NÝ samþykkt um takmörkun búfjárhalds og bann við lausagöngu búfjár í Reykjavík tók gildi 11. júlí síðastliðinn.

NÝ samþykkt um takmörkun búfjárhalds og bann við lausagöngu búfjár í Reykjavík tók gildi 11. júlí síðastliðinn. Markmið borgarstjórnar Reykjavíkur með samþykktinni er að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Reykjavík með ákvæðum um vörsluskyldu og ábyrgð umráðamanna búfjárins.

Samkvæmt samþykktinni er búfjárhald óheimilt í Reykjavík nema þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir því í skipulagi.

Að sögn Guðmundar Friðrikssonar, hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, tengist þessi samþykkt ekki sérstaklega því deilumáli sem kom upp í fyrra milli skógræktarinnar á Mógilsá og bónda á Kjalarnesi. "Þessi samþykkt hefur verið í smíðum í nokkurn tíma. Það þurfti að ganga frá nýrri samþykkt vegna sameiningar Reykjavíkur og Kjalarness auk þess sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vildu koma upp hinum svonefnda "Græna trefli". Því þurfti að banna lausagöngu búfjár. Önnur sveitarfélög, þar á meðal Kópavogur, hafa riðið vaðið og sett lausagöngubann og fylgir Reykjavík nú á eftir. Samþykktin skýrir þó einnig þær deilur vegna þess að samkvæmt henni er vörsluskylda á öllu búfé allt árið og búfjárhald er að öllu leyti á ábyrgð umráðamanns búfjárins. Það er þá skilyrðislaus krafa um að umráðamaður ábyrgist að búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis og gangi ekki laust utan þess. Þess vegna ættu ekki að koma upp deilumál eins og við Mógilsá í fyrra. Við erum líka búin að girða austan við Kistufellið upp í fjall svo féð komist ekki vestur eftir."