Vigdís Finnbogadóttir setti menningarhátíðina í Þrándheimi í gær.
Vigdís Finnbogadóttir setti menningarhátíðina í Þrándheimi í gær.
Þrándheimi. Morgunblaðið. VIGDÍS Finnbogadóttir setti kirkju- og menningarhátíðina Ólafsdaga í Þrándheimi í gær en þeir eru nú haldnir í 41. sinn á 850 ára afmæli Niðarósbiskupsdæmis.
Þrándheimi. Morgunblaðið.

VIGDÍS Finnbogadóttir setti kirkju- og menningarhátíðina Ólafsdaga í Þrándheimi í gær en þeir eru nú haldnir í 41. sinn á 850 ára afmæli Niðarósbiskupsdæmis. Vigdís sagði mikilvægt á þessum tímamótum að minnast sögulegra tengsla Noregs og Íslands og styrkja þau í samtíðinni.

Vigdís sagði í samtali við Morgunblaðið að sér þætti Íslendingar ekki vera nægilega meðvitandi um hvað það væru gríðarlega mikil tengsl á milli Íslands og Niðaróss. "Við hugsum ekki um Þrándheim sem stað sem væri gaman að heimsækja en ég myndi vilja koma því á framfæri við Íslendinga hvað það er gaman að koma hingað í pílagrímsferð. Hér er saga okkar við hvert fótmál, hér er landslagið sem íslenskir menn sáu þegar þeir sigldu á fund við Noregskonunga, hér er sögusvið bæði Íslendingasagna og Heimskringlu, hér í Nið þreyttu Kjartan og Ólafur Tryggvason sundið."

Í ræðu sinni fjallaði Vigdís um Snorra og verk hans. Hún sagði að ástæða þess að Snorri samdi Heimskringlu væri sú að hann ólst upp í Odda þar sem Jón Loftsson var, eiginmaður Þóru Magnúsardóttur berfætta Noregskonungs. Þó að Þóra hafi verið látin þegar Snorri kom í Odda þá var Jón stoltur af tengslum sínum við Noregskonunga og sagði endalausar sögur af þeim. Hefði Snorri ekki alist upp við þessar sögur hefði hann ekki skrifað Heimskringlu, sagði Vigdís.

Schola Cantorum söng undir stjórn Harðar Áskelssonar á setningartónleikum hátíðarinnar og í gærkvöld söng Tómas Tómasson bassi annað af aðalhlutverkunum í frumsýningu á nýrri norskri óperu eftir Henning Sommerro tónskáld og Edvard Hoem rithöfund er nefnist Eysteinn í Niðarósi. Óperan fjallar um átök konungsvalds og kirkju á tólftu öld í Noregi þar sem Eysteinn Erlendsson erkibiskup í Niðarósi og Sverrir konungur eru í aðalhlutverkum en sýningin er sett upp á hinu raunverulega sögusviði, í borgargarðinum og í dómkirkjunni í Niðarósi sem vígð var árið 1153 af Eysteini erkibiskupi.

Tómas sagði það vera stórkostlega tilfinningu að fá að taka þátt í uppfærslunni sem væri sérstök fyrir þessar sakir: "Það er óvenjulegt að ópera sé sett upp á raunverulegum sögustað, ég hef aldrei tekið þátt í slíkri sýningu. Og það er líka ákaflega áhugavert að syngja hlutverk sem tengist íslenskri sögu svo náið. Mér þykir þetta vera hugmynd sem Íslendingar ættu að gefa góðan gaum, það má finna ógrynni dramatískra söguefna í óperur í bókum íslenskra sagnaritara frá miðöldum."

Ólafsdagar standa til 2. ágúst en Íslendingar eru áberandi í fjölbreyttri dagskránni að þessu sinni eins og aðrar vestnorrænar þjóðir sem áttu biskupssetur sitt í Niðarósi til forna.

Á mánudaginn verður og dagskrá helguð Sálmum á atómöld eftir Matthías Johannessen en hann mun einnig flytja ljóðið Í Niðarósi þar sem hann kallast á við Einar Skúlason sem flutti drápuna Geisla um Ólaf helga Noregskonung við vígslu dómkirkjunnar í Niðarósi árið 1153.