Myndir frá vinstri Nágrenni staðarins þar sem Ragnar fór í land til að klífa bjargið.Fjalirnar við Hornbjarg eru sérkennileg náttúrusmíð.Leiðangursmenn um borð í Sædísi úti fyrir Hornströndum. F.v. í aftari röð: Halldór Sveinsson, Sigurður Stefánsson skipv
Myndir frá vinstri Nágrenni staðarins þar sem Ragnar fór í land til að klífa bjargið.Fjalirnar við Hornbjarg eru sérkennileg náttúrusmíð.Leiðangursmenn um borð í Sædísi úti fyrir Hornströndum. F.v. í aftari röð: Halldór Sveinsson, Sigurður Stefánsson skipv
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tólf dögum eftir að Everest-tindur var sigraður, fyrir rúmum 50 árum, kleif Ragnar Jakobsson 400 metra þverhnípi Hornbjargs, einn og óstuddur. Sigurgeir Jónasson ljósmyndari var í hópi Vestmannaeyinga sem fóru með Ragnari að Hornbjargi og rifjuðu upp hetjuför fyrir hálfri öld.

Sir Edmund Hillary og Norgay Tenzing klifu Everest, hæsta fjall jarðar, 29. maí 1953 og þykir það enn í dag eitt mesta afrek allra fjallagarpa. Haldið var upp á það með pompi og prakt í Nepal 29. maí sl. að 50 ár voru liðin frá afrekinu. Hillary mætti þar og var gerður að heiðursborgara Nepal en Tenzing lést árið 1986.

Það vita færri að þann 12. júní sama ár og Everest var sigrað framdi Ragnar Jakobsson frá Reykjarfirði, þá 22 ára gamall, það einstaka afrek að klífa Hornbjarg þar sem það er um 400 m hátt. Enginn hefur leikið það afrek Ragnars eftir, svo við vitum, en ótal hundruð fjallgöngumanna hafa farið á Mount Everest í fótspor þeirra Tenzing og Hillary.

Bjargið ókleifa

Guðmundur Hafliði Guðjónsson, organisti í Vestmannaeyjum, bjó á Kjörvogi í Árneshreppi á Ströndum, þá 12 ára gamall, þegar þetta átti sér stað. Honum er afar minnisstætt hversu undrandi allir voru yfir þessari fífldirfsku, sem flestum fannst, enda Hornbjarg talið ókleift frá aldaöðli. Ragnar öðlaðist mikla virðingu hvar sem hann kom fyrir afrek sitt og var hann ætíð kallaður Ragnar fyglingur.

"Ég man vel hversu mikið ég leit upp til hans þá er ég barði hann fyrst augum síðar um haustið, því fjallaklifur í smalamennsku fylgdi okkur sem bjuggum við Kjörvogshlíð frá unga aldri. Það hefur oft hvarflað að mér, nú á seinni árum, að Ragnar þyrfti að segja frá þessu og benda á hvar hann kleif bjargið, áður en það yrði um seinan. Með þetta í huga hafði ég samband við hann nú á síðvetri til að heyra álit hans á málinu og inna hann eftir hvort hann væri til í að segja aftur sögu þessa," segir Guðmundur.

Ragnar er ákaflega hógvær maður og hefur ekki verið að raupa um klifur sitt í gegnum tíðina. Hann féllst á koma undir bjargið og lýsa leiðinni, sem hann fór upp ef veður yrði til þess hagstætt. Hann minntist á að fyrra bragði að nú væri alstaðar verið að fjalla um afrek þeirra Hillarys og Tenzings er þeir klifu Everest og því væri kannski allt í lagi að hann lýsti viðureign sinni við Hornbjarg.

Hinn 6. júlí sl. fór sex manna hópur af stað frá Vestmannaeyjum í leiðangur norður í Reykjarfjörð nyrðri til Ragnars til að freista þess, ef veður leyfði, að fara með honum norður undir Hornbjarg og fá hann til að rifja upp söguna og til að sýna leiðina þar sem hann fór upp bjargið. Þeir sem voru í leiðangrinum, auk Guðmundar sem áður er getið, voru Sigurgeir Jónasson ljósmyndari Morgunblaðsins, Halldór Sveinsson lögregluvarðstjóri, Börkur Grímsson útibússtjóri hjá Íslandsbanka, Páll Guðmundsson útgerðarstjóri, Guðlaugur Sigurgeirsson verkfræðingur og Daníel Guðjónsson frá Kjörvogi yfirlögregluþjónn á Akureyri, sem slóst einnig í hópinn.

Lagt var af stað frá Bakka í Landeyjum, eftir flug frá Eyjum, um kl. 14.00 og komið norður í Trékyllisvík um kvöldið. Reimar Vilmundarson, ferðafrömuður í Bolungarvík, var svo mættur í Norðurfjörð á báti sínum Sædísi að morgni mánudags til að flytja leiðangursmenn norður í Reykjarfjörð. Er ástæða til að þakka honum sérstaklega fyrir lipra og örugga þjónustu, en ekki er alstaðar auðrötuð siglingaleið á þessu svæði.

Eftir þægilega siglingu með viðkomu á Dröngum hjá þeim bræðrum Sveini og Óskari, sem þar dvelja á sumrin ásamt fjölskyldum sínum, var komið í Reykjarfjörð seinnipart dags.

Bjargmennska byrjaði snemma

Ragnar tekur á móti leiðangursmönnum og menn koma sér fyrir, hlustað er á veðurspá með öndina í hálsinum, jú það lítur sæmilega út með veður. Það er hringt í Reimar skipstjóra og hann stappar í menn stálinu. Það verður sennilega gott við bjargið á morgun. Án þess að komast að bjarginu yrði leiðangurinn lítils virði.

Á þriðjudagsmorgni rísa menn árla úr rekkju og gá til veðurs, þoka á fjallatoppum og hægviðri, spáir síðan norðanátt með kvöldinu.

Á meðan við bíðum eftir bátnum spyrjum við Ragnar út í fyrstu kynni hans af bjargmennsku.

"Ég fékk snemma að fara með bjargmönnum á vorin þegar eggjatíminn hófst. Ætli ég hafi ekki verið tíu, ellefu ára þegar ég fór fyrst í bjargið. Ég fór fyrst til að síga 1948, byrjaði þá með Arnóri á Horni og Guðfinni bróður, vönum mönnum. Það var góður skóli. Á þessum tíma var verið að hætta að síga af brún en í staðinn var farið niður á breiðar syllur og sigið þaðan niður á mjóar syllur svokallaða þræðinga, svo gengu menn lausir eftir þeim og söfnuðu eggjum."

Þá liggur beint við að spyrja hvort menn hafi einhverntíma rætt það sín á milli hvort mögulegt væri að klífa bjargið alveg frá sjó og upp á brún?

"Já, það var sérstaklega einu sinni. Þá var lítið að gera í bjarginu, gott veður og allir í góðu skapi. Þetta var á milli siga, það var að verða búið fyrra sigið. Þegar við sátum á festinni, fóru þeir að tala um það hvort ekki væri hægt að komast úr fjörunni hingað til okkar, sem vorum að síga. Sumir sögðu jú, jú, aðrir sögðu nei, það væri ekki nokkur leið. Ég hlustaði en seig svo niður á syllu sem við kölluðum Þræðing. Þar leysti ég mig úr festinni og kom gangandi til þeirra eftir breiðu syllunni, alveg þar sem þeir sátu á festinni og biðu eftir því að ég gæfi þeim merki með því að kippa í. Það var nú eiginlega byrjunin en þá var ég búinn að kanna allan efri hlutann."

-Var þetta sama ár og þú kleifst síðan bjargið?

"Þetta var árið áður, 1952, sem þetta var í umræðunni. Það var ekkert veðmál í gangi, eða svoleiðis, en þetta var samt aðdragandinn að því. En það var líka í mínum huga að hægt væri að stunda þetta [eggjatökuna] frá sjó. Fara upp og leggja svo band og fara með þetta niður í bát, þurfa ekki að bera þetta upp á brún og svo niður að bæ. Enda svo upp úr því var þessu brúnasigi hætt. Núna er þessu fírað niður í bát."

Bjargið klifið

Við leiðangursmenn á Sædísi sigldum norður með ströndinni í átt að Hornbjargi. Firðir og víkur opnast og lokast eftir því sem við siglum framhjá og vitna um sögu liðinna tíma, enn er gömlum bæjarhúsum víða haldið við og notuð til sumardvalar. Það rætist vel úr veðrinu, aðeins kul og sólin er að brjótast í gegnum skýin. Það liggur vel á Ragnari og leiðangursmenn eru í sjöunda himni. Þegar komið er norður fyrir Látravík er sjórinn sléttur eins og á heiðartjörn og Reimar skipstjóri þvær framrúðurnar á bátnum undir fossinum í Blakkabás af mikilli snilld. Við siglum síðan upp að bjarginu þar sem Ragnar kleif. Hamraveggurinn er tröllslegur og eins og segir í þjóðsögunni: "Ekki fær nema fuglinum fljúgandi."

Víkur nú sögunni að 12. júní 1953. Þá fer Ragnar ásamt Kjartani bróður sínum frá Horni í Reykjarfjörð, til að ná í vistir og skola af sér í heita vatninu. Þeir halda til baka um kvöldmatarleytið. Hvort sem Ragnar hafði velt fyrir sér lengur eða skemur að klífa bjargið hafði hann tekið með sér bretahjálminn þegar hann fór frá Horni. Ragnari segist svo frá:

"Á bakaleiðinni var þetta bara ákveðið, en ég tók með mér hjálminn svo þetta hefur verið eitthvað í hugsuninni, ef veðrið yrði þannig. Svo var þarna bara ládeyða og slétt og ekki hægt að fá það betra. Við bundum bátinn um klukkan hálftíu og gengum svo austur með bjarginu tvö til þrjú hundruð metra að svokölluðu Urðarnefi. Ég var búinn að kortleggja leiðina. Ég vissi alveg fyrirfram að það var ekki um aðra leið að ræða þarna."

En fyrsta hluta leiðarinnar, um 140 metra, hafði Ragnar ekkert kannað og trúlega enginn klifið nokkru sinni áður.

-Þú varst búinn að sannfæra sjálfan þig um það að ef þú kæmist upp í sylluna sem þú kallar Efri-Þræðing að þá kæmist þú alla leið upp?

"Já, efri hlutann var ég búin að kanna, en í þessum syllum eða þræðingum eru oft lóðréttir strengir, sem koma þvert á syllurnar og skera þær í sundur. Í þessari syllu er einn slíkur en ég hafði einu sinni farið yfir hann áður."

Kjartan settist í var undir stein í fjörunni og Ragnar lagði til uppgöngu. Ragnar hafði engan útbúnað nema bretahjálminn á höfði sem notaður var við sig í bjargið. Að öðru leyti var hann venjulega búinn, berhentur og í lágum gúmmístígvélum. Hann saknaði bjarggoggsins, sem var áhald áþekkt fiskigoggi en sterklegra, og notað í bjarginu til að ýta frá sér lausu grjóti og höggva spor. Hann hafði með sér 30 faðma línu sem hann ætlaði að nota ef hann þyrfti að snúa við. Það verður að samkomulagi á milli þeirra að þegar Ragnar veifi til Kjartans skuli hann fara á bátnum yfir að Horni.

Leiðin upp Urðarnef til að komast upp á sylluna sem kölluð er Efri-Þræðingur liggur upp klappir og snarbrattar skriður upp í um 140 metra hæð, eða sem svarar tæpum tveimur Hallgrímskirkjuturnum.

-Hvernig gekk uppgangan þennan fyrsta hluta?

"Þetta gekk nú bara betur en ég bjóst við, það skiptust á nokkuð brattar aurskriður og klappir, en það þýddi náttúrulega ekkert að renna af stað þá hefði maður húrrað alveg niður í sjó."

Þegar Ragnari tekst að komast upp á sylluna Efri-Þræðing, sem hann þekkti, veifaði hann til Kjartans bróður síns að fara af stað á bátnum yfir að Horni. Ekki þarf að taka fram að ekkert þýðir að kalla þegar menn eru komnir í þessa hæð, fuglagargið er svo mikið.

Björninn var nú hins vegar ekki alveg unnin hjá Ragnari hann átti eftir að fikra sig austur eftir syllunni um þrjú hundruð metra að svokallaðri Harðviðrisgjá. Nafnið Harðviðrisgjá er ekki sérlega blítt og vísar til þess að byljir sem skella á börmum gjárinnar kalla fram drunur eða skelli. Á þessari leið var syllan víða mjög tæp og á einum stað lokuð af svokölluðum streng eða berggangi.

"Mesta hættan var að fara yfir strenginn, það hefði ekki verið gott fyrir lofthrædda því ef þú misstir einhverntíma hand- eða fótfestu varstu farinn í fjöruna og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. En það þýddi ekkert að hætta við. Báturinn var farinn."

Á barmi hengiflugs

Strengurinn sem svo er kallaður er berggangur, einn til tveir metrar á breidd, sem veðrast hægar en bergið umhverfis. Hann stendur því eins og lóðréttur veggur út úr bjarginu og lokar syllunni og stendur út fyrir hana. Þetta þurfti Ragnar að fikra sig yfir í algjöru manndrápshengiflugi og hafði ekki á neitt að treysta nema eigin færni og styrk.

"Ég byrjaði á því að finna grastoppa sem vaxa út úr sprungum til að grípa í með höndunum og tyllti fótunum á smá stalla. En þessar hand- og fótfestur voru svo veikar að ég mátti ekki sleppa nema einni í einu. Færa fyrst annan fótinn og svo hinn, standa síðan í báða fætur og færa aðra höndina og svo koll af kolli, svona smáfikraði ég mig yfir."

Þegar Ragnar er kominn yfir strenginn er syllan breið og honum létt í skapi. Á leiðinni sem eftir er yfir að Harðviðrisgjá, eru síðan nokkrar tæpur þar sem syllan er örmjó og ekkert má út af bera, föt geta krækst í nibbur, ein vanhugsuð hreyfing og allt er búið.

Harviðrisgjáin var Ragnari vel kunnug. Þessi mikla náttúrusmíð er með nokkrum björgum eða stöllum sem þarf að klífa og það hafði hann gert áður. Frá sjó séð virðast sumar þessar torfærur ekki miklar en eru í raun lóðréttir hamraveggir og algjörlega ófærir nema vönum og fimum bjargmanni. Að sjá á ljósmynd frá efri brún gjárinnar er hún nánast þverhnípt og eins og að sleppa úr hákarlskjafti að komast þar upp á brún.

Ragnar stóð á brúninni í nærri 400 metra hæð um klukkan hálftólf og gekk síðan sem leið liggur niður að bæjunum á Horni og kemur þangað um miðnætti. Hann var nokkuð hruflaður á höndum eftir átökin við bjargið, en vel á sig kominn.

Hefði getað klifið Everest

Eftir að hafa hlýtt á frásögn Ragnars af þessu einstæða afreki hans, sem hann þó lýsir af eðlislægri hógværð, blasir það við að spyrja hann hvort það hafi haft áhrif á hann að Hillary kleif Everest um tveimur vikum áður.

"Ég veit það ekki, jú eflaust hef ég heyrt það í útvarpinu og það getur vel verið að það hafi spilað eitthvað inn í. En ég hugsa að ég hefði getað klifið Everest, ég var léttur á mér á þessum árum, en svo veit maður ekki hvort maður hefði þolað þunna loftið."

Þessir dagar með Ragnari í Reykjarfirði og förin norður undir Hornbjarg verða okkur leiðangursmönnum ógleymanleg. Ragnar er um margt athyglisverður maður og tilgangurinn með þessari grein er ekki að ausa hann óverðskulduðu lofi heldur að skrásetja þetta merka afrek hans áður en það fellur í gleymsku. Um leið er hann verðugur fulltrúi þess dugnaðar- og hagleiksfólks sem háði sína lífsbaráttu á Hornströndum.

Höfundar texta eru Börkur Grímsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum, og Guðmundur H. Guðjónsson, organisti Landakirkju.