Menningar- og minningarsjóður kvenna 50 ára 50 ÁR eru liðin frá stofnun Menningar- og minningarsjóðs kvenna. Haldið verður upp á afmælið með hátíðarfundi í Gerðubergi á morgun, laugardag.

Menningar- og minningarsjóður kvenna 50 ára

50 ÁR eru liðin frá stofnun Menningar- og minningarsjóðs kvenna. Haldið verður upp á afmælið með hátíðarfundi í Gerðubergi á morgun, laugardag.

Hugmyndina að stofnun sjóðsins átti Bríet Héðinsdóttir, en af formlegri stofnun varð þó ekki fyrr en rúmu ári eftir dauða hennar að börn hennar lögðu fram tvö þúsund kr. dánargjöf frá móður sinni. Það var á 85 ára afmælisdegi hennar 27. september 1941 og telst það stofndagur sjóðsins. Hefur sá dagur einnig verið fjáröflunardagur sjóðsins.

Hlutverk sjóðsins hefur fyrst og fremst verið að styrkja konur til náms, jafnt hér á landi sem erlendis með náms- og ferðastyrkjum. Ennfremur að veita konum styrk til ritstarfa eða verðlauna ritgerðir, einkum um þjóðfélagsmál er varða áhugamál kvenna. 335 konur hafa hlotið styrki úr sjóðnum til náms í ýmsum starfsgreinum. Margskonar listnám vegur þar þungt en einnig raunvísindanám og rannsóknarstörf.

Auk styrkveitinganna er annar þáttur í starfi MMK að varðveita minningu mætra kvenna og karla. Sjóðurinn hefur gefið út æviminningabækur alls í fimm bindum. Á Landsbókasafni er að finna handrit MMK-bókanna í veglegu bandi.

Fyrsti formaður sjóðsins var Laufey Valdimarsdóttir, við stofnun 1941, Næst kom Katrín Thoroddsen sem gegndi formennsku í meira en 20 ár. Núverandi formaður er Hjördís Þorsteinsdóttir sem jafnframt er framkvæmdastjóri KRFÍ.

Haldið verður upp á afmælið með hátíðarfundi í Gerðubergi laugardaginn 28. september og hefst dagskráin kl. 11.30.

Sigríður Erlendsdóttir sagnfræðingur mun flytja erindi um sögu og starfsemi sjóðsins. Þar verða flutt ávörp og tveir nemendur Guðmundu Elíasdóttur, Ása Lísbet Björgvinsdóttir og Vilborg Reynisdóttir syngja einsöng og tvísöng við undirleik Láru Rafnsdóttur. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

Stóra bókin" þ.e. handrit MMK-bókanna sem í eru æviágrip og myndir 376 kvenna og karla verða til sýnis fyrir gesti og fjölmiðla á fundinum.

Í tilefni af 50 ára afmælinu verða gefin út sérstök hátíðarkort sem verða fyrst um sinn til sölu á skrifstofu félagsins. Að lokum skal þess getið að sjóðurinn er í vörslu Kvenréttindafélags Íslands.

(Úr fréttatilkynningu)