Kristjana Stefánsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristjana Stefánsdóttir, Agnar Már Magnússon og Helga Björg Ágústsdóttir fluttu lög eftir Tómas R. Einarsson. Þriðjudagskvöld kl. 20.30.

TÓNLEIKAR Kristjönu Stefánsdóttur og Agnars Más Magnússonar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á þriðjudagskvöld voru svo vel sóttir, að ekki komust allir að sem vildu, og lagði hópur fólks á sig að sitja á gólfinu framan við sætin, eða standa aftast í salnum til að missa ekki af. Þótt salurinn sé ekki stór segir það talsvert um vinsældir þessara ágætu listamanna, og man gagnrýnandi varla eftir annarri eins aðsókn á tónleikum í Sigurjónssafni. Á efnisskránni voru einungis lög eftir Tómas R. Einarsson, ballöður, dansar, söngvar og lög í suðrænum stíl. Útsetningar voru allar eftir Agnar Má, og með dúóinu í nokkrum laganna lék Helga Björg Ágústsdóttir sellóleikari.

Tónleikarnir hófust á tveimur lögum af Íslandsplötu Tómasar, Landsýn, ballöðunum Journey to Iceland við texta eftir Auden og Vorregni í Njarðvíkum við texta Guðbergs Bergssonar. Þessi tvö fyrstu lög voru feiknarvel flutt, söngur Kristjönu dásamlega hreinn og mjúkur og leikur Agnars Más fallega stílfærður með myrkum "debussýskum" hljómum sem fóru ljóðunum afar vel. Leikur Helgu Bjargar í því fyrra var líka bragðmikill. Þarna fóru saman góð lög, góðar útsetningar og frábær flutningur. Næsta lagatvenna olli þó talsverðum vonbrigðum eftir frábært upphaf. Lagið Jobim, af plötunni Á góðum degi, og Títómas af nýjustu plötu Tómasar, Kúbönsku - bæði í suðrænum stíl - vantaði músíkalskt líf. Útsetningin á Jobim var þung, og sama var að segja um Títómas, þar sem lagið var kaffært í ofhlöðnum píanóstílnum. Söngur Kristjönu í þessum lögum var líka of þvingaður og haminn - tæknilega fínn, en vantaði þann neista sem gerir góðan söng frábæran. Hjartalag, af plötunni Undir fjórum - nú komið með nýjan texta eftir Tómas sjálfan - var hins vegar í ætt við upphafslögin tvö, fallegt, "mátulega" útsett og firnavel flutt. Í S.S. Montclare, af Landsýn, við texta Halldórs Laxness kvað við nýjan tón og léttari, og þar sýndi Kristjana sína bestu takta í rytmíkinni. Það var sagt um Nat King Cole að í söngstíl hans væri "tæmingin" fullkomin, og átt við það hvenær hann nákvæmlega renndi sér inn í taktslagið. Kristjana hefur einmitt þetta í sér, að vera flink í að "tæma" fallega.

Land, þjóð og tunga, lag Tómasar við ljóð Snorra Hjartarsonar, er einstaklega fallegt, og myndi sóma sér meðal okkar vinsælustu og bestu einsöngslaga ef fleiri söngvarar tækju eftir því. Hér var það flutt af smekklegu látleysi sem fór því afskaplega vel. Tónleikunum lauk á smellinum Ef það sé djass, sem var hreint frábær í flutningi þeirra og bráðlifandi.

Eftir mikil fagnaðarlæti tók tríóið tvö aukalög, eitt besta lag Tómasar, Stolin stef, og Hjartalag í annað sinn.

Í heild voru þetta ánægjulegir tónleikar. Þó voru það vonbrigði að ekki skyldi takast betur til með lögin góðu Jobim og Títómas. Það sem upp úr stendur er hve góður lagasmiður Tómas R. Einarsson er og jafnljóst að miklu fleiri mættu taka þau upp á sína arma og gera þeim eins góð skil og Kristjana, Agnar Már og Helga Björg gerðu hér.

Bergþóra Jónsdóttir