Vladimir Mileris teiknaði við heimkomuna þessa mynd af því þegar sjö skipverjum af Heklunni var bjargað af kanadísku skipi eftir tíu daga hrakninga.
Vladimir Mileris teiknaði við heimkomuna þessa mynd af því þegar sjö skipverjum af Heklunni var bjargað af kanadísku skipi eftir tíu daga hrakninga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjóla Steinsdóttir og rússneskur eiginmaður hennar, Vladimir Mileris, sonur læknis við keisarahirðina, áttu ævintýraríkt líf. Í Afríkuríkinu Sierra Leone, þar sem þau urðu skipreika, kom Elín Pálmadóttir á bar og veitingahús, sem þau komu upp eftir stríð og afkomendur þeirra reka. Fjólu sjálfa fann hún í Bústaðahverfinu í Reykjavík.

ÞAÐ er yndislegt að sitja í 32 stiga hita undir miðbaugssól úti á veröndinni á veitingahúsinu Alex's meðan beðið er eftir matnum, "Icelandic baked fish, Mamas Secret Recipe", plokkfiskinum sem enn er þar á matseðlinum síðan ung, íslensk kona með fjögur börn, Fjóla Steinsdóttir, og maður hennar, Vladimir Mileris, lentu þarna upp úr seinni heimsstyrjöldinni, keyptu þetta nú dýrmæta land í Freetown í Sierra Leone, komu sér með mikilli þrautseigju upp þessu veitingahúsi með sportklúbbnum í útbyggingu. Einnig barnum Cape Club sem blasir við svolítið innar við víkina í húsi sem þau byggðu og höfðu heimili á efri hæðinni. Tveir synir þeirra, Oleg og Alexander, báðir fæddir á Íslandi, tóku seinna við rekstrinum og eftir lát Alexanders fyrir tveimur árum kona hans Nadía og börn þeirra.

Ég hafði rétt fyrir brottförina til þessa Afríkulands frétt af þessum veitingastöðum, sem reknir væru af íslenskættuðu fólki og þar með að ættmóðurina, Fjólu Steinsdóttur, gæti verið að finna á Íslandi. Í okkar ættfróða landi veldur það ekki vandræðum. Ættfræðiþjónustan ORG var ekki lengi að finna fyrir mig í ættarskrám konuna Fjólu, 13 systkini hennar fædd í A-Húnavatnssýslu og Borgarfirðinum, eiginmanninn Vladimir fæddan í Rússlandi og synina Oleg Ninni Mileris og Alexander Mileris, fædda í Reykjavík 1942 og 1943, öll með íslensk nafnnúmer. En hvar skyldi Fjóla sjálf vera? Af systkinum Fjólu reyndust aðeins tvö á lífi og bróðirinn kominn á spítala. En með nafnið Mileris hafðist í símaskránni upp á stúlku að nafni Ana María Mileris í Hafnarfirði. Það reyndist vera sonardóttir Fjólu, eini afkomandinn sem býr nú hér á landi. "Jú, jú, hún er amma mín og býr í Skálagerði 5," var svarið og fylgdi símanúmer.

Fjóla og Vladimir maður hennar höfðu sem sagt flutt til Íslands 1993, þegar heilsu hans var farið að hraka og óeirðirnar voru að byrja í Sierra Leone. Og hér lést Vladimir 1999. Smám saman fékk ég svo að heyra alla söguna hjá Fjólu og afkomendum hennar í Freetown. Hvernig Vladimir lenti á Íslandi og þau síðan eftir skipbrot í Sierra Leone.

Synti í land í Reykjavík

Vladimir fæddist í Kiev í Rússlandi 1916, en faðir hans Alexander Majefski var læknir hjá keisarahirðinni í Leningrad. Faðir hans hefur eflaust verið drepinn í byltingunni 1918, því þá hvarf hann. En Klara Naemi móðir hans flúði með drenginn til Litháen, þar sem hún átti ættingja og þar tóku þau upp ættarnafn hennar Knopf-Muller, sem síðar varð á litháísku að Mileris, sem mun tákna sonur Millers. Þarna ólst Vladimir upp og 15-16 ára gamall fór hann til sjós. Í byrjun heimsstyrjaldarinnar var hann á þýsku flutningaskipi, sem var tekið og flutt til hafnar í Reykjavík. Á því var þýsk áhöfn og líklega hafa Bretar ætlað með þá í stríðsfangabúðir, því fara átti með skipið. En þá tók Vladimir til sinna ráða og synti í land. Hann hafði náð sambandi við annan Litháa, sem var hér í Háskólanum. Og af því hann var með litháískt vegabréf fékk hann landvistarleyfi. Hér var hann á sjónum og fór svo í Stýrimannaskólann. Útskrifaðist þaðan.

Eftir að sonurinn var farinn flutti móðir hans, Klara Naemi, til Þýskalands, en ætt hennar Muller var þaðan komin. Þar átti hún bróður. Hún var apótekari, sérhæfð í jurtalækningum.

En Vladimir var ekki hólpinn þótt hann væri sestur að á Íslandi. Hann var á flutningaskipinu Heklunni, sem var á leið frá Reykjavík vestur um haf til að sækja matvörur, þegar þýskur kafbátur sökkti skipinu með tundurskeyti suður í Atlantshafi. Skeytið tætti sundur kjölinn að framanverðu og alla leið aftur í vélarrúm, svo það stakkst í hafið og sökk á tveimur mínútum. Þrettán menn fórust en sjö tókst að halda sér uppi á sundi og ná í björgunarfleka af skipinu. Vladimir var einn af þeim. Vistir voru á flekanum, sem var eins gott því á honum voru þeir á reki í tíu og hálfan sólarhring. Höfðu einn desilítra af vatni á dag og áttu aðeins eftir tveggja daga vistir þegar kanadískt herskip kom auga á ljósmerki frá þeim 10. júlí. Einn mannanna var þá svo hrakinn að hann dó nokkrum dögum síðar. Skipið fór með þá til Nýfundnalands, þar sem Vladimir var á sjúkrahúsi í St. John's í 10 daga.

Í Reykjavík hafði Vladimir kynnst 17 ára gamalli íslenskri stúlku, Fjólu Steinsdóttur. Þau giftu sig og áttu von á sínu fyrsta barni þegar þetta gerðist. Ekkert fréttist af Vladimir. Hekla hafði farist og þegar loks komu fréttir að sjö hefði verið bjargað fylgdu engin nöfn. Heima beið Fjóla. Oleg sonur þeirra, sem fæddist 1. ágúst 1942, sagði í spjalli á barnum sínum í Freetown að þegar hann kom í heiminn hefðu engar fréttir verið af afdrifum föður hans, sem sá ekki drenginn fyrr en hann var orðinn nokkurra vikna gamall.

Skipreika á Afríkuströnd

Á Íslandi fæddist þeim Fjólu og Vladimir annar drengur, Alexander, í desember 1943. En í stríðslok lögðu þau land undir fót, héldu til Englands, þar sem þau voru í eitt ár og þar fæddist þriðji sonurinn, Georg, sem nú býr í Namibíu. En Vladimir hafði hug á að komast til Ástralíu, eins og hann hafði dreymt um frá því hann heima fór á sjóinn. Þar voru talin eftirsótt tækifæri. Og Fjóla var til í að fylgja honum hvert sem var. "Ég var svo ung og Vladimir var svo ákveðinn og frekur að hann réð öllu," segir Fjóla. En þar var hængur á. Í stríðslokin gengu breskir þegnar fyrir um far til Ástralíu og eftirspurnin var svo mikil að útséð var um að þau kæmust þangað sem farþegar. Vladimir sem hafði skipstjórnarréttindi sló sig þá saman við tvo aðra, Bill Moon og Bill Bellfield, um að kaupa skip. Hinir ætluðu til Suður-Afríku, svo ákveðið var að þau færu þá þangað a.m.k. fyrst. Þeir keyptu 75 tonna seglskip, Deerhound, sem hafði verið þekktur kappsiglari undir nafninu Cambria. Bresku blöðin skrifuðu um þetta og á bryggjunni var mannsöfnuður til að kveðja þegar þau lögðu upp.

Þeir sigldu af stað með fjölskyldur sínar. Þau með drengina sína þrjá. Þegar komið var á móts við Gambíu á vesturströnd Afríku fór tóg frá seglunum í skrúfuna og skipið tók að leka. Áfram var samt haldið með því að dæla og siglt áfram suður með Afríkuströnd. Út af Sierra Leone var lekinn orðinn svo mikill að útséð var um að það kæmist lengra. Á þeim tíma voru engar hafnir á allri Gíneuströndinni og því ekki um annað að ræða en að hleypa skipinu upp á sandfjöruna. Þarna voru þau þá orðin skipreika.

Leiðir skildi. Félagarnir fengu sér annað far áfram. En Vladimir og Fjólu leist svo vel á þetta fallega, ljúfa land að þau vildu setjast þar að. Þar reyndist þó hængur á. Þetta var þá bresk nýlenda og litháískt vegabréfið ekki tekið fullgilt, enda Litháen þá undir yfirráðum Rússa. Í heilt ár bjuggu þau í skipsflakinu. Vladimir gat selt úr því ballestina og ýmislegt fleira. Hann leitaði til bandaríska sendiráðsins, að þreifa fyrir sér um að komast þá vestur um haf. Þá leystist málið. Þau reyndust vera íslenskir ríkisborgarar með rétt á íslenskum vegabréfum og þau skilríki dugðu til að setjast að í Sierra Leone. Þar fæddist þeim fjórði sonurinn Henry, sem lést 24 ára gamall er hann varð fyrir raflosti við að gera við rafmótor.

Í fyrstu vann Vladimir í Sierra Leone við fisk, var m.a. með hákarlaskip. Á þessum slóðum gekk hann alltaf undir nafninu Kapteinninn, enda hafði hann þá verið sjómaður á vöruflutningaskipi frá Litháen, á íslenskum fiskiskipum, skipstjóri á skútu frá Englandi og hákarlaskipi í Sierra Leone.

Veitingahús á ströndinni

Þegar þau Fjóla voru sest þarna að til frambúðar keyptu þau svo heilmikið land á ströndinni austur af höfuðborginni Freetown, þar sem þá var lítil byggð, og byrjuðu að ryðja skóg þar upp af til að byggja veitingahús. Þarna unnu þau bæði hörðum höndum, byggðu sitt veitingahús og síðan í framhaldi annað hús, þar sem þau opnuðu bar. Stofnuðu líka til svonefnds Sportklúbbs. Komu sér smám saman vel fyrir í eigin húsi. En það var strembið. Þau voru óskaplega dugleg, unnu myrkranna á milli og bjuggu í húsinu við hliðina, segir Oleg sonur þeirra. Landið var ekki mjög þróað fyrst þegar þau komu en ferðamennska fór vaxandi á þessari yndislegu strönd, mörg ferðamannahótel byggð. Var ferðaiðnaðurinn í miklum blóma þegar komið var fram undir 1980 og veitingastaðir þeirra gengu vel. Klúbburinn þeirra mun hafa verið sá fyrsti sem bauð þarna jafnvelkomna svarta gesti sem hvíta, sem var allt annað en sjálfsagt í breskri nýlendu. Ennþá er í nýrri vandaðri bók um Vestur-Afríku fyrir ferðafólk, þar sem að vísu er sagt að Sierra Leone sé ekki ennþá land fyrir almenna ferðamenn eftir 11 ára stríð, meðal örfárra veitingastaða mælt með Alex's restaurant og barnum Cape Club, sem vinsælum stöðum á hæfilegu verði. Sjálfri þótti mér notalegt að geta labbað þangað, um 100 m niður hæðina frá Mammy Yoko hótelinu, sem byggt var um 1980 og þar sem nú eru aðalstöðvar Friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna. Einkum hentugt á páskunum þegar allir voru í burtu. Langt labbar maður ekki í 42 stiga hita, en þeim mun yndislegra að sitja undir sólhlíf með drykk við sjóinn og horfa á smábátana vagga, skip sigla fyrir víkina, konur að berja þvottinn sinn á klöppunum og stráka að busla í sjónum eða ganga um ströndina með þungar ávaxtakörfur á höfðinu til að afla skildinga.

Eftir heimkomuna og skrif um Freetown hafa gefið sig fram við mig flugmenn sem spurðu hvort Fjóla væri þar enn. Á tímabili flaug Cargolux þarna suður um með áhafnahvíld í Freetown. Þá komu íslensku flugmennirnir gjarnan við hjá henni Fjólu, sagði mér Agnar Kvaran.

Einnig komu nokkrum sinnum ættingjar hennar í heimsókn. Tengdadóttirin Nadia sem nú rekur veitingastaðinn eftir að maður hennar Alexander dó, sagði mér að þau hjónin hefðu búið á Íslandi í nokkur ár með börnum sínum. Skúli Steinsson, bróðir Fjólu sem kom í heimsókn, taldi Alexander á að koma og vinna hjá fyrirtæki sínu Sólningu í Kópavogi. Nadía er líbönsk og hafði verið send frá Freetown í heimavistarskóla í Bretlandi. Í fríi heima í Freetown hitti hún Alexander Mileris og giftist honum. Meðan þau voru á Íslandi vann hún sem hárgreiðslukona á Hótel Loftleiðum. Þau bjuggu í Hafnarfirði og svo í Kópavogi, þar sem börnin tvö gengu í skóla. Nadía neitar því ekki að sér hafi fundist kalt á Íslandi og hún hafi haft heimþrá til hlýrri og ljúfari landa, svo þau fluttu aftur til Sierra Leone. En áður höfðu þau búið í Bretlandi, þar sem bæði börnin hennar eru fædd.

Nadía segist eiga Íslandi líf sitt að þakka. Þar greindist hún með krabbamein í brjósti og fékk frábæra umönnun og lækningu. Og allt frítt, segir hún þakklát. Hún hefði örugglega dáið ef hún hefði verið í Sierra Leone, segir hún, þar sem heilbrigðismál eru í mesta ólestri.

Vladimir sonur þeirra Alexanders hafði komið heim frá Englandi ásamt spænskri konu sinni Pilar þegar faðir hans féll frá til reka með henni Alex's-veitingahúsið. Hann segir að þau systkinin hafi verið mjög ánægð í skólunum á Íslandi og minnist sérstaklega þeirrar elskulegu góðu kennslukonu Sigurlaugar í Hafnarfirði. Í heimsókn hingað leitaði hann uppi bæði skólahúsin og heimilin þar sem þau bjuggu. Hann var nú aftur á förum frá Sierra Leone til að setjast til frambúðar að í Barcelona þar sem tengdaforeldrar hans eru, en systir hans Angelika Tanía var í staðinn komin heim með breskum manni sínum Keith Davis til að taka við af honum. Þau hitti ég öll í Alex's-veitingahúsinu.

Fjóla og Vladimir til Íslands

Upp úr 1990 hrakaði heilsu Vladimirs, sem var orðinn hálfáttræður. Uppreisnarástand var byrjað í landinu þótt það væri mest úti á landi og næði ekki enn til þeirra. Í Sierra Leone eru engar almannatryggingar. Þau Fjóla ákváðu því að fara og setjast að þar sem væri betri læknishjálp. Vladimir vildi að þau settust að á Kanaríeyjum, þar sem þau höfðu ávaxtað sitt sparifé og áttu litla sumarleyfisíbúð í Las Palmas, sem Fjóla á raunar enn. Menn festu ógjarnan fé sitt í óörygginu í Sierra Leone. En Fjóla segir að sig hafi langað til Íslands, heimþráin hafi aukist með aldrinum. Og það varð úr. 1993 fluttu þau Vladimir Knopf-Mileris og Fjóla Steinsdóttir til Íslands og keyptu sér íbúð í Bústaðahverfinu. Vladimir dó af kransæðastíflu vorið 1999 og hvílir hér í kirkjugarðinum.

Fjóla býr ein í íbúðinni í Skálagerði og segist vera mjög ánægð með að vera á Íslandi, þó að það geti verið dálítið einmanalegt stundum, þar sem fjölskylda hennar er dreifð um önnur lönd. Þegar Alexander sonur hennar dó fyrir tveimur árum í Sierra Leone fór hún þangað í jarðarförina og hitti fjölskylduna og Oleg elsta son sinn, sem þar býr með rússneskri sambýliskonu. Alexander hafði lent í sams konar rafmagnsslysi og bróðir hans Henry 30 árum fyrr, var að baksa við rafmagnsmótorinn, sem allir verða að hafa þar sem almenningsrafmagn er ótryggt, stundum ekkert. Þriðji sonur hennar Georg býr í Namibíu með danskri konur sinni Mariu Svenson, sem starfar þar á vegum danskra stjórnvalda. Hann er skilinn við tvær fyrri konur, sem líka hétu báðar María. Fyrsta konan Carmen Maria er nú gift íslenskum manni Ingþóri og býr á Kanaríeyjum. Þar býr líka sonarsonur hennar Georg David, sem lauk háskólanámi á Íslandi, en hann og Ana María í Hafnarfirði eru börn Georgs sonar hennar. Sonarsynirnir Georg og Vladimir komu báðir með sínar konur í stutt frí til Íslands nú í júní og heimsóttu ömmu sína í fyrsta sinni. Einnig sonur Önu Maríu frá Ameríku, þar sem hann býr hjá föður sínum. Það reyndist mér allflókið að átta mig á þessari dreifðu fjölskyldu þar til ég hafði hitt allflest þeirra.

Á barnum hjá Oleg

Oleg elsta son Fjólu hitti ég á barnum Cape Club úti við sjóinn. Þar er líka hægt að fá smárétti á útipalli. Þar sem Oleg átti erfitt með að fara frá barnum settumst við Sverrir Pétursson, sem starfar þarna hjá UNAMSIL friðargæsluliðinu, að við barinn þar sem voru margir fastakúnnar. M.a. hittum við þar tvo starfsmenn hins nýja Stríðsdómstóls í Sierra Leone. Oleg er sérstæður karakter, hrókur alls fagnaðar og segir skemmtilega frá. Hann kvaðst hafa talað íslensku fyrst þegar þau 1947 komu til Sierra Leone er hann var sex ára gamall. Þeir bræður áttu þarna góða æsku, voru sendir í góðan kaþólskan skóla í Freetown. Fjórtán ára gamall var hann farinn að hjálpa foreldrum sínum í veitingahúsunum og tók svo við Cape Club þegar foreldrar hans fluttu til Íslands.

Úr hátölurum glymur Bubbi Morthens, svo hátt að erfitt er að halda uppi samræðum. Oleg setti íslenska dægurmúsík á fullt þegar við komum. Hann segir að pabbi sinn hafi mörgum sinnum getað selt þessar eignir mjög vel, en hann vildi búa í haginn fyrir börnin sín og barnabörnin. Hann sá þó að vissu leyti eftir því þegar þau hjónin fluttu til Íslands. Þá voru óeirðirnar að byrja í landinu. Og þeir bræður Oleg og Alexander áttu seinna eftir að lenda illa í því eftir að allt fór í bál og brand.

Þegar óeirðirnar náðu hámarki, ribbaldar óðu uppi í borginni og unnu skelfileg hermdarverk 1997, neyddust bræðurnir Oleg og Alexander og fjölskyldur til að flýja með síðasta skipinu. Það var ekki auðvelt. Síminn virkaði ekki, ljósin farin og vatnið dræmt. Þau komust um borð í amerískt skip sem var á leið til Kanada, voru flutt um borð með þyrlu. Voru heppin, því að í sama mund voru að koma á vettvang til uppreisnarmanna 2-3 togarar fullir af hvítum og svörtum leiguhermönnum. Bretarnir beindu ljóskösturum að þeim og vörpuðu sprengjum úr þyrlum. Sökktu skipunum. Líkin flutu upp á alla ströndina, þar sem fiskimenn grófu þau. En bræðurnir og fjölskyldur þeirra komust fyrst til Conacry í nágrannalandinu Gíneu og svo þaðan til Gambíu. Fjóla segir mér að meðan þau voru flóttamenn í Gambíu hafi þau hjónin sent sonum sínum Oleg og Alexander flugmiða til að koma í heimsókn til fæðingarlands síns Íslands.

Þegar þau sneru aftur hafði öllu verið rænt í veitingahúsunum og heimilunum, en húsin stóðu uppi. Nadia segir mér að þau hafi skilið allt eftir í umsjá starfsmanns sem lengi hafði unnið hjá þeim, Nígeríumannsins Usmans, sem var eins gott því hann reyndist traustsins verður og bjargaði því sem bjargað varð. Þessi maður starfar enn á veitingahúsi Alex's. Nadía kallaði á hann svo ég gæti heilsað upp á hann. Það var heppni að bardagarnir sjálfir náðu aldrei vestur í þetta úthverfi. Bræðurnir sneru aftur eins fljótt og hægt var og lentu í skelfilegum hremmingum á leið sinni gegnum bardagasvæðin. Fjölskyldan kom svo þegar friðsamlegt var orðið.

Fyrir ófriðinn var þarna mikill ferðamannastraumur, sem auðvitað datt niður. T.d. slapp stór hópur danskra ferðamanna út viku áður en óeirðirnar náðu hámarki. Þá var farið að tala um íslenska ferðahópa, sem auðvitað varð ekkert af. Nadía segir að eftir að þau voru á Íslandi hafi Alexander maður hennar viljað hafa íslenska fánann uppi og Oleg hafði leitað eftir því að verða íslenskur ólaunaður ræðismaður í Sierra Leone, en var sagt að engin viðskipti væru milli landanna, svo þess þyrfti ekki.

Oleg segir að nú sé allt í niðurníðslu, en ströndin og útsýnið af veröndinni á veitingahúsunum sé alltaf jafnfallegt, sólskin og 30 stiga hiti. Fyrst eftir að friður komst á og fjölmennt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna var komið á staðinn voru rífandi viðskipti í veitingarekstri, sem varð til þess að nú eru að rísa fjölmörg ný veitingahús, sem veita samkeppni. Oleg segir að unga fólkið vilji ekki taka við. Sjálfur er hann barnlaus og sonur sambýliskonu hans, sem fór í langskólanám, er sestur að í Tyrklandi. Ef hann gæti selt barinn og landskika á Togaströndinni, sem hann hefur leigt út til 30 ára, þá mundi hann helst vilja flytja til Íslands. En kaupendur séu ekki á hverju strái, enda engir túristar enn.

"Það er allt annað ástand en þegar við komum og Bretarnir voru við stjórn," bætir hann við. Þegar foreldrar hans Fjóla og Vladimir settust þarna að var Sierra Leone bresk nýlenda, sem fékk frelsi 1961. Þá var stofnað þar lýðveldi.

Fjóla kveðst una sér vel á Íslandi. Ennþá á hún hér eina systur á lífi, Herdísi sem er 88 ára. Hún býr skammt frá henni og þær systur fara stundum saman út að ganga þegar veður leyfir. En óneitanlega er rólegra en það ævintýralega líf sem hún hefur átt lengst af ævinnar.

Elín Pálmadóttir