Halldór Jón Hansen barnalæknir fæddist í Reykjavík 12. júní 1927. Hann lést á líknardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss á Landakoti 21. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 31. júlí.

Svo blíð, svo næm... stór gjöful sál hefur kvatt oss. Þessa heims barn sem við hin en hið innra í engils mynd.

Mér finnst að við Halldór höfum alltaf þekkst þótt það yrði ekki fyrr en síðar á ævinni sem við kynntumst betur og urðum vinir.

Hann var tíður gestur á heimili foreldra minna, Ragnars Jónssonar og Bjargar Ellingsen, og varð virkur þátttakandi í lífi þeirra og starfi þar sem hin fagra tónlist var bæði kveikjan og tundrið. Mér er minnisstætt hvar hann kom, alltaf hógvær og stilltur í allri þekkingu sinni, færandi hendi með merkilegar plötur eða frásögn af nýrri, spennandi tónlistarupptöku með einhverjum frábærum flytjendum eða af dýrðarinnar konsertum útí hinum stóra heimi. Og andinn lyftist og sveif og hreif okkur öll með sér. Tónlistin var líf hans og yndi og á tíðum ferðum sínum erlendis átti hann kost á að kynnast merkilegri tónlist og músíkfólki víða um heiminn og var sjálfur persónulegur vinur margra slíkra.

Vissulega varð framlag Halldórs Hansen til tónlistarinnar á Íslandi frábært og ómælt, hið stórmerka, fræga safn hans af plötum og skífum, framlag hans til Tónlistarfélagsins gegnum tíðina þar sem hin alþjóðlegu tengsl hans voru ómetanleg á tíma þegar mikilvægur grunnur var lagður fyrir tónlistina hér á landi, sá grunnur sem nú má sjá slíkt dásamlegt þróttmikið líf spretta upp af.

Sjálf varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fá líka að kynnast lækninum undursamlega og vini barnanna, þegar hann tók mitt fyrsta barn, Ragnar, að sér sem skjólstæðing í slíkri umhyggju og ástúð sem mér er óhætt að segja að hafi enst ævina, þó að sjaldnast yrðum við öll stödd samtímis á einu og sama landinu. Það verður mér ógleymanlegt hvernig hann útbjó okkur unga uppburðarlitla foreldra með nýfæddan unga á leið til stórborgarinnar London, fjarri öfum, ömmum og fjölskyldu, ábyrgðin nokkuð yfirþyrmandi. Við fengum einkafyrirlestur, eiginhandarskrifaða skýrslu yfir nauðsynleg lyf og smyrsl, sumu stakk hann á okkur beint, og barnahandbókina hans dr. Spocks í nesti, spekingsins sem boðaði að börn hefðu líka sál, ekki bara hold og bein. Síðar við heimkomuna, nýtt barn hafði bæst í hópinn, aðlögun tók við heima í Reykjavík sem reyndist ekki auðveld frumburðinum og fleira, kom í ljós að þörf reyndist fyrir ráðgjöf og hjálp. Aldrei stóð á Halldóri og hve kærkomið það var að fá að koma í hornið hans á Laufásveginum og að þiggja ljúfa speki hans, maður kom alltaf út einhvers vísari. Mér finnst að Halldór hafi átt þennan sjálfgleymna kærleika sem mætir manni ekki bara sem andlegu eða líkamlegu tilfelli heldur sem manneskju sem finnur til og hefur þörf sem slík, gaf ekki bara lyfseðil og ráð, hann huggaði og styrkti eigin ákvörðun og persónu. Ég held að Halldór hafi skilið vel og elskað konur, mæðurnar, og vitað að væru þær glaðar og í góðu skikki mundi börnunum og fjölskyldunni vegna vel.

Enn síðar þegar mér sjálfri lá á reyndi ég enn betur hvern dreng og vin ég átti í Halldóri Hansen. Það komu þung ár í kjölfar skilnaðar að eigin vali, ég varð móðir sem yfirgaf heimili sitt og börn og fluttist til fjarlægs lands, settist að í stórborginni París þar sem árin liðu og urðu átta. Þá kom í ljós að Halldór var þar heimamaður og iðulega í heimsóknum þar á utanlandsferðum sínum. Hann elskaði París, fannst hún ekki bara sem annað heimili sitt heldur staður sjálfra ævintýranna. "Hér getur hið óvænta sífellt gerst," man ég hann sagði. Við hittumst oft, fórum á konserta eða í leikhús og í heimsóknir því hann þekkti marga í borginni. En dýmætastar voru göngurnar okkar um götur og garða Parísarborgar þar sem færi gafst til að spjalla um alla heima og geima. Man ég vel þegar ég hafði dvalist þar aðeins stutt og ég bar mig upp eitt sinn við hann útaf sonum mínum heima, sem þá voru 13 og 18 ára. Við það hafði hann engin þung orð né ræðu, talaði bara mildilega um söknuðinn sem ég mundi finna yfir að missa af ungdómsárum barnanna minna. Og hve satt það reyndist.

Seinna þegar við ræddum um vini og félaga og hverjir þeir eiginlega væru hafði komið í ljós að þar var ég fákunnug, skildi mig sem fjölskyldutengda, eiginkonu eða mömmu. Svar Halldórs er mér ljóslifandi, ég velti því enn fyrir mér og hugsa um hvort einhvern tíma muni ég öðlast þroska til að geta tekið undir þau orð. Ég sé hann líka fyrir mér þar í þröngu strætinu í Marais, gamla gyðingahverfinu, rólegan og æðrulausan að vanda með brosglampa í augunum: "Mér finnst ég vera í góðum félagsskap, þegar ég með þeirri persónu finnst gaman að vera ég." Ég kalla hann vin minn, en sannarlega var það hann sem var veitandinn í því sambandi. Kveð ég öðlinginn Halldór Hansen, megum við öll þjóð hans halda minningu hans á lofti og muna ávallt hvað gott hann gerði.

Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveikinn slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.

(Úr Jesaja 42.)

Ég óska Guðs friðar öllum vinum hans og fjölskyldu.

Erna María Ragnarsdóttir.

Halldór var mætur kollega, kær vinur, bekkjarbróðir og samherji. Hann var gæddur góðum gáfum, fjölhæfur og listfengur, ljúfur í umgengni og kurteis svo af bar. Hann var einn af snillingum samræðulistarinnar, sem gat sett sig í spor annarra á öllum aldri og rætt við þá á þeirra forsendum. Þessum eiginleikum Halldórs kynntumst við bekkjarsystkin hans þegar í fyrsta bekk Menntaskólans í Reykjavík. Gagnfræðadeild skólans var þá til húsa í Alþingishúsinu vegna þess að breska setuliðið hafði lagt skólabygginguna undir sig. Þegar skólinn var aftur kominn í gamla húsið við Lækjargötu og halda skyldi jólagleði og skreyta ganga og stofur var Halldór jafnan kallaður til vegna þess hversu drátthagur hann var. Hann gat nánast breytt skólahúsinu í leiksvið, enda hafði hann hug á að læra leiktjaldagerð.

Halldór var mikil málamaður og tónlistarunnandi eins og alþjóð er kunnugt. Það hefur því ekki verið einfalt fyrir hann að ákveða hvað gera skyldi að loknu stúdentsprófi með ágætiseinkunn vorið 1946, þegar 100 ár voru liðin frá því að Menntaskólinn fluttist til Reykjavíkur. Halldóri rann þó blóðið til skyldunnar og í stað þess að fara strax utan til listnáms ákvað hann að feta í fótspor föður síns og gerast læknir.

Halldór hélt að loknu kandidatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands í ársbyrjun 1954 til New York til framhaldsnáms og lagði fyrir sig barnalækningar og barnageðlækningar. Hann var fyrsti íslenski læknirinn sem aflaði sér menntunar í síðarnefndu greininni. Þegar Halldór kom aftur heim tók hann við starfi yfirlæknis við barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur af Katrínu Thoroddsen og gegndi því við mjög góðan orðstír til ársloka 1997. Í þessu starfi notfærði Halldór sér kunnáttu sína í sállækningum barna til hagsbóta fyrir reykvísk börn og foreldra þeirra, sem komu með börn sín til eftirlits á Heilsuverndarstöðina þar sem jöfnum höndum var fylgst með líkamlegum og andlegum þroska þeirra fram undir skólaskyldualdur.

Í starfi sínu sá Halldór hver þörf var á að koma á fót barnageðdeild til að veita börnum með alvarlegri geðraskanir meðferð. Hann benti á húsnæði í eigu borgarinnar, sem talið var henta og hægt væri að koma í gagnið á tiltölulega skömmum tíma. Eftir að deildin komst á laggirnar var Halldór jafnan mjög dyggur stuðningsmaður hennar og var oft leitað til hans um holl ráð og leiðbeiningar vegna mannkosta hans og kunnáttu í sállækningum. Hvort tveggja lýsti sér í svari Halldórs við spurningunni um hvert væri hlutverk læknisins í þeim. "Það er að hlusta og spyrja - og að spyrja þannig að svarið sem maður leitar að felist ekki í spurningunni sjálfri. Markmiðið er að spyrja þannig að það hjálpi sjúklingnum við að halda sig við það sem skiptir máli ..." (Lesbók Morgunblaðsins, 5. júlí 2003).

Það var mikið lán fyrir heilsuvernd barna, barnageðlækningar og geðvernd að Halldór skyldi snúa sér að læknanámi og sérnámi í þeim greinum sem að ofan getur. Halldór þróaði áfram starfið, sem mótast hafði á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, þannig að ungbörn voru skoðuð reglulega af læknum stöðvarinnar og fylgst með þroska þeirra til þess að hægt væri að leiðbeina foreldrum um uppeldi og umönnun barnanna. Á þessum tíma var komið á reglulegri skoðun allra fjögurra ára barna. Stuðlaði þetta mjög að bættu heilsufari barnanna og varð foreldrum til stuðnings. Þessi starfsemi var ekki aðeins mikilvæg fyrir heilsuvernd almennt, heldur einnig fyrir geðvernd, sérstaklega eftir að Halldór tók við stjórn starfseminnar. Vegna áhuga Halldórs á geðvernd og geðheilbrigði barna og vegna umfangsmikillar þekkingar hans varð það Geðverndarfélagi Íslands mikill styrkur að hann skyldi taka við formennsku í félaginu af öðrum hugsjónamanni, Kjartani J. Jóhannssyni héraðslækni. Halldór var formaður félagsins til 1980 og síðan meðstjórnandi þess. Í þakklætisskyni fyrir ómetanleg störf Halldórs að geðverndarmálum barna var hann gerður heiðursfélagi í Geðverndarfélagi Íslands árið 2000, þegar haldin var fimmtíu ára afmælishátíð félagsins.

Halldórs verður best minnst með því að fylgja eftir hvatningu, sem hann flutti er hann lét af formennsku í Geðverndarfélaginu, svohljóðandi: "Að mínu mati verður geðverndarstarf að beinast að börnum í ríkari mæli en verið hefur fram að þessu.

Það er afar margt í þjóðfélaginu sem grefur undan því að börn geti náð tilfinningalegri fótfestu í tilverunni á þeim tíma sem tilfinningalífið þarf til að skjóta rótum. Verði bætt úr því má vel vera að alvarlegar geðrænar truflanir á unglings- og fullorðinsárum verði sjaldgæfari en nú er.

En eins og þróunin er nú virðist stefna í þveröfuga átt - eða nánar tiltekið í þá átt að kippa rótunum undan stórum hópi barna meðan önnur hafa tæpast tækifæri til að skjóta rótum, hvað þá festa þær.

Þetta megum við ekki láta gerast, þetta verður að stoppa, því að börn eru dýrmætasta eign þessa lands og von framtíðarinnar" (Geðvernd, 16. árg. 1981).

Heiðrum minninguna um góðan mann og góðan lækni með því að fylgja eftir þessari hvatningu Halldórs.

Tómas Helgason.

Vinur minn, allt frá bernskudögum, Halldór Jón Hansen, er fallinn.

Við komum drengir í skóla Ísaks Jónssonar, Grænuborg og Ísak vísaði okkur til sætis við sama borð. Samvist okkar þar varð slitrótt því fjarvistir Halla urðu tíðar vegna veikinda. Ísak hvatti okkur borðfélaga Halla til að heimsækja félaga okkar, sem svo mikið væri bundinn við rúm sitt. Þannig hófst vinátta okkar Halla, sem entist okkur til gæfu og gleði meðan báðir lifðu.

Við urðum aftur sessunautar í Austurbæjarskóla, en enn og aftur gripu veikindi inn í skólasókn Halla. Hann hætti reglubundinni barnaskólagöngu, en fékk síðar notið á heimili sínu kennslu Bjarna Vilhjálmssonar, cand mag. síðar þjóðskjalavarðar með þeim ágætum að hann fór fram úr okkur jafnöldrum sínum í kunnáttu.

Heimili hans stóð þá og síðan ævi hans alla á Laufásvegi 24. Foreldrar Halla voru Ólafía Þórðardóttir Hansen ættuð frá Ráðagerði á Seltjarnarnesi og Halldór Hansen læknir, fæddur og uppalinn í Miðengi á Álftanesi. Bæði voru þau mikillar gerðar. Ólafía var óvenju falleg kona, sem ástúð og kærleika stafaði frá.

Halldór var óskilgetinn sonur Sigrúnar Halldórsdóttur sem dó frá honum fárra mánaða gömlum. Hann var fóstraður upp á Miðengi. Síðar var staðfest að faðir Halldórs var Björn Kristjánsson, kaupmaður í Reykjavík, alþingismaður og ráðherra. Þó það væri staðfest vildi Halldór halda Hansen-nafni sínu.

Halldór varð afreksmaður í námi og síðar einn virtasti skurðlæknir landsins. Á yngri árum stundaði hann íþróttir og var í glímusveit Íslands sem sýndi á ólympiuleikunum í Stokkhólmi 1912.

Heimili Ólafíu og Halldórs var glæsilegt. Auk Halla ólust þar upp þrjú systkini hans sem öll eru látin. Á heimilinu var einnig allt frá bernsku hans Kristín Þorsteinsdóttir sem hann kallaði gjarnan fóstru sína. Átti hún síðan heimili sitt hjá Halla til æviloka.

Eins og fram hefur komið átti Halli við mikil veikindi að stríða bernsku- og æskuárin og var löngum rúmfastur. Þá þegar kom fram áhugi hans á fögrum listum, sérstaklega tónlist og leiklist. Honum voru gefnar hljómplötur sem hann spilaði dægrin löng. Hann las einnig mikið og sviðsetti atburðalýsingar úr sögum sem hann las á leiksviði sem var sérsmíðað handa honum og allt fylgdi m.a. hljómsveitargryfja. Hann teiknaði af fágætri snilld umhverfi og persónur, sem hann gæddi meira lífi með því að klippa þær út. Hann teiknaði einnig fjölda hljóðfæraleikara í hljómsveitargryfjuna og klippti þá út þannig að stellingar þeirra voru furðu eðlilegar.

Eftir að Bjarni Vilhjálmsson hafði komið Halla á skrið í náminu var ekkert sem stöðvaði hann. Hann stóðst inntökupróf í MR 1940 með sóma ári yngri en flestir sem þar urðu bekkjarfélagar hans næstu 6 árin. Þegar kom að gagnfræðaprófi upplýstist að hann hafði aldrei tekið fullnaðarpróf úr barnaskóla, en því varð að ljúka. Halli fór létt með það jafnframt gagnfræðaprófinu. Stúdentsprófi lauk hann árið 1946 á eitt hundrað ára afmæli skólans með ágætiseinkunn. Halli fór utan með stúdentssystkinum sínum og áformaði í framhaldi af því áframhaldandi dvöl erlendis. Hann stefndi á að læra sviðsetningar og leikmyndagerð.

Mikill sorgaratburður í fjölskyldu hans átti sér stað er bróðurdóttir hans og eina barnabarn foreldra hans fórst í bílslysi fyrir utan heimili þeirra. Sá atburður olli því að Halli lét að svo komnu máli af námi erlendis. Hann kom heim í foreldrahús aftur og innritaðist í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Á námsárum sínum í læknisfræði starfaði Halli m.a. á frönskum spítölum og eignaðist í Frakklandi góða vini, sem hann bast ævilangri vináttu við. Þar kynntist hann einnig fjölda listamanna, einkum á sviði tónlistar. Hann náði á þessum árum fullkomnu valdi á franskri tungu. Fyrir hafði hann vald á dönsku, norsku og sænsku auk þýsku á við innfædda.

Hann hafði á æskuárunum dvalið í Danmörku, Þýskalandi og Austurríki til lækninga og þá náð valdi á tungumálum þessara landa. Hann lagði alla tíð mikla áherslu á að viðhalda hæfni sinni í tungumálum. Við þennan auð bættist síðar fullkomin enskukunnátta og hann taldi sig "kaffihúsafæran" á fleiri tungumálum, m.a. ítölsku og spönsku.

Eftir próf frá læknadeild Háskóla Íslands lá leiðin til New York. Þar hóf hann nám og störf í meinafræði, en ákvað síðan að sinna barnalækningum. Á því sviði starfaði hann í nokkur ár á mörgum sjúkrahúsum í New York, fyrst sem aðstoðarlæknir en síðar yfirlæknir. Hann valdi loks barnageðlækningar sem sérgrein sína og starfaði á þeim vettvangi við sjúkrahús í New York.

Eftir sex ára sérfræðinám og starf sem héraðslæknir á Austfjörðum var honum veitt yfirlæknisstaða við barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Mig skortir þekkingu til að segja frá störfum hans á þeim vettvangi, en hann lét sig mjög varða ónæmisaðgerðir barna og ungbarnavernd.

Hann sótti í þágu starfs síns barnalæknaþing vítt um heim og var oftsinnis fenginn til að vera fundarstjóri á slíkum þingum ekki hvað síst í latnesk-amerískum löndum vegna yfirburða málakunnáttu.

Læknar segja mér að Halli hafi í starfi sínu náð frábærum árangri í ungbarnavernd á Íslandi gagnvart smitsjúkdómum. Sem barnageðlæknir hjálpaði hann ósegjanlega mörgum og ávann sér þakklæti og vináttu þeirra sem hann lagði lið.

En það slógu fleiri strengir í brjósti Halla en læknislistarinnar. Hann var eins og fyrr segir unnandi fagurra lista. Hin mörgu ár hans með erlendum þjóðum nýttust honum einnig til að lúta listagyðjunni og eiga með henni hamingjustundir. Hann sótti leikhús og óperuhús og eignaðist trausta vini meðal listamanna. Hann öðlaðist yfirburða þekkingu á tónlist og sögu hennar, sem margir fengu notið í skrifum hans á þeim vettvangi. Hann studdi ungt tónlistarfólk með ráðum og dáð til náms og starfa á svið listar sinnar og komu sér þá oft vel vinatengsl hans við fremsta tónlistarfólk þeirra menningarheima sem við eigum mest samskipti við.

Hann átti eitt stærsta plötusafn í einkaeigu og ánafnaði hann það Listaháskóla Íslands ásamt flestum sínum eigum.

Að ytri gerð var Halli vörpulegur á velli, fríður sínum og í allri framkomu var hann einstaklega viðmótsgóður. Hann mátti ekkert aumt sjá. Hjálpfús var hann og umhyggjusamur um aðra, en gætti í sumu ekki sem skyldi eigin hags.

Síðustu ár hafa verið Halla mjög erfið. Illvígir sjúkdómar sóttu að honum. Þegar svo var komið efndu tónlistarmenn og fleiri vinir hans til glæsilegrar sönghátíðar honum til heiðurs. Fjöldi af okkar fremsta tónlistarfólki tók þátt í sönghátíðinni auk allmargra erlendra heimsþekktra listamanna sem komu gagngert á eigin kostnað til að leggja fram sinn skerf á sönghátíðinni. Í tengslum við þá hátíð fékk Halli þá umsögn að hann væri þekkingar- og viskubrunnur um tónlist og með óbrigðulan smekk.

Tónlistarfólk lét sér annt um hann til hinstu stundar. Þegar hann mátti sig ekki lengur hræra komu vinir hans, sungu við sjúkrabeð hans eða léku hugljúfa tónlist.

Öllu þessu góða fólki er fært einlægt þakklæti.

Einstaklega fögru mannlífi er lokið. Við Pálína kona mín og börn okkar kveðjum hjartkæran vin sem við áttum svo margar ljúfar stundir með.

Hvíli hann í friði.

Sveinbjörn Dagfinnsson.