni...

TILLAGA þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar -græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um að viðskiptaráðherra, fulltrúi Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknari verði kallaðir tafarlaust á fund nefndarinnar, "í því skyni að fá frá þeim milliliðalaust" upplýsingar um stöðu samkeppnislaganna, hugmyndir um nauðsynlegar breytingar á þeim og hvort rétt sé að lögfesta samvinnu lögreglu og samkeppnisyfirvalda vegna rannsókna þeirra síðarnefndu, var felld á jöfnu, með fjórum atkvæðum gegn fjórum, á fundi nefndarinnar í gærmorgun. Áður höfðu þingmenn Samfylkingar og VG fallist á að ekki væri ástæða til að kalla fulltrúa olíufélaganna á fund nefndarinnar. Því var ekki farið fram á það í tillögu þeirra.

Á fundinum í gær var hins vegar samþykkt tillaga Gunnars I. Birgissonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að nefndin skyldi halda fund í ágúst með fulltrúum viðskiptaráðuneytisins um samkeppnislög og stöðu Samkeppnisstofnunar. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum, þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, en þingmenn Samfylkingarinnar og VG sátu hjá.

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið eftir fundinn í gær, að hann hefði ekki getað fallist á að halda fund í nefndinni "tafarlaust" eins og þingmenn Samfylkingar og VG hefðu farið fram á. Hann sagði að erfitt yrði að kalla til nefndarmenn á fund vegna fría en auk þess sæi hann engan ástæðu til þess að flýta fundinum. Það breytti engu hvort fundurinn yrði haldinn tafarlaust eða eftir tvær til þrjá vikur þegar fleiri fundarmenn gætu mætt.

Tali málið út af borðinu

Fulltrúar Samfylkingar og VG í nefndinni eru Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, sem og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Lúðvík Bergvinsson sagði í samtali við Morgunblaðið eftir fundinn í gær, að hann væri afar ósáttur við að tillaga þeirra skyldi felld. "Við erum að tala um að fá strax fram upplýsingar í málinu svo Alþingi geti brugðist við," útskýrir Lúðvík. "Stjórnin virðist vilja tala þetta mál út af borðinu á einhverjum snakkfundi einhvern tímann með haustinu."

Lúðvík vísar einnig í bókun samfylkingarmanna og vinstri grænna á fundinum í gær, eftir að tillaga þeirra hafði verið felld, en í bókuninni segir m.a. að ef þær upplýsingar sem fram hefðu komið í fjölmiðlum reyndust réttar væri ljóst að samráð olíufélaganna hefði kostað borgara þessa lands milljarða króna. Þá segir í bókuninni að það veki furðu að lögregluyfirvöld skuli ekki hafa farið að þeirri lagaskyldu sinni að taka mál til rannsóknar "en lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða gruns um að refsivert brot hafi farið fram hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Ríkissaksóknari getur gefið fyrirmæli í þeim efnum skv. 2. tl. 66. gr laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991". Því er bætt við að það megi "aldrei verða svo í okkar landi að ekki gildi sömu reglur um alla".

Rætt um samkeppnislögin

Fulltrúar Samfylkingar og VG lögðu einnig fram tillögu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær þess efnis að nefndin telji nauðsynlegt að veittir verði viðbótarfjármunir til Samkeppnisstofnunar á fjáraukalögum ársins 2003 svo "hraða megi rannsókn stofnunarinnar á meintu verðsamráði olíufélaganna", eins og segir í tillögunni. Þessi tillaga var einnig felld á jöfnu með fjórum atkvæðum gegn fjórum. Pétur H. Blöndal segir að tillagan hafi verið felld vegna þess að fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni telji að það sé hlutverk fjárlaganefndar þingsins að taka ákvarðanir í málum sem þessum. Það sé síðan Alþingis að taka endanlega ákvörðun í þessum efnum.

Spurður um efni næsta fundar efnahags- og viðskiptanefndar segir Pétur að á þeim fundi eigi að ræða um samkeppnislögin almennt sem og reynsluna af þeim. T.d. eigi að ræða hvort hægt sé að gera lagabreytingar til að koma í veg fyrir að rannsóknir dragist það mikið á langinn að sakamálið fyrnist. "Það er slæmt bæði fyrir sakborninga og ákæruvaldið ef rannsóknir dragast svo á langinn að sakamálið fyrnist. Því þarf að skoða vel hvort hægt sé með lagabreytingum að fækka stigum í rannsókn eða flýta rannsóknum á annan hátt."

Pétur tekur þó fram að á næsta fundi sé ekki ætlunin að fjalla sérstaklega um það mál sem fram kom í frumskýrslu Samkeppnisstofnunar um olíufélögin.