RAGNAR Arnalds er frægur fyrir margt, m.a. fyrir að hafa verið á móti EFTA, EES-samningnum og núna aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 26. júlí síðastliðinn, sem svar við grein Björgvins G.
RAGNAR Arnalds er frægur fyrir margt, m.a. fyrir að hafa verið á móti EFTA, EES-samningnum og núna aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 26. júlí síðastliðinn, sem svar við grein Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns, er Ragnar enn og aftur komin í ham og lýsir yfir ragnarökum ákveði Íslendingar að sækja um aðild að ESB. Reynsla Íslendinga af alþjóðlegu samstarfi er hins vegar þveröfug við alla þá spádóma sem Ragnar hefur sett fram með heimsendatali sínu.

Atvinnuleysi mun verða 24% á Íslandi

Í alþingisumræðum um EES-samninginn segir Ragnar Arnalds: "En auðvitað er það ljóst að ef inn á íslenskan vinnumarkað flæðir vinnuafl á komandi misserum og árum í einhverjum mæli verða þessar tölur býsna fljótar að breytast og atvinnuleysi, sem er í dag þrisvar sinnum meira en áður var eða eitthvað í kringum 4%, getur verið komið upp í 14%, jafnvel 24% áður en nokkur veit af." Ragnar hafði rangt fyrir sér. Atvinnuleysi varð ekki 24%, 14% eða 10%, þvert á móti minnkaði atvinnuleysi og er í dag um 4%.

Menntamenn munu hverfa af landi brott

Enn fremur hélt Ragnar því fram í tengslum í umræðu um áhrif EES-samningsins að háskólamenntað fólk myndi hverfa af landi brott og í staðinn fengjum við ófaglært fólk, orðrétt sagði Ragnar: "Ég held að þessi samningur sé mjög hagstæður fyrir þá sem vilja flytja úr landi. En er það endilega víst að það sé hagstætt fyrir þjóðarheildina að horfa á eftir menntamönnum flytja af landi brott, háskólafólki sem við höfum kostað miklu til að mennta?" Ragnar hafði aftur alrangt fyrir sér því s.k. tölum Hagstofunnar voru 15.200 háskólamenntaðir starfandi á Íslandi árið 1991 en árið 2001 voru þeir orðnir 25.700 talsins. Með öðrum orðum,. háskólamenntaðir hurfu ekki af landi brott.

Samningar eru ekki gefin stærð

Í umræddri Morgunblaðsgrein sagði Ragnar að leiðtogar ESB vilji að sjálfsögðu fá Ísland inn í sambandið en það sé einungis vegna þess að þeir vilji fá yfirráð yfir sjávarauðlindum okkar. Aldrei hafa leiðtogar ESB talað á þeim nótum sem Ragnar heldur fram, þvert á móti hafa þeir rætt opinskátt um að vel komi til greina að semja um þessi atriði eins og kom skýrlega fram þegar forsvarsmenn ASÍ fóru til Brussel og hittu fulltrúa lögfræði- og sjávarútvegsdeildar ESB. Lykilatriði í þessu er að þetta eru samningar og í samningum er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram. En maður verður að hafa á hreinu hvað maður vill fá út úr samningum til að fá það sem maður sækist eftir.

Ekki bannað að hafa rangt fyrir sér

Vissulega getur það leitt til rangrar niðurstöðu að meta málflutning manna út frá því að þeir hafi áður haft rangt fyrir sér, því jafnvel forpokuðustu menn geta rambað á rétta niðurstöðu öðru hverju. Ragnar hefur hins vegar verið með afar ótrúverðug rök í sambandi við hugsanlega ESB-aðildarviðræður og hreinlega býr til sögur máli sínu til stuðnings. Til dæmis hafa leiðtogar ESB aldrei sagt að þeir vilji Ísland í sambandið vegna þess að þeir girnast fiskimið Íslendinga . Slíkt tal er uppspuni og umræðunni ekki til góðs. Þess vegna verður að vara við þeim sem beita heimsendaspám í stað rökstuðnings. Enginn heimsendaspámaður hefur haft rétt fyrir sér hingað til og sem betur fer geta slíkir menn einungis haft rétt fyrir sér einu sinni, án þess að fá notið spádómsgáfu sinnar.

Hvernig tökum við afstöðu?

Aðild Íslands að ESB er ekki bara spurning um hvað við græðum í krónum talið af samstarfinu, heldur líka spurning um pólitískan vilja okkar til að taka virkan þátt í því mikilvæga starfi sem fram fer innan ESB að gefnum viðunandi aðildarsamningi. Aðeins með því móti er hægt að mynda sér skynsamlega afstöðu því allt karp um hugsanlegan gróða eða tap er hreinlega ekki hægt að meta fyrirfram. Ekki frekar en menn gátu metið áhrif EES-samningsins á alla þætti íslensks samfélags. Til þess eru óvissuþættirnir of margir. En ótvírætt er hægt að segja í dag að allir þeir aðilar sem voru með spádóma um áhrif EES-samningsins vanmátu stórlega áhrif hans á íslenskt samfélag og skipti þar engu hvort menn voru með eða á móti. Afstaða okkar til ESB-aðildarviðræðna má því aldrei mótast af hræðsluáróðri þeirra sem hafa ótta sem afstöðu.

Eftir Hinrik Má Ásgeirsson

Höfundur er háskólanemi.