Jón Viktor Gunnarsson
Jón Viktor Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
18.-26. júlí 2003.

MÖGULEIKAR þeirra Jóns Viktors Gunnarssonar (2.411) á stórmeistaraáfanga og Sigurbjörns Björnssonar (2.302) á AM-áfanga minnkuðu nokkuð í sjöundu umferð á opna tékkneska meistaramótinu. Jón Viktor tapaði sinni fyrstu skák á mótinu fyrir stórmeistaranum Leonid Totsky (2.505). Segja má að þetta tap hafi komið á versta tíma fyrir Jón Viktor og nú verður hann líklega að ná 1½ vinningi úr síðustu tveimur umferðunum til að ná sínum fyrsta stórmeistaraáfanga.

Sigurbjörn Björnsson (2.302) tapaði fyrir alþjóðlega meistaranum Roman Chytilek (2.406). Þetta var annað tap Sigurbjörns í röð. Þrátt fyrir það eygir hann þó veika von um AM-áfanga.

Þau Bragi Þorfinnsson, Lenka Ptacnikova og Sigurður Páll Steindórsson sigruðu í sínum skákum í sjöundu umferð. Staða Íslendinganna í A-riðli á mótinu er þessi eftir sjö umferðir:

43. Jón Viktor Gunnarsson 4½ v.

135. Stefán Kristjánsson 4 v.

156. Sigurbjörn Björnsson 3½ v.

193. Ingvar Jóhannesson 3½ v.

196. Bragi Þorfinnsson 3½ v.

214. Dagur Arngrímsson 3 v.

247. Lenka Ptacnikova 3 v.

286. Sigurður P. Steindórsson 2½ v.

289. Guðmundur Kjartansson 2½ v.

309. Jón Árni Halldórsson 2 v.

Keppendur í A-riðli eru 350. Í B-riðli tefla sex Íslendingar og er staða þeirra þessi:

167. Kjartan Maack 4 v.

222. Haraldur Baldursson 3½ v.

245. Einar K. Einarsson 3½ v.

269. Guðni S. Pétursson 3½ v.

320. Ólafur Kjartansson 3 v.

405. Kjartan Guðmundsson 2 v.

Kjartan Maack var sá eini sem náði að sigra í sjöundu umferð. Keppendur í B-riðli eru 456. Arnar Sigurðsson teflir í C-riðli. Hann vann sigur í sjöundu umferð og hefur fengið 2½ vinning.

Jón Viktor mætti ísraelska stórmeistaranum Evgeny Postny (2.499) í fjórðu umferð.

Hvítt: Postny.

Svart: Jón Viktor Gunnarsson.

Benköbragð

1.d4 Rf6 2.c4 c5 3.d5 b5 4.Rd2 bxc4 5.e4 c3 6.bxc3 d6 7.c4 g6 8.Bb2 Bg7 9.Rgf3 0-0 10.Bd3 Rbd7

11.0-0 e5

Skákin fylgir þekktum slóðum, þótt þessi staða hafi ekki komið upp fyrr. Jón Viktor leikur riddaranum til d7 óvenju snemma.

12.Re1 --

Hvítur getur ekki drepið í framhjáhlaupi, 12.dxe6, með hugmyndinni 12.-- fxe6 13.e5, vegna þess að biskupinn á b2 er óvaldaður, eftir 13.-- Rg4. Þessi hugmynd var reynd í skákinni Shevtsjenko-Rohonjan, 2001, þar sem hvítur lék 11.Dc2, í stað 11.0-0.

12.-- Rh5 13.g3 De8 14.Be2 Rhf6 15.Rg2 Rb6 16.Hb1 Bd7 17.Bc3 Dc8 18.Dc2 Da6 19.Re3 --

Hvítur kemur í veg fyrir að svartur geti leikið Bc8-f5, þegar hann leikur e4-e5.

19...Hab8 20.f4 exf4 21.gxf4 Hfe8 22.Bf3 Bh3 23.Hfe1 Rfd7 24.Bxg7 Kxg7 25.Kf2 Rf6 26.Hb3 Dc8 27.Db2 Dd8

28.e5? --

Hvítur missir af skemmtilegum leik, 28.Kg3, sem hefði valdið svarti miklum vandræðum, t.d. 28...Bc8 29.e5 Rg8 (29.-- dxe5 30.fxe5 Rfd7 31.e6+ Rf6 32.Re4 fxe6 33.Rg4 Hf8 (33.-- Rbd7 34.Rexf6 Rxf6 35.Hxb8) 34.Rgxf6 Hxf6 35.dxe6 Dd4 36.Rxf6 Dxf6 37.Dxf6+ Kxf6 38.Bd5) 30.exd6+ Df6 31.Re4 Dxb2 32.Hxb2 Rh6 33.Kf2 Rf5 34.Rxf5+ Bxf5 35.Rxc5 Rxc4 36.Hxb8 Hxb8 37.d7 Rb6 38.He7 Kf8 39.d6 Rc4 40.Bc6 Rxd6 41.He1 og svartur er í klemmu, sem erfitt er að losa sig úr.

28...Rh5! 29.Rg2 --

Ekki 29.Bxh5 Dh4+ 30.Ke2 Dxh5+ o.s.frv.

29...Bxg2 30.exd6+ Kh6! 31.Hxe8 --

Eftir 31.Bxh5 Hxe1 32.Kxe1 Dh4+ 33.Hg3 (33.Kd1 Dxh5+ 34.Kc1 He8) 33...Dxh2 34.Hxg2 Dxg2 35.Bf3 Dg3+ 36.Kd1 Dxf4 á svartur unnið tafl.

31...Dh4+! 32.Kxg2 Rxf4+ 33.Kf1 Hxe8 34.Re4 --

Eða 34.Dc1 Dxh2 35.Re4 Hxe4 36.Bxe4 De2+ 37.Kg1 Dxe4 38.Df1 g5! og svartur á vinningsstöðu, t.d. 39.d7 Rxd7 40.Hb7 Re5 41.Hb3 Rg4 42.Hh3+ Kg7 43.Hh2 De3+ 44.Kh1 Dg3 45.Hd2 Rh3 46.Hg2 -9.56/11 Rgf2+ 47.Hxf2 Rxf2+ 48.Dxf2 Dxf2 o.s.frv.

34...Rxc4 35.d7 --

Eftir 35.Dc1 Re5 36.Rf2 g5! 37.Dxc5 Red3! 38.Rxd3 Dh3+ 39.Kf2 Dxh2+ 40.Kf1 Dh3+ 41.Kf2 g4! hrynja varnir hvíts: 42.Rxf4 (42.Re5 Hxe5 43.Be4 Dh2+ 44.Ke3 f5; 42.Re1 g3+ 43.Kg1 Hxe1+ mát; 42.Be4 Hxe4 43.Rxf4 Hxf4+ 44.Ke2 Dg2+ 45.Kd3 Hg3+ 46.Kc4 Dxa2 47.Da3 De2+ 48.Kc5 Dc2+ 49.Kb4 a5+ 50.Ka4 Dc4+) 42...g3+ 43.Kg1 He1+ mát.

35...Hxe4 36.Bxe4 Rxb2 og hvítur gafst upp, því að liðsyfirburðir svarts segja fljótt til sín.

Politiken Cup

Þrír íslenskir skákmenn tefla á Politiken Cup sem fram fer í Kaupmannahöfn dagana 14.-25. júlí. Það eru Sverrir Norðfjörð (2.057), Hafsteinn Ágústsson (1.929) og Atli Freyr Kristjánsson (1.560). Hafsteinn sigraði í tíundu umferð, Sverrir gerði jafntefli, en Atli Freyr tapaði sinni skák. Eftir 10 umferðir hefur Hafsteinn fengið 5½ vinning. Sverrir er með 4½ vinning og Atli Freyr 3 vinninga. Ein umferð er eftir á mótinu.

Indverski stórmeistarinn Krishna Sasikiran (2.654) er efstur á mótinu með 8½ vinning. Hann er með hálfs vinnings forskot á þá Konstantin Sakaev (2.655) og Artur Jussupow (2.583).

Einn efnilegasti skákmaður sem fram hefur komið á Norðurlöndum, hinn 12 ára gamli Magnus Carlsen (2.385) frá Noregi, getur tryggt sér alþjóðlegan meistaratitil með jafntefli í lokaumferðinni. Alls taka 257 skákmenn þátt og þar af hafa 5 þeirra meira en 2.600 skákstig.

Íslandsmót kvenna 2003 A-flokkur hefst 24. ágúst

Íslandsmót kvenna 2003 A-flokkur mun fara fram dagana 24. ágúst-4. sept. samhliða

keppni í landsliðsflokki. Fyrirhugað er að tefla í Hafnarfirði. Tefld verður tvöföld umferð. Tímamörk í skákunum verða þau sömu og í landsliðsflokki. Fjöldi umferða ræðst af því hversu góð þátttakan verður.

Verðlaun:

1. verðlaun kr. 40.000

2. verðlaun kr. 20.000

3. verðlaun kr. 10.000

Þátttaka tilkynnist á skrifstofu S.Í. í síma 5689141 eða með tölvupósti: siks@simnet.is fyrir 20. ágúst n.k.

Daði Örn Jónsson Bragi Kristjánsson