Auður Vilhelmsdóttir fæddist á Skíðastöðum í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði 28. ágúst 1928. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hinn 14. júlí síðastliðinn. Foreldrar Auðar voru bændurnir Margrét Ingibjörg Jóhannsdóttir, f. í Skagafirði 22. febrúar 1903, d. 18. ágúst 1980, og Vilhelm Jóhann Jóhannsson, f. í Skagafirði 22. júlí 1902, d. 8. desember 1980. Þau bjuggu lengst af í Laugardal í Lýtingsstaðahreppi. Auður var elst fjögurra systkina, eftirlifandi eru: Eiður Reynir, Sigrún Edda og Guðrún Hólmfríður Ásta. Eiginmaður Auðar var Jónas Hróbjartsson, f. á Hellulandi í Skagafirði 23. ágúst 1923, d. 20. mars 1983. Foreldrar hans voru Skagfirðingarnir Vilhelmína Helgadóttir, f. 4. október 1894, d. 3. október 1986, og Hróbjartur Jónasson, f. 5. maí 1893, d. 3. apríl 1979. Á árunum 1956-1964 bjuggu Auður og Jónas á Hamri í Hegranesi en eftir það á Sauðárkróki. Þau eignuðust þrjú börn sem eru: 1) Hróbjartur rafeindavirki á Sauðárkróki, f. 10. febrúar 1958, 2) Ingi Vilhelm lektor við Háskólann í Skövde í Svíþjóð, f. 27. mars 1966, kvæntur Carinu Birgittu Törnblom búfræðikandidat, f. 2. júní 1959 og eiga þau tvær dætur, sem eru: Rakel Conradina, f. 19. apríl 1991, og Auður Veronica, f. 28. apríl 1995, 3) Ingibjörg Elín grunnskólakennari í Borgarnesi, f. 26. október 1969, gift Jens Andrési Jónssyni vélstjóra, f. 2. október 1967 og eiga þau þrjú börn, sem eru: María Dröfn, f. 15. desember 1990, Ægir Jónas, f. 1. júlí 1997, og Knútur, f. 18. maí 1999.

Veturinn 1954-1955 var Auður við nám í Húsmæðraskólanum á Löngumýri í Skagafirði. Starfsvettvangur Auðar var heimili hennar, landbúnaðar- og saumastörf.

Útför Auðar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku amma, við viljum þakka þér allar samverustundirnar. Bernska okkar verður alltaf tengd heimsóknunum til Íslands og þegar þú komst til okkar í Svíþjóð. Það var líka alltaf jafnspennnadi að skoða í pakkana frá þér, sem voru svo fullir af Íslandi. Í þeim voru kleinur, harðfiskur, ullarsokkar, súkkulaði og lopapeysur. Þetta var allt saman gott og nytsamlegt, en fremst setjum við þann hug sem lá að baki. Þó svo að langir vegir skildu okkur oft á tíðum að, fundum við þá umhyggju sem þú barst í brjósti til okkar. Við vöxum uppúr því sem þú prjónaðir á okkur, en minningin um þig mun fylgja okkur í gegnum lífið.

Rakel og Veronica.

Elsku amma.

Við heimsóttum þig stutta stund 17. sl. Að sjálfsögðu fengum við vel að borða, því þú passaðir alltaf að enginn færi svangur frá þér. Eftir matinn fórum við í gilið þitt, sulluðum í ánni og þú kenndir okkur að gera festi úr fíflaleggjum. Þetta fannst okkur merkileg iðja, sérstaklega þegar þú sagðir okkar að mamma þín hefði kennt þér þetta þegar þú varst lítil stúlka. Svona varstu, alltaf að kenna okkur eitthvað sem var nýtt fyrir okkur en gamalt fyrir þér. Svo kom að kveðjustundinni. Ekki grunaði okkur að hún væri sú síðasta.

Núna ertu engill hjá guði og við söknum þín sárt. Við þökkum fyrir allar stundirnar með þér. Þú hafðir alltaf nægan tíma þegar við vorum annars vegar og varst viljug að koma til að vera hjá okkur þegar mikið var að gera hjá mömmu.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Hvíl í friði,

María Dröfn, Ægir

Jónas og Knútur.

Gengin er á góðra vina fund,

göfug mær með æði stóra lund.

Auðar margir sakna sárt,

samt er ferðalagið klárt.

Allra bíður örlaganna stund.

Auður fæddist 28.8. 1928 að Skíðastöðum í Lýtingsstaðahreppi. Frumburður foreldra sinna, hjónanna Vilhelms og Margrétar, sem byrjuðu sinn búskap á Skíðastöðum. Síðar voru þau kennd við Laugardal en þar áttu þau lengst heimili. Auður var góðum gáfum gædd og lundin ákveðin. Hún gekk hefðbundinn menntaveg síns tíma, kvennaskólanám að loknu barnaskólanámi.

Auður var mikill náttúruunnandi, hjálpfús hvar sem þess var þörf og mikill og einlægur dýravinur. Þann 24. nóv. 1956 giftist hún Jónasi Hróbjartssyni frá Hamri, en þar bjuggu systkinin á Hamri félagsbúi og þar átti Auður sitt fyrsta heimili sem gift húsmóðir. Þau Jónas unnu bæði við félagsbúið til ársins 1964 en þá flytja þau búferlum til Sauðárkróks, kaupa neðstu hæðina í Borgarey af Margeiri Valberg. Jónas vann samt áfram að búskapnum þar til hann hóf störf hjá Sauðárkróksbæ árið 1970 og árið 1974 tók Jónas að sér verkstjórn á vegum Sauðárkróks. Einbýlishúsið þeirra að Háuhlíð 5 var fokhelt 1980, inn í það fluttu þau snemma árs 1983, en þá voru börnin orðin þrjú, öll fædd á sjúkrahúsi Sauðárkróks og þar lést Jónas á því sama ári. Húsið hefur alla tíð síðan verið heimili Auðar ásamt eldri syninum Hróbjarti. Yngri systkinin eru fyrir löngu flogin úr hreiðrinu og búin að stofna sitt eigið, söknuður þeirra og litlu ömmubarnanna er nú mikill og sár. Auður var góð húsmóðir, dugleg að sauma og prjóna, hún vann um tíma á prjónastofunni Vöku. Hún var listhneigð, sótti námskeið eldri borgara í myndlist og málun. Postulínsmálun gerði hún mjög góð skil. Útivinnu í garðinum sínum sinnti hún með prýði og hafði mikla ánægju af. Á kvöldin greip hún svo til útsaums eða prjónanna. Sjónvarpsgláp lét Auður aldrei trufla sig og hjá RÚV hlustaði hún bara á gömlu Gufuna. ...

Minningin lifir, enginn fær allt skilið, við Edda söknum með afkomendum Auðar og systkinum, gengna mannkostakonu, blessuð sé minning hennar.

Pálmi Jónsson.