Halldór Jón Hansen barnalæknir fæddist í Reykjavík 12. júní 1927. Hann lést á líknardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss á Landakoti 21. júlí síðastliðinn.

Foreldrar Halldórs voru Halldór Hansen læknir, f. að Miðengi á Álftanesi 25.1. 1889, d. 1975, og Ólafía Vilborg Þórðardóttir, f. að Ráðagerði á Seltjarnarnesi 1.11. 1888, d. 1961. Halldór var yngsta barn foreldra sinna. Systkini hans voru 1) Sigrún Þórunn, f. 8.7. 1911, gift Sigbirni Þórðarsyni, f. 1915; 2) Jón, f. 28.5. 1917; og 3) Rebekka (Ebba), f. 21.8. 1924, og eru þau öll látin. Jón bróðir hans átti dótturina Joan, f. 1943, sem lést 1946, en systur Halldórs voru báðar barnlausar. Uppeldissystir Halldórs var María Helgadóttir, f. í Kaupmannahöfn 10.4. 1909. Hún giftist Bjarna Jóhannessyni og eignuðust þau tvö börn, Halldór, f. 1932, sem er látinn, og Ólafíu, f. 1934, og er maður hennar Pálmi Kristinn Jóhannsson, f. 1933. Halldór var sjálfur ókvæntur og barnlaus.

Að loknu embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands hélt Halldór til New York í kandidatsnám þar sem hann sérmenntaði sig síðan í barnalækningum og barnageðlækningum. Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum 1960 starfaði hann sem héraðslæknir á Egilsstöðum í sex mánuði. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur þar sem hann starfaði á Geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og tók við yfirlæknisstöðu ungbarnaeftirlitsins þar 1. júlí 1961, en þeirri stöðu gegndi hann þar til hann hætti fyrir aldurs sakir. Halldór var um skeið formaður Félags íslenskra barnalækna og stjórnarmaður í Félagi norrænna barnalækna og var gerður heiðursfélagi í ýmsum læknasamtökum. Halldór hafði ætíð mikinn áhuga á tónlist, einkum sönglist, og átti stórt hljómplötusafn með klassískri tónlist. Hann skrifaði mikið um söng og tónlistarmál jafnt í dagblöð sem tímarit. Hann kenndi við Söngskólann í Reykjavík um langt árabil og var mikilvægur listrænn ráðgjafi Tónlistarfélagsins í Reykjavík og Íslensku óperunnar, auk þess sem íslenskir söngvarar nutu stuðnings hans ætíð í ríkum mæli og sóttu til hans hollráð.

Útför Halldórs fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku Halli minn. Nú er þinni síðustu banalegu lokið.

Þrátt fyrir þennan langa aðdraganda átti ég alveg eins von á að þú stæðir þessa hrinu af þér eins og svo oft áður. Fleiri "banalegur" en þú hefur legið held ég að fáir hafi lifað af. Þitt fyrsta krabbamein var nýrnakrabbamein, síðan tóku við ristilkrabbamein og dæminu lokaðirðu með eitlakrabbameini. Dr. Sigurður Björnsson krabbameinslæknir reyndist þér vel í öllu og á þakkir skildar.

Frá barnæsku varstu kvillasækinn og rúmliggjandi og sendur utan til hresssingar ásamt yngri systur þinni, Ebbu. Jón var næstelstur ykkar systkina, og eignaðist hann dótturina Joan 1943 í Bandaríkjunum. Hann fórst í seinna stríði þegar skipi hans var sökkt af þýskum kafbáti. Faðir þinn sótti Joan þangað fljótlega eftir stríð, en hún lést aðeins nokkrum mánuðum eftir komuna til Íslands í bílslysi.

Á heimilinu bjó Kristín Þorsteinsdóttir, "Stína", sem var stoð og stytta heimilisins áratugum saman. Þú varst í miklu uppáhaldi hjá henni, og þegar heilsu hennar hrakaði fyrir aldurs sakir annaðistu hana sem besti sonur.

Uppi á lofti var töfraheimur fyrir okkur krakkana. Stína stjórnaði því hverjum var "vogandi" að hleypa þangað upp. Okkur var leyft eftir aldri og vinsældum hjá Stínu að skoða háaloftið og "dótið" þar. Mér er persónulega minnistætt leikhúsið þitt Halli minn, allar persónur og leiktjöld lituð með "crayola" litum í réttum hutföllum og hreyfanleg.

Þú varst mikill heimilisvinur hjá okkur Stebba og "aðalsprautari" strákanna okkar. Þar sem ég var einbirni var kunnátta mín í umönnun ungbarns "aum" í byrjun. Ungbörn gráta víst en það hafði ég ekki hugsað út í. Það var því alltaf um "líf og dauða" að tefla þegar þú varst kallaður til. "Komdu strax, Halli!" Þú komst og læknaðir mig kannski meira en barnið.

Eftir "lækninguna" áttum við ótal margar ánægjustundir við eldhúsborðið.

Takk fyrir allt og allt.

Þín frænka,

Agla Marta.

Genginn er mætur maður, Halldór Hansen, frændi minn og besti vinur. Ólafía, móðir Halldórs, og Halldóra, móðuramma mín, voru systur, yngstar af Ráðagerðissystkinunum, börnum Þórðar útvegsbónda og Þórunnar húsfreyju í Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Kært var á milli systranna og því samgangur allnokkur milli heimilanna á Laufásvegi 24 og Smiðjustíg 11. Minnisstæð eru jólaboðin á Laufásvegi 24 þangað sem stór hópur frændsystkina var ávallt boðinn árlega. Glatt var á hjalla og hlökkuðum við krakkarnir alltaf mikið til þessara boða. Á gamlárskvöld kom fjölskyldan, Halldór Hansen eldri, Ólafía, Sigrún, Rebekka og Halldór yngri, á Smiðjustíginn og héldum við þar saman upp á áramótin. Á námsárum Halla á Íslandi stoppaði hann stutt við á Smiðjustígnum um áramót því skólafélagarnir hittust líka en alltaf man ég eftir því sem lítil stelpa hvað mér fannst þessi frændi minn bæði fallegur og góður.

Halldór (Halli) var einstakur maður sem hafði samkiptahæfileika sem fáum eru gefnir. Hann lét sig allt varða og hafði einlægan áhuga á lífinu og öllum þátttakendum þess. Tónlistarunnandi var hann í sérflokki og hafði ómæld og ómeðvituð áhrif á samferðafólk sitt á ýmsum aldri. Fyrir stuttu átti ég að skila til Halla frá Þorvarði syni mínum, sem búsettur er í Bandaríkjunum, að hann hefði haldið að hann væri "bólusettur" fyrir óperuáhuga en nú væri svo komið fyrir honum að hann væri ólæknandi orðinn og ætti margar óperur í pöntun. Halli hló við og hafði gaman af. Halli og faðir minn, Þorvarður R. Jónsson, voru mjög góðir vinir og áttu þar sameiginlegt áhugamál í tónlistinni. Halli fylgdist vel með framgangi hálfsystra minna, Steinunnar og Ólafar, í tónlistarnámi þeirra en báðar eru þær tónlistarmenn. Gott var að leita til Halla með margs konar fyrirspurnir um lífsins gang og ævinlega fór maður af hans fundi skilningsríkari og fróðari um lífið og tilgang þess.

Halli hélt yngsta syni mínum, sem skírður er Halldór í höfuðið á honum, undir skírn og er hann einnig kallaður Halli. Mér er minnisstætt þegar guttinn var fimm ára og spurði mig: "Mamma, heiti ég Hansen líka?" Mér er einnig minnisstætt þegar Kristín, fóstra Halla, fórnaði höndum yfir því að hann ætti að halda barni undir skírn, almáttugur, það gæti hann ekki. Við hlógum að því heima að barnalæknirinn væri ekki fær um að halda barni undir skírn en ég held að Kristín hafi verið að hugsa um hvernig skírnarkjóllinn og umgjörðin í athöfninni tæki sig út fyrst og fremst. Halli lét sér mjög annt um skyldmenni sín og þegar börnin voru lítil var hann undireins kominn til að aðstoða ef eitthvert þeirra veiktist eða eitthvað bjátaði á.

Komið var að leiðarlokum, það vissi hann og einnig við öll sem elskuðum hann. Friðsælt andlát fékk hann mánudagskvöldið 21. júlí á líknardeild LSH á Landakotsspítala þar sem honum þótti mjög gott að vera. Sagði hann mér að það væri ekki hægt að hugsa sér að vera á betri stað. Rigning hafði verið um daginn en stytt upp og kvöldsólin ljómaði þegar Halli kvaddi þennan heim. Þegar ég gekk inn á sjúkrastofuna þar sem hann lá friðsæll í rúmi sínu varð mér litið út um gluggann og ég sá kvöldsólina koparrauða umvefja turn Landakotskirkju geislum sínum. Fann ég fyrir djúpri og ólýsanlegri snertingu hins æðra.

Far þú í friði, elsku frændi minn.

Þín

Edda.

Allt er þá þrennt er. Halldór frændi minn og vinur hafði ekki "þriðju banalegu sína" af, eins og hann komst sjálfur glettnislega að orði um legu sína á líknardeild Landspítalans í Landakoti. Hann var lengi búinn að þjást af krabbameini og njóta góðrar umönnunar starfssystkina sinna úr læknastétt og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins og hafði haft sigur fram að þessu. Þegar ég heimsótti hann fyrir skömmu sýndist mér ljóst að hverju stefndi og kvöldið áður en ég frétti af andláti hans hugðist ég líta til hans áður en ég færi í stutta ferð norður í land, en því miður varð ég of seinn.

Það var einstaklega gaman að ræða við frænda minn Halldór. Þrátt fyrir veikindi sín var hann vel með á nótunum og sérstaklega minnugur á liðna tíð. Ættfræðin kom ávallt við sögu þegar við hittumst og mér fannst ég kynnast Guðríði ömmu minni Þórðardóttur í Ráðagerði dálítið í gegnum Halldór, en hún var löngu látin áður en ég fæddist. Ólafía Vilborg, móðir Halldórs, var ömmusystir mín og Ráðagerðisfólkið því oft umræðuefni okkar.

Við ræddum einnig um fleiri mál, og naut ég meðal annars af einstökum viskubrunni hans um tónlist og tónlistamenn. Á síðasta fundi okkar spurði ég hann um afstöðu hans til dauðans og hvort hann hræddist hann. Spunnust af þessu miklar umræður og Halldór sannfærði mig um að hann óttaðist ekki að deyja, en lítið fékk ég út úr honum um hvers hann vænti við þessi óhjákvæmilegu tímamót sem við öll stöndum einhvern tímann frammi fyrir.

Heimsmaðurinn Halldór Hansen er allur. Þökk sé öllum þeim er annt þótti um hann og vörðuðu lífsleið hans. Bestu þakkir til starfsfólksins á líknardeilinni í Landakoti fyrir umönnun alla og hlýlegt viðmót. Við minntumst einmitt föður Halldórs síðast þegar við hittumst, en sá heiðursmaður Halldór Hansen eldri var yfirlæknir á Landakoti á árunum 1948 til 1959.

Far í friði, kæri vinur.

Óli H. Þórðarson.

Halldór Hansen er sérstakur velgjörðarmaður Listaháskóla Íslands. Hann ánafnaði skólanum 11. desember 2001 tónlistarsafn sitt, og um leið var með hans framlagi stofnaður styrktarsjóður sem ber nafn hans. Sjóðurinn hefur það mikilvæga hlutverk að styðja við uppbyggingu tónlistarbókasafns skólans og verðlauna nemendur fyrir framúrskarandi árangur. Halldór sýndi með þessu hvaða hug hann hafði til uppbyggingar hins nýja skóla og hvernig hann taldi að jarðneskar eigur hans gætu nýst sem best fyrir æsku landsins. Tónlistarlífið í landinu og upprennandi kynslóðir menntafólks eiga eftir að njóta góðs af.

Mín fyrstu kynni af Halldóri tengdust rannsóknum mínum á tónlist Jóns Leifs. Sem unglingur kom Halldór á ferðum sínum til Vínarborgar á heimili Jóns og Anníar í Þýskalandi. Hann þekkti þau bæði hjónin af því einstaka innsæi sem eingöngu næmum unglingi er gefið. Sérstaklega heillaðist Halldór af Annie og var hann henni og Snót dóttur hennar mikil hjálparhella eftir að þær mæðgur fluttust síðar til Íslands. Frásagnir Halldórs, hvort sem var af íslensku tónlistarfólki í útlöndum eða af stórstjörnum leikhúsanna í Evrópu og vestanhafs, leiftruðu af kímni og gleði og lýstu skarpleika hans á það smágerða í fasi manna og öllum tilburðum. Með þessu sagði hann oft stærri sögu en ef hann hefði aðeins haldið sig við stærstu drætti. Fyrst og fremst andaði þó Halldór í frásagnir sínar einhverri þeirri góðvild sem fékk mann burtséð frá efninu til að sjá þetta fólk og allar kringumstæður í nýju ljósi.

Síðar kynntumst við Halldór nánar þegar Árni Tómas leiddi okkur saman til að ræða hugmyndir um hvernig ætti að koma fyrir hinu stórkostlega plötusafni Halldórs eftir hans dag. Hann sagði mér þá frá æskuárum sínum og uppvexti, fóstru sinni sem hann unni umfram alla aðra, ýmsu samferðarfólki, sýningum og hljómleikum og stórbrotnu listafólki. Umfram allt talaði hann þó um tónlistina: hvað hún er, hvað hún skapar, og hvað hún gefur. Tónlistin opnar dularheima hins innri manns og í henni fær hann útrás fyrir þær margbreytilegu kenndir sem í honum búa. Hver sá sem hlustaði á Halldór tala um tónlistina fór með hlýju í brjósti af þeim fundi. Kæri Halldór. Ég þakka þér þá vináttu sem þú hefur sýnt mér og fyrir hönd Listaháskólans þakka ég þér það traust sem þú sýnir skólanum og æsku landsins med þinni höfðinglegu gjöf. Blessuð veri þín góða minning.

Hjálmar H. Ragnarsson.

Halli frændi er allur og eflaust hvíldinni feginn. Margs er að minnast. Ungum pilti fannst Laufásvegur 24 afar spennandi og alltaf var mikið tilhlökkunarefni að heimsækja Halla frænda. Þar voru ýmis skringileg tól og tæki, sum hver augljóslega ætluð til lækninga en önnur voru mér algjörlega framandi. Þar var aldrað pálmatré í potti og postulínsköttur í hillu. Þar voru einnig staflar af plötum og rykfallnar bækur í röðum. Bækur þessar voru þegar enginn sá til teknar fram og í þeim blaðað. Flestar voru þéttskrifaðar á framandi tungumálum sem vart stautfærum snáðanum var ómögulegt að lesa. Inni á milli voru þó myndir, af kaunum slegnum sjúklingum og hinum ýmsu líffærum. Það var sannarlega enginn staður í veröldinni meira heillandi en Laufásvegurinn og þolinmæði Halla gagnvart pottorminum var algerlega óþrjótandi. Síðan liðu mörg ár og ekki sá ég hann Halla að neinu ráði.

Að loknu stúdentsprófi þegar tími var kominn til að hleypa heimdraganum fékk ég inni í norðurenda óðalsins á Laufásveginum um nokkurt skeið. Eftir að inn var flutt leið þar mánuður og annar en engir bárust mér reikningarnir nema fyrir símanum. Knúði ég loks dyra hjá Halla og spurði hvort ekki væru þar ógreiddir reikningar mér ætlaðir. Svarið var skýrt. "Þetta er stórt hús sem hvort eð er þarf að kynda og lýsa upp. Borga þú bara símreikninginn þinn og ég sé um hitt." Afar dæmigert fyrir Halla. Svo leið tíminn og ég flutti burt. Þegar komið var að lokaprófum í háskólanum fékk ég á ný inni hjá Halla en nú til próflestrar. Hvað varðar lestrarafköst þá var þetta sennilega miður góð ákvörðun þegar litið er til baka. Í stað þess að sitja yfir bókunum stakk ég mér til sunds í þeim hafsjó geisladiska sem þar var að finna. Langar samræður átti ég einnig við frænda um allt milli himins og jarðar, minnst þó um læknisfræði. Yfir kaffi í eldhúsinu á Laufásveginum flugu klukkustundirnar hjá. Einhvern veginn blessaðist þetta allt saman og náði ég prófum, margfróðari og að ég held betri maður. Fleiri ár liðu og smám saman dró af Halla frænda. Ekki dró þó úr frásagnargleðinni eða hárbeittum húmornum. Merkilegast þótti mér að allan þann tíma sem við spjölluðum um heima og geima skyldi hann aldrei hallmæla einum né neinum. Mættu aðrir taka sér það til fyrirmyndar.

Síðustu þrjú árin sá ég hann ekki nema þá sjaldan að ég var í fríi heima á Íslandi og andlátsfregnin barst mér svo til Bandaríkjanna um daginn. Ekki á ég þess kost að fylgja honum síðustu skrefin heldur læt ég mér nægja að setjast niður, setja plötu á fóninn og láta hugann reika um síðastliðin þrjátíu ár. Væri ég hér í þessum sporum hefði Halla frænda ekki notið við?

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson.

Þegar vinir kveðja hinsta sinni staldrar maður við og lítur yfir farinn veg. Leiðir okkar Halldórs lágu á stundum saman á þessum vegi.

Mín fyrsta bernskuminning um Halldór er þegar hann bjargaði lífi mínu, en ég var hætt komin og mátti ekki tæpara standa.

Halldór fann meinið og með hans hjálp og almættisins gekk ég áfram þennan veg og naut samfylgdar og kynna af honum.

Hann var af þeirri kynslóð sem ég óneitanlega leit upp til og virti, vinur foreldra minna og venslaður inn í fjölskyldu okkar.

Í hann var auðvelt að sækja mannauð og visku. Hann var djúpt hugsandi maður með gullið hjartalag, rólegur í fasi og yfirvegaður. Viðmótið var hlýtt.

Tónlistin skipaði stóran sess í lífi hans. Hann kom oft á æskuheimili mitt, leit til með okkur systkinunum eða til að njóta tónlistarinnar, en hann eins og foreldrar mínir átti mikið og merkilegt hljómplötusafn. Þá var rætt um alla þætti tónlistarinnar. Við andlát föður míns, Gunnars H. Blöndal, kom Halldór til að samhryggjast móður minni, Ingunni Guðmundsdóttur, og hafði meðferðis geisladisk sem hann færði henni í stað blóma. Tónlistina hafði hann valið sérstaklega með tónlistarsmekk föður míns í huga. Móður minni þótti sérstaklega vænt um þann hug og hlýju sem lá að baki þessari gjöf.

Halldóri varð ekki barna auðið, en hann sagði mér að öll börnin sem hann annaðist á læknisferli sínum væru börnin sín. Mér þótti mjög vænt um þau orð, því ég var eitt af þessum börnum.

Halldór var sjálfur mikið veikur á æskuárum sínum. Hann lá lengi rúmfastur, en að eigin sögn mótuðu þessi veikindi hann mjög og hafa án efa gefið honum sérstakan skilning á heimi þeirra barna er hann annaðist seinna á ævinni.

Hann sagði mér frá því nýlega að móðuramma mín, Áslaug Þórðardóttir, forstöðukona Baðhúss Reykjavíkur, hefði þá komið reglulega til sín og lesið fyrir sig og þar með stytt sér stundirnar. Þessi hlýja minning snart mig djúpt.

Allir þeir eiginleikar sem prýddu hann og gerðu hann að þeim manni, sem hann var, hverfa að vísu með honum, en hljóma volduga í sálum þeirra sem þekktu hann og munu án efa berast frá kynslóð til kynslóðar. Við stöndum eftir fátækari en fyrr að Halldóri gengnum. Söknuður og eftirsjá fyllir hjarta okkar.

Ég þakka vináttu og samfylgd við látinn vin, þakka honum allt sem hann var mér og bið Guð að blessa minningu hans og verkin hans.

Við Björg vottum ástvinum innilega samúð.

Áslaug Blöndal.

Sumt finnst manni alltaf hafa verið þarna; grasið, Keilir, lóurnar, Esjan, og svo Halli niðri á Laufásvegi. Við þurftum ekki að sjást á hverjum degi, en við vissum þó undir niðri vel hvort af öðru bardúsandi við hitt eða þetta í lífsbaráttuni. Stundum skemmtilegt, stundum miður skemmtilegt eins og mannlífið yfirleitt er. Ég vissi það af langri reynslu, að betri og traustari vin var ekki hægt að hugsa sér en Halla. Hann var klettur og alltaf til taks hvort heldur var að degi eða nóttu.

Um allt var hægt að spyrja Halla, þótt hann hafi reyndar helst af öllu viljað svara manni um aðal hugðarefni sitt, ljóðatónlistina. Eitt sinn hittumst við, ekki svo alls fyrir löngu, fyrir utan eins hversdagslegan stað og matarbúð og spurði ég hann rétt si svona út úr miðjum manninum, hvort hann myndi eftir hverjir hefðu sungið inn á plötu ljóð Mariönnu von Willemer "Til austanvindsins" og "Til vestanvindsins" sem lengi vel voru eignuð Goethe. Jú, jú, Halli gat svarað því á augabragði og ekki nóg með það, heldur stóð hann hálftíma seinna heima í stofu hjá mér og spilaði fyrir mig snældu sem hann hafði tekið upp með lögum Mendelssohns og Schuberts. Þar söng vinkona hans Elly Ameling með aðstoð Rudolf Jansen annars vegar og Dalton Baldwins hins vegar.

Það var nú eitt. Ekki voru það nú neinir smálaxar sem Halli umgekkst og þekkti. Það var alveg kapituli út af fyrir sig; Francis Poulanc, Gérard Souszay, Dalton Baldwin og Elly Ameling og margir fleiri. Lán er það að til skuli vera samtal við Halldór Hansen uppi í útvarpi þar sem hann segir frá þessum kunningjum sínum á svo látlausan hátt að það er alveg unun á að hlýða. Aldrei fjasaði hann sjálfur að fyrra bragði um þessi kynni.

Mér er minnisstætt hversu ljúft Halli umgekkst konurnar í lífi sínu.

Hina fínlegu móður sína, Stínu fóstru sína og systur sínar Ebbu og Rúnu.

Hann hlúði að Ebbu eins og viðkvæmu blómi á meðan hún lifði og hjúkraði Stínu sinni fram á háan aldur af svo mikilli nærfærni að það situr sem meitluð mynd í sálinni.

Á þessum tímamótum er margs að minnast og nokkuð handahófskennt hvað fyrst kemur upp í hugann. Jón, maðurinn minn, og Halli höfðu þekkst frá því þeir voru smápollar. Þeir gengu tveir einir saman í gegnum sinn einka barnaskóla og höfðu báðir sína listrænu drauma. Jón vildi út í tónlistina og Halli í leikmyndagerð. Annar fór sína beinu leið, hinn tók aðra stefnu og fór út í læknisfræði og sálgreiningu. Hans hlutverk varð að hlú að börnum bæði í líkamlegum og sálarlegum skilningi. En tónlistin var alla ævi hans kjölfesta. Vinátta Jóns og Halla var næstum sem samband bræðra. Hún var svo djúpstæð að ekkert þurfti um hana að tala, hún bara var þarna.

"Ætlar þú ekki að kyssa mig líka," sagði Halli blíðlega við dóttur okkar á síðasta konsertinum sem hann komst á nú í vor. Þetta eru síðustu orðin sem ég heyrði hann segja í þessu lífi. Nú kveð ég hann og við öll fjölskyldan af innilegri væntumþykju og óskum óbrigðulum vini velfarnaðar á ókunnum slóðum.

Solveig Jónsdóttir.

Alltaf kom ég ríkari af fundi Halldórs Hansen á Laufásveginum. Það var eins og hann og stóri pálminn fyrir ofan hann yrðu að viskutré sem öllu var hægt að trúa fyrir, tré sem hafði séð veður bæði válynd og blíð og ekkert gat haggað stóískri ró þess. Undir slíkum verndarvæng var létt að láta gamminn geisa um það sem manni lá á hjarta. Svör Halldórs voru ávallt hafin yfir dægurþras, full af víðsýni, fordómaleysi og hlýju.

Að loknu spjalli hófst tónlistarstundin. Halldór vissi best af öllum hvenær listin snertir titrandi streng í brjósti og innsýn opnast í öldugang sálarlífsins. Þannig opnaði hann margar undragáttir fyrir mér. Ég gleymi aldrei þegar hann spilaði fyrst fyrir mig kveðjutónleika Lotte Lehmann. Síðasta aukalagið var "Til tónlistarinnar" eftir Schubert. Í lok lagsins, þar sem segir: Þú göfga list, ég þakka þér! örmagnaðist þessi yndislega söngkona í miðri setningu og tárin streymdu þögul fram. Um leið skynjaði maður hvernig salurinn stóð á öndinni. Heil mannsævi hafði verið sögð í einu andartaki. Svipað líður mér nú við fráfall míns elskulega vinar.

Oft fylgdu sögur milli tónlistaratriða, Halldór hafði séð marga merka listamenn á sviði eða þekkti þá persónulega. Aldrei hvarflaði þó að honum að hreykja sér af kynnum sínum við þá, þeir voru frekar upp með sér af kynnum sínum við hann. Hann leyfði mér, strákpjakknum, að skottast með til að sækja fólk eins og Gérard Souzay og Elly Ameling á flugvöllinn. Þannig kom hann alltaf fram af sömu virðingu við alla, háa sem lága, en krafðist einskis í staðinn.

Þegar ég kveð minn góða vin er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst þessum djúpvitra, hógværa og góða manni. Eins og sonur minn sagði, þegar hann heyrði fráfall hans: Hann lifir áfram í okkur öllum!

Hafðu innilega þökk, elsku Halldór.

Bergþór Pálsson.